fimmtudagur, 30. desember 2004

Kettirnir

fengu góðan leikfélaga í heimsókn í dag. Þórgunnur Ása, 4ra ára gömul snót, fékk pappírskúlu hnýtta í band og höfðu bæði hún og kettirnir mikið gaman af að skottast um húsið með þetta leikfang. Meira að segja Birta sem er virðulegur hefðarköttur gleymdi bæði stund og stað og tók þátt í leiknum. Þegar Sunna og Kiddi komu að sækja dótturina sagðist hún kurteislega hafa áhuga á því að vera hérna lengur og var það auðsótt mál af okkar hálfu. Situr hún núna við eldhúsborðið og litar í litabók, þannig að ekki þarf nú mikið að hafa fyrir dömunni.

Valur fór út af örkinni áðan til þess að kaupa í áramótamatinn. Sjaldan hefur reynst jafn erfitt að ákveða hvað á að hafa í matinn, að hluta til vegna þess að Ísak blessaður er ekki hrifinn af hverju sem er, en það tókst um síðir. Naut á gamlárskvöld og humar á nýársdag - hins vegar tókst ekki betur til en svo að minn kæri fann hvergi humarinn. Þó er enn von, hann fór ekki í Sælkerabúðina í Kaupangi, ætli húsfreyjan verði ekki "send" þangað seinna í dag. Í "mjólkurbúðina" fór hann og keypti drykkjarföng fyrir fjölda manns - sem er frekar skrýtið í ljósi þess að við eigum ekki von á öðrum en okkur sjálfum í mat - nema hann haldi að ég ætli að drekka svona mikið....

Engin ummæli: