Hins vegar er bæði bekkjarkvöld hjá Ísak fyrir kvöldmat og námskeið hjá mér eftir kvöldmat þannig að ekki gefst tími til mikilla afreka í dag.
Ég átti víst alveg eftir að lýsa matseðlinum á Halastjörnunni. En eins og áður hefur komið fram gerðum við Kvennaklúbbsystur ásamt mökum okkur glaðan dag á föstudaginn. Við konurnar byrjuðum aðeins á undan körlunum, fórum í Hár og heilsu - fengum þar hálftíma nudd hver og fórum líka í heitan pott þar sem við nörtuðum í góðgæti frá Bakaríinu við brúna og skoluðum því niður með freyðivíni. Drifum okkur síðan heim og skiptum í föt í snatri því klukkan hálf átta kom rúta sem keyrði allan hópinn fram í Öxnadal.
Á Halastjörnunni beið húsfreyjan (nafnið á henni er alveg dottið úr mér í augnablikinu) og tók á móti okkur með krækiberja-fordrykk sem hún hafði sjálf lagað. Næst kom heimabakað brauð á borðið, fylgt eftir af himneskri fiskisúpu. Léttreyktur lundi á eplabeði kitlaði bragðlaukana vel en þar á eftir kom alveg frábær réttur; grískur geitaostur vafinn í parmaskinku og steiktur á pönnu. Umm! Þegar þarna var komið sögu byrjuðum við nærri því að slefa í hvert sinn sem húsfreyjan nálgaðist með nýja diska. Smokkfiskur kom skemmtilega á óvart og bragðaðist frábærlega eins og allt annað. Klykkt var út í lokin með súkkulaðiköku sem bráðnaði í munni og skildi fólk eftir í himnasælu.
Ekki spillti umhverfið fyrir og borðbúnaðurinn var skemmtilega ósamstæður. Súpan var m.a. borðuð með gömlum silfurskeiðum sem minntu fleiri en mig á þá tíð þegar foreldrar okkar áttu sérstakar skeiðar (gjarnan úr silfri) sem þau borðuðu með. Þjónustan var heimilisleg og fín og loks verður að geta þess að sá sem heiðurinn átti af matseldinni, Rúnar Marvinsson, var meira en til í að spjalla við gesti sem "villtust" inn í eldhús. Þar stóð hann sveittur yfir pottunum og var orðinn rauður í framan af öllum látunum - en það var ekki hægt að fara heim án þess að þakka honum sérstaklega fyrir matinn. Það er því miður alltof sjaldan sem maður upplifir svona herlegheit.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli