föstudagur, 31. desember 2004

Er ekki vel við hæfi

að eyða síðasta degi ársins í tiltekt? Ég er að reyna að hreiðra um mig í gamla herberginu mínu (sem ég eignaðist þegar ég var 12 ára en þá var byggt við húsið), þ.e. að búa mér til vinnuaðstöðu þar. Þetta er lúxusinn við að vera í svona stóru húsi, við Valur getum verið með sitt hvort vinnuherbergið, troðum hvort öðru ekki um tær á meðan... Hins vegar gera alls kyns mannvistarleifar eftir dóttur mína mér frekar erfitt um vik - hún hafði aðsetur hér inni síðast þegar hún bjó heima og þó hún sé farin þá er ýmislegt eftir enn. Stereogræjur, kertastjakar, risastór spegill og ýmislegt fleira.

Valur var að átta sig á því að hann gleymdi að ganga upp í Fálkafell (gamall skátaskáli hér fyrir ofan bæinn) í dag, nokkuð sem hann hefur haft fyrir venju síðustu árin. Stundum hef ég farið með honum, stundum ekki. Ætli við verðum ekki bara að ganga uppeftir á morgun í staðinn. Það er of seint í dag, bæði byrjað að snjóa og skyggja. Ekki þar fyrir, hann hefur engan veginn verið iðjulaus í dag, fremur en aðra daga. Búinn að þrífa grillið sem nautakjötið verður grillað á í kvöld, fara með hluti út í bílskúr fyrir mig, búinn að brjóta upp klaka við innkeyrsluna á bílaplanið og búinn að fara með mig í leikfimi í morgun. Og síðast en ekki síst er hann búinn að taka til kaffi frammi í eldhúsi - best að drífa sig!

fimmtudagur, 30. desember 2004

Kettirnir

fengu góðan leikfélaga í heimsókn í dag. Þórgunnur Ása, 4ra ára gömul snót, fékk pappírskúlu hnýtta í band og höfðu bæði hún og kettirnir mikið gaman af að skottast um húsið með þetta leikfang. Meira að segja Birta sem er virðulegur hefðarköttur gleymdi bæði stund og stað og tók þátt í leiknum. Þegar Sunna og Kiddi komu að sækja dótturina sagðist hún kurteislega hafa áhuga á því að vera hérna lengur og var það auðsótt mál af okkar hálfu. Situr hún núna við eldhúsborðið og litar í litabók, þannig að ekki þarf nú mikið að hafa fyrir dömunni.

Valur fór út af örkinni áðan til þess að kaupa í áramótamatinn. Sjaldan hefur reynst jafn erfitt að ákveða hvað á að hafa í matinn, að hluta til vegna þess að Ísak blessaður er ekki hrifinn af hverju sem er, en það tókst um síðir. Naut á gamlárskvöld og humar á nýársdag - hins vegar tókst ekki betur til en svo að minn kæri fann hvergi humarinn. Þó er enn von, hann fór ekki í Sælkerabúðina í Kaupangi, ætli húsfreyjan verði ekki "send" þangað seinna í dag. Í "mjólkurbúðina" fór hann og keypti drykkjarföng fyrir fjölda manns - sem er frekar skrýtið í ljósi þess að við eigum ekki von á öðrum en okkur sjálfum í mat - nema hann haldi að ég ætli að drekka svona mikið....

miðvikudagur, 29. desember 2004

Er að lesa

Karitas án titils eftir Kristínu Marju Baldursdóttur. Þetta er mikil saga, bæði að inntaki og lengd (447 bls.) og vel skrifuð. Eini gallinn er sá að ég get ekki lagt bókina frá mér fyrr en hún er búin - og sennilega ástæðan fyrir því að ég byrjaði ekki á henni fyrr! Ég hef þennan ávana að þurfa helst alltaf að vita hvernig sögurnar enda og á það jafnvel til að lesa endinn áður en ég er búin með bókina, manninum mínum til mikillar mæðu, hann skilur ekki svona háttalag. Á líka erfitt með að hætta að horfa á kvikmyndir og sjónvarpsþætti í miðjum klíðum, hangi jafnvel yfir einhverju sem mér finnst hundleiðinlegt, bara til að vita endirinn. Jafnframt er fátt sem veldur mér meiri gremju en myndir sem enda ekki. Bara allt í einu klippt á söguþráðinn og enginn fær að vita meir. En sem sagt - ég er ekki búin að lesa endirinn á Karitas - svo það er best að hverfa aftur á vit sögunnar og hætta þessu pári.

þriðjudagur, 28. desember 2004

Við fengum senda mynd af sætum

strák um daginn. Strákurinn heitir Rubén, býr í Paraguay og verður 4ra ára þann 12 janúar. Það hafði lengi verið ætlun okkar að styrkja barn gegnum SOS barnaþorpin og loksins létum við verða af því. Það kostar ekki nema 2.300 krónur á mánuði að vera styrktarforeldri barns og það finnst mér lítil upphæð en mikill ávinningur. Börnin búa í þorpum á vegum SOS, þau eignast nýja fjölskyldu sem samanstendur af "móður" og öðrum börnum, hugsað er vel um þau og þau ganga í skóla. Það verður gaman að fá að fylgjast með Rubén vaxa úr grasi.

Hér er núna snjór, 6 stiga frost og stillt veður. Valur farinn á skíði enda var verið að opna fjallið í dag. Andri lét sig hafa það að vakna (eftir kröftugar ábendingar þess efnis frá (ó)vinsælustu mömmu í heimi) og fer á bretti upp í fjall núna á eftir. Ísak hins vegar lét sér nægja í dag að vera á bretti á hólnum hér fyrir aftan húsið. Þannig að það er eingöngu ég sem er óíþróttamannsleg í dag, fer hvorki á skíði né bretti. Hins vegar fer ég í afmælisveislu nágranna okkar, Jóns á móti, eins og Valur kallar hann í pistli sínum í dag.

mánudagur, 27. desember 2004

Ég er bara ekki að skilja

hvernig hægt er að fá vöðvabólgu aldarinnar í axlir, háls og höfuð - og það í jólafríinu. Sleppti þremur dögum úr leikfimi og á bágt með að trúa því að það sé ástæðan. Ég hef lifað þvílíkt reglulegu lífi um jólin, farið snemma að sofa og út að ganga á hverjum degi, svo mér finnst þetta eiginlega hálf óréttlátt. Þrátt fyrir fínasta axlanudd frá eiginmanninum í gærkvöldi vaknaði ég undirlögð í áðurnefndum vöðvum í morgun og dreif mig í leikfimi.

Það voru nákvæmlega tveir aðrir að æfa í líkamsræktarstöðinni þannig að mér fannst ég nú bara vera dugleg að mæta á svæðið. En þrátt fyrir upphitun, æfingar, teygjur og gufu lagaðist ég ekki neitt. Tæplega þriggja tíma seta fyrir framan tölvuna í vinnunni gerði einungis illt verra og því er ég komin heim, búin að taka tvær verkjatöflur og ætla að leggjast upp í sófa með bók.

sunnudagur, 26. desember 2004

Hverfulleiki lífsins

hefur verið mér hugleikinn síðustu daga, ýmissa hluta vegna. Um miðja síðustu viku lést móðurbróðir vinar okkar og það síðasta sem ég gerði í vinnunni fyrir jól var að votta dóttur mannsins samúð mína. Á aðfangadag dó svo amma þessa sama vinar okkar og sama dag sagði vinkona mín frá fyrrverandi svila sínum (fjölskylduföður á besta aldri) sem berst við krabbamein. Í jólagjöf frá bóndanum fékk ég m.a. Ótuktina, bók Önnu Pálínu Árnadóttur, sem lést fyrir skömmu síðan úr krabbameini eins og flestir vita. Fjallar bókin um baráttu hennar við þessa ótukt sem krabbameinið er og er bókin alveg frábær aflestrar, enda var Anna Pálína alveg einstök kona.

Fyrstu kynni mín af henni (ekki persónuleg þó) voru þegar við keyptum diskinn "Berrössuð á tánum" fyrir Ísak en þá var hann ca. 3ja ára gamall. Diskurinn hljómaði inni og úti (í bílnum) allt að ár og langt fram á næsta. Það kemur nú ekki ósjaldan fyrir að foreldrarnir verða hálf þreyttir á að hlusta á tónlistina sem spiluð er fyrir börnin í bílnum (þetta var áður en allir krakkar eignuðust vasageislaspilara) en ég söng sjálf með Bullutröllum og fleiri lögum því þetta var svo skemmtilegur diskur.

Að öðru leyti hafa þetta verið hefðbundin jól, aðallega borðaður góður matur og sofið meira en góðu hófi gegnir. Það er þessi gullni meðalvegur sem oft reynist svo erfitt að rata. Þannig vaknaði ég alveg eins og sleggja í morgun og þrátt fyrir langan göngutúr með bóndanum hresstist ég lítið sem ekkert. Hann er öllu sprækari enda fór hann einum og hálfum tíma fyrr en ég á fætur í morgun. Búinn að laga til í skáp í vinnuherberginu (sem var fullur af hans dóti NB!) eftir að lítill fugl hvíslaði í eyra hans að það væri ágætt að nota tímann í tiltekt á annan í jólum...

föstudagur, 24. desember 2004

Allt

orðið hvítt úti, inni syngur Sissel Kyrkjebø og matarlyktin úr smiðju bóndans fyllir vitin.

Ég er í smá pásu, það er segin saga að þrátt fyrir fögur fyrirheit er ég alltaf á síðasta snúningi í tiltektinni á aðfangadag. En þetta er nú allt í góðum gír hjá mér, er meira að segja byrjuð að leggja á borð í stofunni og klukkan ekki einu sinni orðin fjögur.

Hef þetta ekki lengra að sinni, óska öllum Bloggheimsbúum (og hinum líka) gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Jólakveðjur að norðan ;-)

fimmtudagur, 23. desember 2004

Dekurdagur

hjá mér í dag. Leikfimi + gufa í morgun og ilmkjarna-andlitsbað eftir hádegi (yndisleg afmælisgjöf frá Bryndísi og Hafdísi, sem upplagt var að nýta sér á þessum annasama degi). Eini gallinn við svona mikla afslöppun er sá að ég er búin að vera eins og slytti allan seinni partinn. Þarf þó að taka mig saman í andlitinu, á eftir að kaupa eina litla jólagjöf, búa til súkkulaðihúðaða marsipan-núggat-rúllu og síðast en ekki síst, fara á bókasafnið. Það er auðvitað algjört "must" fyrir jólin.

Ég geri mér grein fyrir því að miklu er sjálfsagt stolið í verslunum á þessum árstíma, hins vegar finnst mér eiginlega hálf fyndið að sjá þessa stráka sem varla er vaxin grön vinna sem öryggisverðir í aukastarfi og horfa grunsemdaraugum á allt og alla. Í Rúmfatalagernum pípti í nánast hverjum manni sem gekk inn/út úr búðinni og þar var það fullt starf að stoppa allt þetta fólk og fá að kíkja ofan í töskurnar hjá þeim. Búið var að tína allt upp úr veski einnar konu en í hvert sinn sem veskið var sett í hliðið þá fór það að pípa. Ég sá nú ekki hvernig því máli lyktaði, gekk út og var dauðhrædd um að það myndi pípa í mér (minnug síðustu utanlandsferðar þegar hællinn á stígvélunum mínum var sökudólgurinn og ég gekk á sokkaleistunum gegnum tollhliðið).

Öllu ánægjulegra var að sjá hvað rómantíkin virtist blómstra hjá mörgum, kona sem stakk hendi undir arm eiginmannsins, ungt par að kyssast, gömul hjón að leiðast....

miðvikudagur, 22. desember 2004

Alltaf gott

að skila af sér verkefnum í vinnunni. Við vorum að klára verkefni og senda það frá okkur - verðlaunin voru þau að fara fyrr í jólafrí. Leyfði mér þess vegna að sofa til rúmlega níu í morgun, veitti heldur ekki af, var andvaka framan af nóttu og leið eins og fílahjörð hefði trampað yfir mig þegar ég vaknaði. Það var reytingur af fólki í ræktinni þrátt fyrir að jólin nálgist óðum, enda eru menn að átta sig á þeim sannleika allir vita innst inni að líkamsrækt er nauðsynleg nútímafólki, sérstaklega þeim sem sitja á rassinum fyrir framan tölvu allan daginn eins og ég. Kem þó til með að standa aðeins meira upp á endann eftir áramót þegar ég byrja að kenna markaðsfræðina ;-)

Annars er það svo skrítið að mér finnst gaman að kenna og hlakka til að byrja - en engu að síður er smá kvíði í mér. Veit að ég losna við hann um leið og fyrsti tíminn er búinn. En það er hálf fyndið að hugsa til þess að ég sem var svo hræðilega feimin hér áður fyrr skuli núna vera farin að kenna 100 krökkum. Ég man eftir því þegar ég var að byrja í háskólanáminu og við áttum að kynna verkefni og tala fyrir framan alla hina, úff ég var svo stressuð að ég mundi varla eftirá hvað ég hafði sagt. En ein kynning í ensku var tekin upp á videó og svo fékk maður að horfa á hana heima hjá sér í rólegheitum. Það var rosalega skrýtið en gott samt því þá sá ég að þetta hafði nú bara gengið ágætlega hjá mér. Dúndrandi hjartslátturinn sást ekki á upptökunni sem betur fer!

þriðjudagur, 21. desember 2004

Jóla hvað?

Það er ýmislegt sem bætist á mann í jólastressinu. Til dæmis datt Ísak það í hug um daginn að hann þyrfti alveg bráðnauðsynlega að eignast laser (lítið innrautt ljós í lyklakippu, upphaflega fundið upp fyrir fyrirlesara sem þurfa að benda á power-point showið á tjaldinu en litlir krakkar eru mun hrifnari af fyrirbrigðinu en fullorðnir að því er virðist vera). Og til að létta mér ákvarðanatökuna benti hann mér á að hann gæti bara fengið laser í skóinn! Ég er ekki talsmanneskja þess að gefa dýrar gjafir í skóinn þannig að ég gaf bara mjög lítið í nokkurn tíma en svo fékk hann laserinn. Og sá varð nú glaður.

Ekki liðu þó margir dagar þangað til mér var bent á að nú væri upplagt að hann fengi rafhlöður í laserinn (í skóinn að sjálfsögðu). Ég hafði nú ekki enn látið verða af því þegar hann hringir í mig í vinnuna í gær í miklu ofboði og nú var orðið um líf eða dauða að tefla að fá nýjar rafhlöður. Hann var hálf vælandi í símann og móðurhjartað bráðnaði alveg. Fór búð úr búð í hádeginu í því skyni að bjarga þessum málumm, árangurslaust, þar til mér datt í hug að fara á bensínstöð. Viti menn, þar fengust rafhlöður og ég var svo útsjónarsöm að kaupa sex stykki. En það var niðurlútur drengur sem tók á móti mér, laserinn hafði dottið í gólfið og dottið í sundur. Næsti hálftíminn fór í það að reyna að setja hann saman en ekki lukkaðist það nú.

Í gærkvöldi fékk ég svo SMS frá vinkonu minni þar sem hún stakk upp á spjalli yfir einum jólabjór. Mér fannst það góð hugmynd og Valur skutlaði mér til hennar. Við sátum við kertaljós og kjöftuðum og á einhverjum tímapunkti fór ég að rekja þessar laser-raunir mínar. Þá hittist þannig á að sonur hennar, 13 ára gamall heyrði allt saman og kom færandi hendi með laser sem hann hafði keypt á Spáni sl. sumar. Þetta var ennþá flottari laser en sá sem Ísak hafði fengið í skóinn, með fullt af aukahlutum, og strákurinn vildi endilega gefa Ísak hann. Ja, ef þetta er ekki andi jólanna þá veit ég ekki hvað! Og Ísak brosti eyrnanna á milli þegar hann fékk nýja laserinn afhentan í morgun :-)

sunnudagur, 19. desember 2004

Prentari var það heillin

Það fór þó aldrei svo að bóndanum tækist ekki að koma mér á óvart. Kom heim með þennan líka fína litaprentara. Nú á bara eftir að hanna jólakortin (hvernig skyldi það nú ganga?) og prenta þau svo út.

laugardagur, 18. desember 2004

Nú er það spennandi....

að sjá hvort Valur kemur heim með nýjan prentara......

Þannig er mál með vexti að í dag datt mér í hug að það gæti verið gaman að gera sjálf jólakortin í ár. Var nefnilega vön að búa þau til sjálf fyrir nokkrum árum síðan - en síðustu ár hafa verið keypt misjafnlega ljót kort og einhvern veginn hafa þau ekki sama sjarma og heimatilbúin. Svo ég sit og reyni að búa til kort með því að klippa út "mótív" (fyrirgefið enskuslettuna ég man ekki íslenska orðið í augnablikinu) og líma á karton - en þetta er bara ekki að virka hjá mér. Nánar tiltekið: Þetta eru ljótustu jólakort ever (önnur enskusletta, afsakið).

Klukkan er hálf tíu, minn heittelskaði situr í sófanum og hlustar á aríu úr Madame Butterfly þegar mér verður að orði: "Þetta er alveg glatað, ef við ættum litaprentara þá gætum við prentað út einhverja flotta mynd á jólakortin". "Ég fer bara og kaupi litaprentara" segir hann. "Yeah, right" segi ég (og ekki að ástæðulausu, eins ágætur og hann Valur minn er þá er það ekki akkúrat hans stíll að gera eitthvað spontant, þannig að ég hef ekki mikla trú á að það breytist einn tveir og bingó). Nema hvað, hann stekkur á fætur, segist bara fara í Tölvulistann og kaupa prentara. Hringir samt til að tékka á því hvort ekki sé örugglega opið - en það er búið að loka. Þá spyr ég af hverju hann fari ekki í Stefnu því þeir monti sig af því að vera ódýrastir í bænum. Fer á netið, finn símanúmerið þar og hringi. Viti menn, það er ennþá opið og þá hringir Valur næsta símtal í Kidda vin okkar (tölvuséní með meiru og vin Matta sem á Stefnu) til að spyrja hann út í það hvort þeir séu með almennilega prentara í Stefnu. Kiddi segist ætla að koma með og þeir tæta af stað...
Þannig að nú er það spennandi að sjá hvort þessi elska kemur heim með prentara eður ei...

Já, jólin hafa misjöfn áhrif á fólk

Fór áðan út að sækja Ísak á fótboltaæfingu. Á leiðinni ók ég framhjá versunarmiðstöðinni í Sunnuhlíð sem má nú reyndar muna sinn fífil fegurri en það er önnur saga. Ung kona var að koma þaðan út og hún sveiflaði handtöskunni sinni svo glaðlega fram og tilbaka að unun var á að horfa. Það sást langar leiðir að hún var í góðu skapi. Ók aðeins lengra og mætti gömlum manni sem var úti að ganga sér til heilsubótar. Það sem vakti athygli mína öðru fremur var endurskinsmerki sem hann hafði um sig miðjan, eins og belti. Hann virtist líka vera í góðu skapi því hann brosti út í annað og var kíminn á svipinn.

Annað var uppi á teningnum í Hagkaup. Þar var unglingsstúlka á ferð með móður sinni í þeim erindagjörðum að kaupa buxur. Mamman ávarpaði afgreiðslukonu og bað hana um að hjálpa þeim að finna buxur. Þá urraði stelpan "Má ég ekki bara skoða sjálf, hvað er eiginlega að þér?" Afgreiðslukonan hrökklaðist tilbaka og mamman reyndi að gera gott úr öllu, "Jú auðvitað, ég ætlaði bara að hjálpa þér". "Mig vantar enga hjálp" hvæsti dóttirin þá, alveg jafn illskuleg og áður og nú hrökklaðist mamman líka burt.

föstudagur, 17. desember 2004

Úff, púff,

nú er mín alveg búin á því. Jólagjafa-innkaupaferð nr. þrjú í dag (eða var það fjögur??) - nú er þetta alveg að smella. Bara eftir að finna gjöf handa mömmu og svo manni og börnum. Fór sem sagt í bæinn eftir vinnu og var í svona líka góðum gír þegar ég kom heim að mér datt í hug að fara að baka. Byrjaði á að gera deig í gamaldags "kreppukökur" eins og Valur kallar þær, en þetta eru smákökur sem mamma gerði alltaf og er uppskriftin komin frá Helgu Sig. (ef einhver í cyberspace skyldi vita hvaða hússtjórnarsnillingur það var).

Var enn í góða gírnum þegar þarna var komið sögu og ákvað að skella mér í að baka skinkuhorn. Hef að vísu ekki bakað skinkuhorn í MÖRG ár en taldi að best væri að tvöfalda uppskriftina (gamall vani síðan ég var dugleg að baka, já þið lásuð rétt, dugleg að baka (líka mörg ár síðan það var)). Á meðan deigið var að hefa sig kom bóndinn heim og snaraðist í að elda súpu úr smiðju Sollu á Grænum kosti. Eftir að hafa gætt mér á þessari dýrindis súpu hófst síðan fjörið. Og eftir að hafa staðið upp á endann í rúma 3 klukkutíma var afraksturinn hvorki meira né minna en 100 skinkuhorn! Sem eru komin ofan í poka og búið að frysta. Mín er bara ansi ánægð með árangurinn - en skrokkurinn á mér er hins vegar eins og ég hafi lent undir valtara. Ég "neyðist" víst til að fara í leikfimi í fyrramálið til að reyna að tjasla mér saman aftur.

fimmtudagur, 16. desember 2004

Forvitni

er furðulegt fyrirbæri. Það hefur löngum talist löstur að vera forvitinn og þar sem ég hef ýmsa lesti er ég að sjálfsögðu forvitin í meira lagi. Ekki þó á þann hátt að vilja vita sem mest um náungann (í þeim tilgangi að slúðra), ónei! Hins vegar vaknar forvitni mín oft í tengslum við ótrúlegustu hluti.

Þannig er mál með vexti að skrifstofan okkar Bryndísar er á svokölluðum tengigangi í byggingunni og ótrúlegur fjöldi fólks á þar leið um á hverjum degi á leið í matsalinn. Þrátt fyrir ónæði/hávaða á köflum viljum við helst hafa hurðina opna því fólk sem við þekkjum stingur þá oft inn nefinu og kastar á okkur kveðju þegar það á leið hjá. Gallinn er bara sá að þegar ég sit við vinnu mína lendi ég iðulega í því að heyra á tal fólksins sem gengur framhjá. Og heyri að sjálfsögðu bara slitur úr samtalinu því gangurinn er frekar stuttur. Þá kemur forvitnin upp í mér og mig langar ekki ósjaldan til að heyra meira.

Í dag t.d. gengu nokkrir karlmenn framhjá og umræðuefnið var epli. "Já, mér finnast Red Delicious mjög góð en vil helst ekki kaupa þau því þau eru geisluð" (Halló! Hvað á maðurinn við með geislum??? Hér er forvitni mín vakin). "Á ég að segja þér hvað ég geri við epli?" segir þá hinn. "Ég set þau alltaf í örbylgjuofninn". (Örbylgjuofninn??? Til hvers í ósköpunum? Hefur það eitthvað með geislana að gera?) Spyr ég sjálfa mig en heyri ekki meira því þeir eru farnir. Og eftir sit ég með sárt ennið, forvitnin alveg að drepa mig og minnstu munar að ég elti aumingja mennina fram í matsal til að fá forvitninni svalað.....

Er enginn annar

en ég þeirrar skoðunar að fólk sé farið að skjóta yfir markið í jólaskreytingum?

Svo það sé nú alveg á hreinu þá hef ég alls ekkert á móti því að lífga upp á skammdegið með jólaljósum. Málið er bara að fólk kann sér ekki hóf og það er magnið fremur en gæðin sem stjórnar ferðinni hjá ansi mörgum. Sumir virðast hafa tekið þá ákvörðun að setja jólaljós og aðrar skreytingar alls staðar þar sem pláss er að finna; Í alla glugga (jafnvel blikkandi ljós), utan á húsið (t.d. hinn ameríski Rúdolf með hreindýrið), þakskeggið, stóra grenitréð í garðinum, á runnana o.s.frv. Punkturinn yfir i-ið er svo upplýstur plastjólasveinn við útidyrnar og þessi nýju upplýstu hvítu gervijólatré sem búið er að setja á svalirnar eða dreifa víðsvegar um garðinn. Og það er EKKERT samræmi í þessu öllu saman!

Sem betur fer má líka sjá mörg smekklega skreytt hús (þar sem t.d. sami liturinn er gegnumgangandi og hugsað um gæðin ekki magnið) - en hið gagnstæða er bara svo algengt. Þetta var nöldur dagsins. Lofa að skrifa eitthvað jákvætt næst :-)

miðvikudagur, 15. desember 2004

Tilviljanir

eru ótrúlega skemmtilegar. Ég fór í leikfimi í morgun en var hálf lúin eftir smákökubaksturinn í gærkvöldi. Var þess vegna bara stutt á æfingu og skellti mér í langt gufubað í staðinn. Við vorum fjórar konur í búningsklefanum og vorum allar að klæða okkur á svipuðum tíma. Þá tók ég eftir því að þrjár okkar voru í dökkum teinóttum buxum og hvítri blússu/peysu að ofan og sú fjórða var líka í hvítri peysu. Mér fannst þetta hryllilega fyndið en vissi ekki hvort það væri við hæfi að vekja athygli hinna á þessu enda finnst konum fátt verra (skv. kerlingabókunum amk.) en vera eins klæddar. En þá segir ein: "Sjá okkur, það mætti halda að við værum að fara á kóramót, allar í eins fötum". Og jú, jú, auðvitað höfðum við allar tekið eftir þessu og hlógum hjartanlega að þessari tilviljun.

Sem minnir mig á aðra tilviljun. Þegar við Valur komum frá París og vorum að keyra norður í brjáluðu veðri um miðjan október kveiktum við á útvarpinu e-s staðar í Húnavatnssýslunni. Það skrýtna var að við náðum ekki einni einustu íslenskri útvarpsstöð - en þremur eða fjórum norskum. Norskar stöðvar voru þær einu sem náðust og okkur fannst það sérstaklega fyndið í ljósi þess að um þessi áramót eru 10 ár síðan við fluttum aftur heim frá Noregi og þetta er í fyrsta skipti á öllum þessum tíma sem við náum norskri útvarpsstöð í bílnum.

þriðjudagur, 14. desember 2004

Finnst ég ekki hafa frá neinu að segja

og ætti þá líklega að þegja. Ég er greinilega ekki nógu dugleg þessa dagana við að veita hlutum athygli sem gætu nýst mér í blogg-skrifin.

Sama rútínan alla daga: Leikfimi eða sund, vinna fram að hádegi, fara heim og lesa blöðin (gæti nú t.d. reynt að gera eitthað annað)+ taka á móti Ísak þegar hann kemur heim úr skólanum, aftur í vinnuna, versla í kvöldmatinn, hugsanlega fara út að ganga (eða leggjast hreinlega í leti í sófanum), setja í þvottavél, borða kvöldmat, taka Ísak í háttinn, lesa fyrir hann og láta hann lesa fyrir skólann, hengja upp úr þvottavélinni, flakka um á netinu/blogga, horfa á sjónvarp og fara svo að sofa....

Er nema von að ég hafi ekki frá neinu að segja??


mánudagur, 13. desember 2004

Eftir að hafa hreinsað kattasandkassann

er nefið á mér svo stútfullt af ammoníak-lykt að mér liggur við yfirliði. Þetta er refsingin fyrir að hafa látið líða 2-3 daga milli þess að hreinsa úr kassanum. Þessir kettir mínir eru svo miklar blúndur að þau fara helst ekki út fyrir hússins dyr nema það sé nægilega hlýtt úti að þeirra mati og snjókoma eða rigning eiga alls ekki upp á pallborðið hjá þeim. Þannig að þau gera þarfir sínar eingöngu innandyra þessa dagana (sem er náttúrulega hið besta mál, þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því að þau séu að skíta í sandkassa sem ætlaðir eru börnum) . Í sumar áttu þau reyndar sérstakt utandyra"klósett" en það er mexíkóskur arinn sem við setjum upp á sólpallinum yfir sumarmánuðina, í þeim tilgangi að kveikja í honum þegar kólnar á kvöldin. Einhverra hluta vegna hefur þessi blessaður arinn aldrei verið nýttur í sínum upphaflega tilgangi en kettirnir voru snöggir upp á lagið, enda sandur í botninum og gat framaná, alveg eins og á kassanum þeirra inni!

sunnudagur, 12. desember 2004

Allt hefst þetta að lokum

Fór fyrstu jólagjafa-innkaupaferðina í gær en gafst upp eftir rúman klukkutíma. Það á svo illa við mig að vera í þessu stappi, allar búðir fullar af fólki og ég ekki alveg upplögð. Rakst þá á konu gamals vinar Vals og bauð þeim að koma í mat til okkar um kvöldið. "Er það ekki alltof mikið ómak fyrir þig?" spurði hún en ég sagði að það væri bara ekkert ómak fyrir mig, það væri Valur sem eldaði matinn.....

Þau komu svo í mat en Valur var að prófa nýja afríska uppskrift að kjúklingarétt sem hann tók úr Fréttablaðinu. Uppskriftin var komin frá kokki Alþjóðahússins og var rétturinn mjög góður en kannski í sterkara lagi fyrir þá sem ekki eru vanir sterkum mat. Sem er ekki vandamál fyrir okkur, við viljum helst hafa meira bragð heldur en minna en það sást að gestirnir eru greinilega vanari hefðbundnum íslenskum mat, þó þau hafi að vísu gert matnum góð skil.

Í dag, að lokinni sundferð og kaffi/te með ristuðu brauði, var svo farið í jólagjafa-innkaupaferð númer tvö og lukkaðist hún ögn betur en sú fyrsta. Enda fór ég með bóndanum og hann er talsmaður þess að vera snöggur að hlutunum! Núna er hann að bræða úr handþeytaranum í eldhúsinu (við eigum ekki hrærivél, þvílíkt húshald) en markmiðið er að baka súkkulaði/lakkrís/marens smákökur. Það er best að fara og bjóða fram aðstoð sína :-)

laugardagur, 11. desember 2004

Það er svo auðvelt

að missa sig í eitthvað stress á þessum tíma ársins. Hugsanir um allt það sem maður á eftir að gera fyrir jólin, sem er reyndar afar takmarkað því á þessu heimili er ekki farið í stórhreingerningu fyrir jól og það er enginn óskaplegur fjöldi af jólagjöfum sem þarf að kaupa. Hins vegar þarf að kaupa/skrifa/senda jólakort, baka 2-3 smákökutegundir, setja upp jólaseríurnar og skrautið, kaupa jólagjafir tímanlega sem eiga að fara suður og til útlanda, kaupa í jólamatinn og kaupa jólaföt á strákana fyrir litlu jólin í skólanum. Engin ósköp en nóg til þess að raska ró minni og gera það að verkum að mér finnst að ég sé að verða of sein með allt.

Núna ætla ég að setjast niður og skipuleggja hvern dag fram að jólum.... já, það sakar ekki að láta sig dreyma... einhverra hluta vegna tekst mér aldrei að vera skipulögð í jólaundirbúningnum. Kem kannski heim úr vinnunni, er að drepast úr þreytu og framkvæmi ekki neitt af því sem er á "á eftir að gera" listanum mínum. En nú er laugardagur og mál að þessu væli linni. Best að rífa sig úr heimagallanum (gamlar, snjáðar flauelsbuxur og flíspeysa sem var einu sinni hvít), fara í bæjargallann og kaupa jólagjafirnar sem eiga að fara til Noregs. Hvað langar þig mest í Anna mín?

föstudagur, 10. desember 2004

Fór í klippingu í dag

eins og blogg-kunningjakona mín í Reykjavík. En gagnstætt við hana þarf ég að lita á mér hárið, enda orðin meira en lítið grá í vöngum og ekki alveg tilbúin að verða svona "gömul" strax. Á meðan ég beið með litinn í hárinu las ég Nýtt Líf, Mannlíf, Séð og heyrt.. en sat svo stundarkorn og slappaði af. Þá varð ég m.a. vitni að eftirfarandi orðaskiptum:

Strákur (ca. 10-11 ára) segir við hárgreiðslukonuna: "Þegar þú varst lítil, hvað langaði til þá til að verða þegar þú yrðir stór?"

"Mig langaði annað hvort til að verða hárgreiðslukona eða sálfræðingur."

"Sálfræðingur! Af hverju langaði þig til að verða sálfræðingur?"

"Ég veit það ekki, mér fannst það bara eitthvað svo spennandi".

"Mamma segir að sálfræðingar séu þeir sem langaði til að verða læknar en voru ekki nógu gáfaðir og þess vegna urðu þeir sálfræðingar."

Samtalinu lauk reyndar ekki alveg hér, hárgreiðslukonan sagði að sig hefði nú aldrei langað til að verða læknir, og eitthvað ræddu þau þetta áfram. Hins vegar varð þetta svar stráksins til að gefa orðatiltækinu "Það læra börnin sem fyrir þeim er haft" alveg nýja merkingu í mínum huga. Hugsið ykkur hvernig við viðhöldum fordómum endalaust í þjóðfélaginu þegar börnin okkar drekka þá í sig svo að segja með móðurmjólkinni.

Og hugsa sér hvað börnin okkar gætu orðið víðsýn ef aðeins við foreldrarnir kynnum að gæta tungu okkar betur. Já, ekki bara gæta þess hvað við segjum heldur miða markvisst að því að tala á uppbyggjandi hátt við börnin okkar. Um þau sjálf, skólann (og kennarana), öryrkja, gamalt fólk, nýbúa... o.s.frv. Mikið væri nú uppbyggilegt að búa í heimi þar sem jákvæðni í garð annarra væri ríkjandi. Þar sem við værum ekki alltaf að upphefja okkur sjálf á kostnað annarra. Þar sem fólk er metið að verðleikum fyrir það hvað það er, ekki fyrir það hvað það á.

fimmtudagur, 9. desember 2004

Eins og tölvur eru frábær uppfinning

þá eru þær vinnuvistfræðilega afar óhollar. Mér verður t.d. alveg rosalega illt í augunum af að stara á tölvuskjáinn 6-8 tíma á dag, að ekki sé minnst á stífar axlir og "músarhendi". Lét mæla í mér sjónina um daginn og fékk að vita að ég sé verr með hægra auganu, er með -0,5 þeim megin. En af því þetta er eitthvað svo lítil sjónskekkja þá finnst mér hálf asnalegt að hlaupa til og fá mér gleraugu. Get samt ekki varist þeirri hugsun að ef það gæti orðið til þess að mér liði ögn betur í augunum þá væri það þess virði. Hef þess vegna farið nokkrar ferðir í gleraugnabúðir og mátað gleraugu en finnst ég svo hallærisleg með þau öll að ég fer alltaf jafn harðan út aftur. Og hvað ef ég fengi mér gleraugu og skánaði ekkert í augunum?

miðvikudagur, 8. desember 2004

Fyrsta krampakennda tilraunin

til að komast í smá jólastemmingu fór fram skömmu fyrir kvöldmat í dag. Fór niður í geymslu og sótti aðventuljósið (dugleg, bráðum 3ji í aðventu) og jólagardínurnar. Það byrjaði þó ekki gæfulega því ekki vildi kvikna á aðventuljósinu þegar ég stakk því í samband. Fyrir tilviljun fann ég ljósaperur sem pössuðu (var að leita að kennaratyggjói og voila! í sömu skúffunni fann ég perur) en þá var þrautin þyngri að finna út hvaða pera eða perur voru ónýtar.

Ég fór kerfisbundið yfir ljósin og skipti út einni peru í einu, árangurslaust. Þá datt mér helst í hug að fleiri en ein væru ónýt og þá var úr vöndu að ráða því ég átti ekki nógu margar til að skipta þeim öllum út. Eitthvað hefur þó athyglisgáfan verið farin að gefa sig því eftir að hafa nært mig á heimagerðri pítsu úr smiðju bóndans fann ég biluðu peruna í fyrstu tilraun!

Eftir að vera búin að þræða rauðar jólagardínur á neðri kappann í gluggunum er ég ekki frá því að votti fyrir örlitlum skilningi hjá mér á því að jólin nálgast nú óðfluga. Á reyndar eftir að sækja stóru piparkökuhjörtun (sem skreytt eru með hvítum glassúr og hanga í rauðum borðum) ofan í frystikistu og hengja þau upp á efri kappana á gardínunum. Mér fannst ansi snjallt þegar mér datt í hug að frysta hjörtun milli jóla og eru þau orðin 5-6 ára gömul núna. Talandi um endurnýtingu.....

Átti annars sérlega ánægjulegt símtal við gamlan mann í dag. Hann hringdi hingað til að fá heimilisfangið hjá Guðjóni bróður Vals sem hafði verið í sveit hjá honum um fermingaraldur. Gamli maðurinn kom með ýmis gullkorn í þessu samtali sem varði í nærri 40 mínútur. Meðal annars sagði hann um pabba (eftir að hafa grennslast fyrir um það hverra manna ég væri) að hann hefði ekki bundið bagga sína sömu hnútum og aðrir. En mesta gullkornið kom þegar sá gamli bað mig að skila kæru þakklæti til Vals því hann hefði lagað svo vel á sér skaufann hérna um árið!

mánudagur, 6. desember 2004

Er með höfuðið fullt af hugsunum

eins og svo oft áður eftir námskeiðin hjá Þorvaldi Þorsteins. Þetta eru góðar hugsanir og til þess gerðar að hjálpa mér áleiðis í lífsdansinum en eini gallinn er sá að ég kann ekki að slökkva á hugsanastraumnum þegar ég ætla að fara að sofa. Hef ekki fundið on-off takkann ennþá... Ligg í rúminu, reyni að slaka á, prófa að telja andardrætti o.s.frv. en hringekjan í höfðinu á mér er óstöðvandi, fer bara áfram hring eftir hring, hraðar og hraðar. Mér var einu sinni sagt að besta ráðið til að stöðva hugann væri að fara á fætur og gera eitthvað verklegt s.s. strauja eða laga til - en ef satt skal segja hef ég aldrei prufað það. Held einhvern veginn að það yrði ekki vinsælt hjá öðru heimilisfólki þegar kveikt yrði á ryksugunni um miðja nótt!

Annars er mér efst í huga þakklæti til þessa indæla fólks sem ég var með á námskeiðinu. Að vera í hópi fólks sem maður þekkir afar takmarkað en geta engu að síður deilt hugsunum sínum með þeim og skipst á skoðunum á jafnréttisgrundvelli (þrátt fyrir afar ólíkan bakgrunn) eru í raun forréttindi. Ef eitthvert þeirra les þessi orð mín þá þakka ég kærlega fyrir samfylgdina og vona að við látum ekki sitja við orðin tóm, heldur höldum fast í þessi tengsl sem hafa myndast.

18 dagar til jóla

og ég er ekki farin að gera neitt sem talist getur til jólaundirbúnings - ekki einu sinni búin að setja aðventuljós í gluggann! Minn heittelskaði stendur sig aðeins betur, fór upp á þak í gær og setti seríu á þakskeggið. Því miður vantaði einhverjar 20 eða 30 ljósaperur á seríuna (og búðin lokuð) þannig að það varð smá bið á ljósadýrðinni. Hann ætlaði líka að byrja að baka mömmukossa en það vantaði flest til bakstursins s.s. sýróp, þannig að það varð líka bið á smákökunum! Þetta stendur þó allt til bóta, hann tók sér frí í vinnunni í dag og er búinn að kaupa ljósaperur í seríuna. Ég fer svo í Bónus eftir vinnu og kaupi hráefni til smákökubaksturs.
Hins vegar er bæði bekkjarkvöld hjá Ísak fyrir kvöldmat og námskeið hjá mér eftir kvöldmat þannig að ekki gefst tími til mikilla afreka í dag.

Ég átti víst alveg eftir að lýsa matseðlinum á Halastjörnunni. En eins og áður hefur komið fram gerðum við Kvennaklúbbsystur ásamt mökum okkur glaðan dag á föstudaginn. Við konurnar byrjuðum aðeins á undan körlunum, fórum í Hár og heilsu - fengum þar hálftíma nudd hver og fórum líka í heitan pott þar sem við nörtuðum í góðgæti frá Bakaríinu við brúna og skoluðum því niður með freyðivíni. Drifum okkur síðan heim og skiptum í föt í snatri því klukkan hálf átta kom rúta sem keyrði allan hópinn fram í Öxnadal.

Á Halastjörnunni beið húsfreyjan (nafnið á henni er alveg dottið úr mér í augnablikinu) og tók á móti okkur með krækiberja-fordrykk sem hún hafði sjálf lagað. Næst kom heimabakað brauð á borðið, fylgt eftir af himneskri fiskisúpu. Léttreyktur lundi á eplabeði kitlaði bragðlaukana vel en þar á eftir kom alveg frábær réttur; grískur geitaostur vafinn í parmaskinku og steiktur á pönnu. Umm! Þegar þarna var komið sögu byrjuðum við nærri því að slefa í hvert sinn sem húsfreyjan nálgaðist með nýja diska. Smokkfiskur kom skemmtilega á óvart og bragðaðist frábærlega eins og allt annað. Klykkt var út í lokin með súkkulaðiköku sem bráðnaði í munni og skildi fólk eftir í himnasælu.

Ekki spillti umhverfið fyrir og borðbúnaðurinn var skemmtilega ósamstæður. Súpan var m.a. borðuð með gömlum silfurskeiðum sem minntu fleiri en mig á þá tíð þegar foreldrar okkar áttu sérstakar skeiðar (gjarnan úr silfri) sem þau borðuðu með. Þjónustan var heimilisleg og fín og loks verður að geta þess að sá sem heiðurinn átti af matseldinni, Rúnar Marvinsson, var meira en til í að spjalla við gesti sem "villtust" inn í eldhús. Þar stóð hann sveittur yfir pottunum og var orðinn rauður í framan af öllum látunum - en það var ekki hægt að fara heim án þess að þakka honum sérstaklega fyrir matinn. Það er því miður alltof sjaldan sem maður upplifir svona herlegheit.

sunnudagur, 5. desember 2004

Er búin að sitja yfir

bókhaldi í allan dag og hef hvorki haft tíma né orku í að blogga. Gengur vonandi betur á morgun!

laugardagur, 4. desember 2004

Get núna skrifað íslenska stafi

í fyrirsögnina - hlóð niður mozilla vafranum og viti mennn, íslensku stafirnir virka þar. Verð að segja frá ótrúlegri veislu fyrir bragðlaukana sem við hjónin áttum því láni að fagna að upplifa í kvöld. Sexréttaður matseðill í Halastjörnunni í Öxnadal. Rúnar Marvinsson eldaði og þetta var bara hreinlega það besta "ever". Nánari lýsing á morgun. Akkúrat núna er ég svo vel mett og búin að drekka ca. einu vínglasi of mikið þannig að það er best að fara að sofa. Sjáumst á morgun!

fimmtudagur, 2. desember 2004

Á í erfiðri baráttu við sjálfa mig

þessa dagana. Ástæðan er sú að strákur sem var hættur að koma og leika við yngri son minn hefur aftur stungið upp kollinum. Ég hef svo blendnar tilfinningar til þessa stráks, partur af mér vorkennir honum en á hinn bóginn þá fer hann alveg hræðilega í taugarnar á mér.

Þessi strákur flutti hingað í bæinn í fyrra ásamt pabba sínum. Mamman er ekki inni í myndinni og hefur strákurinn ekki hafa neitt samband við hana. Pabbinn vinnur ekki úti en sonurinn segir að hann vinni heima á tölvuna. Vandinn er sá að það virðist bara alls ekki vera hugsað nógu vel um strákinn. Hann er að vísu yfirleitt í hreinum fötum en virðist ótrúlega afskiptur að öðru leyti. Í fyrra fékk hann einu sinni að gista hjá okkur, hringdi heim og fékk leyfi. Pabbinn talaði ekkert við mig og kom ekki einu sinni með tannbursta handa stráknum. Þetta var á föstudagskvöldi og stráksi hafði verið hér frá hádegi. Nóttin leið og næsti dagur og aldrei hringdi pabbinn, né kom, til að grennslast fyrir um soninn. Ég sendi hann heim um kvöldmatarleytið á laugardeginum en þá hafði hann verið hér í einn og hálfan sólarhring.

Hann kom hingað á hverjum degi í langan tíma, yfirleitt strax eftir skóla, þó ég brýndi fyrir honum að hann ætti fyrst að fara heim og borða. Og við þurftum nánast að reka hann heim með valdi á kvöldin. Hann sagðist ekki þurfa að koma heim fyrr en kl. átta því þá væri kvöldmatur hjá þeim. Oft þegar við ætluðum að senda hann heim þá fór hann bara út, beið þangað til við vorum búin að borða og hringdi þá bjöllunni aftur. Um vorið fór bekkurinn saman ásamt foreldrum út í Kjarnaskóg að grilla. Hringt var í alla foreldra til að tilkynna ferðina. Þegar hringt var í pabba stráksins sagðist hann ekki reikna með að nenna að mæta! Enda kom hvorugur þeirra.

Þó pabbanum virðist þykja mjög vænt um strákinn (kyssir hann bless þegar hann er að skutla honum eitthvert, leiðir hann úti á götu o.s.frv.) þá er ýmsu í uppeldinu mjög ábótavant. Strákurinn fær að horfa á sjónvarpsþætti eins og CSI og annað efni sem bannað er börnum. Kannski ekki skrýtið að hann hefur orðaforða sem hæfir mun eldri strákum. Svo er hann ótrúlega frekur og telur sjálfsagt að vera hér lon og don + fá hádegismat og kaffi - en þakkar aldrei fyrir sig.

Mitt vandamál er sem sagt það að syni mínum finnst þessi strákur skemmtilegur og vill gjarnan leika við hann en ég vil helst ekki að þeir séu of mikið saman. Og eins og áður sagði þá fer hann bara svo í taugarnar á mér. Veit að ég er hræðilega vond því hann hefur það greinilega hálf skítt heima hjá sér en ég ræð bara ekki við þessar tilfinningar mínar. Algjörlega lost í þessu máli!

miðvikudagur, 1. desember 2004

120

ára hefði amma Pálína orðið í dag, væri hún enn á lífi. En, eins og áður hefur komið fram í þessum pistlum mínum, þá náði hún þeim áfanga að verða 100 ára en dó skömmu síðar. Amma átti framan af ævi heima á Rauðabergi í A-Skaftafellssýslu og þar fæddist mamma líka, árið 1926, í torfbæ. Fyrir nokkrum árum fórum við Valur og strákarnir í orlofsíbúð í Hornafirði og þá komu mamma og Ásgrímur maðurinn hennar líka þangað. Það var virkilega gaman að fara með henni um þessar fornu slóðir og líta augum "tætturnar" eins og hún kallaði það sem eftir var af torfbænum, hruninn grjótgarð sem afi Páll hafði hlaðið og tæran lækinn þar sem mamma veiddi silungana (greip þá með berum höndum þegar þeir syntu framhjá).

Það er ótrúlega erfitt fyrir nútímafólk eins og okkur að gera sér grein fyrir því hversu hörð lífsbaráttan hefur verið hér áður fyrr. Eldri bróðir mömmu, Sigurbergur, fór ungur að heiman til að vinna fyrir peningum til að senda heim. Sá yngri, Daníel, varð eftir heima, tók 18 ára gamall við rekstri búsins og vann myrkranna á milli við að koma öllu í nútímalegra horf, m.a. lét hann byggja þar steinhús ofl. Mamma var yngst, það var langt á milli bæja og hún átti í raun enga leikfélaga nema dýrin. Skólaganga var af skornum skammti, og þegar mamma lærði til ljósmóður seinna meir tók námið ekki nema tæpt ár að ég held. Já, í dag eru breyttir tímar, það sem þótti lúxus hér áður fyrr þykir sjálfsagt í dag - og ótal margt sem ekki fyrirfannst hér áður fyrr gætum við ekki án verið í dag. Sjónvarp, rafmagn, þvottavélar, tölvur, bílar, ferðalög til útlanda, tískufatnaður, .... listinn er óendanlegur. Sumt gott - annað slæmt. Kannski væri ekki svo vitlaust að staldra við annað slagið, setja hlutina í samhengi og þakka fyrir hvað við höfum það gott ;-)

Læt þessum hugleiðingum hér með lokið enda farin fram úr sjálfri mér í tilvistarlegum vangaveltum (sem ekki verða skráðar hér).

Ákvað að vera dömuleg

í morgun og skellti mér í pilsi í vinnuna. Eini gallinn við þetta pils er sá að það er skósítt og frekar þröngt. Óhjákvæmileg afleiðing verður sú að skreflengdin verður ansi stutt - ég skálma ekki áfram eins og ég er vön að gera - og það þarf sérstaka lagni við að stíga upp í upphækkaðan jeppann.

Þegar ég var að ganga inn á vinnustaðinn sá ég að það var karlmaður rétt á hæla mér og ég, af meðfæddri kurteisi minni, hélt dyrunum opnum fyrir honum. Hann þakkaði fyrir og ennþá var allt í besta lagi. Gamanið fór hins vegar að kárna þegar ég gekk á undan honum upp tröppurnar og þrátt fyrir að reyna að flýta mér fann ég hvernig hann andaði gjörsamlega á hnakkann á mér. Það leið ekki á löngu þar til þolinmæði hans var á þrotum og hann missti út úr sér "Ja, þú kæmist ekki langt á hlaupum ef það væri hungrað ljón á eftir þér". Hér ber kannski að taka það fram að viðkomandi maður (Siggi Bjarklind) er langhlaupari og líklega vanur að taka ansi mikið stærri skref, en ég var snögg upp á lagið og svaraði því til að "Ef það væri hungrað ljón á eftir mér, þá myndi ég nú bara kippa upp um mig pilsinu". Við þessu átti hann ekkert svar og ég var bara ansi ánægð með mig. Yfirleitt dettur mér nefnilega ekkert sniðugt í hug fyrr en löngu seinna og þá er nú frekar asnalegt að fara að leita fólk uppi til að svara því :-)