Í morgun gerði ég eitt sem ég hef aldrei gert áður. Ég var búin að setja sundfötin í tösku og klæða mig í útiföt þegar ég opnaði útihurðina - og lokaði henni aftur án þess að fara í sund. Veðrið var svo ótrúlega leiðinlegt eitthvað. Rétt um það leyti sem ég opnaði hurðina brast á með norðan stórhríð og ég bara gat ekki hugsað mér að ráfa um á sundlaugarbakkanum í þessu veðri. Þannig að í staðinn fór ég í vel heitt bað hérna heima. Stillingin á krananum gerir það hins vegar að verkum að ég næ baðinu aldrei eins heitu og ég helst vildi hafa það, en ég brenni mig þá heldur ekki á meðan.
Í vinnunni er það vörutalning sem er aðalmálið þessa dagana. Sem fyrr, þá lokum við ekki búðinni því það er svo rólegt, en dundum okkur við þetta í einhverja daga. Fyrstu dagarnir eru yfirleitt bærilegir en svo þegar á líður fer þetta að verða ansi leiðigjarnt. Ekki bætir úr skák að við erum alltaf að fjölga vörutegunum, þannig að þetta verður eiginlega seinlegra ár frá ári. En jú jú, það hefst allt að lokum.
Birta er enn mjög óróleg á köflum og greinilega mjög öryggislaus þegar Mána vantar. Í morgun grenjaði hún stanslaust í nærri einn og hálfan tíma og ég var hreinlega að tapa vitglórunni. Á endanum tók ég hana í fangið og hélt henni fast (nokkuð sem hún vildi aldrei leyfa í seinni tíð) og þá loksins hætti hún að væla og fór að mala. Áður var ég margoft búin að klappa henni og klóra en það dugði aldrei, hún vildi bara endalaust meira.
Ég hef verið að rembast við að safna hári undanfarið hálft ár eða svo, en er svona við það að gefast upp á því. Eins og minn ástkæri eiginmaður benti réttilega á, þá dregur síðara hár mig enn meira niður í útliti þegar ég er þreytt. Sem ég er langoftast, og kannski ekki gott að ýkja þreytu-útlitið enn meira. Þannig að í dag hringdi ég neyðarhringingu í hana Ernu mína, sem ætlaði í raun ekki að vera að klippa í dag en tók mig að sér engu að síður, og hún klippti töluvert af hárinu. Ég er nú ekki frá því að ég hafi lagast talsvert við þetta en hef ekki fengið viðbrögð annarrra ennþá, svo það er ekki gott að segja...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli