laugardagur, 8. janúar 2011

Jamm og jæja

Ég er eitthvað hálf andlaus í augnablikinu. Það gæti reyndar haft eitthvað að gera með þá staðreynd að ég er búin að vera að vinna mikið í pappírum undanfarið og fyrir framan tölvu + að við erum endalaust að telja vörur í vinnunni. Sem sagt ekki mikið um upplyftingu. Það rætist nú reyndar úr því á morgun, bara spurning um hvaða upplyftingu verður að ræða. Við Valur eigum miða á tónleika með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í Hofi klukkan fjögur - en svo er fyrsta kóræfing ársins klukkan fimm - og nokkuð ljóst að ég get ekki verið á báðum stöðum.

Annars verð ég nú eiginlega að segja frá því að Valur gaf mér bók um söngtækni í jólagjöf og bætti um betur með því að gefa mér fimm söngtíma líka. Ég er aðeins búin að fletta bókinni og á örugglega eftir að hafa mjög gaman af bæði bókinni og söngtímunum.

Talandi um jólagjafir þá fengum við sjónvarpsþætti með Dr. House í jólagjöf frá Önnu og Kjell-Einari og við Valur erum að horfa á þá, svona á svipaðan hátt og maður myndi borða uppúr góðum konfektkassa. Einn þátt á kvöldi, einstaka sinnum tvo ;-)

Já og talandi um fleiri jólagjafir þá fékk ég þessar fínu ullarhosur (tátiljur) frá mömmu, sem hún var að sjálfsögðu búin að prjóna sjálf. Svona jólagjafir sem ylja koma sér alltaf vel, sérstaklega þegar manni (konu) er alltaf kalt eins og mér.
Og þar sem við erum komin að jólum þá koma áramótin næst í hugann. Hrefna og Egil borðuðu hjá okkur en venjulega er Hrefna hjá föðurfjölskyldunni um áramótin. Þá buðum við Einari pabba Hrefnu líka í mat, svo það var óvenju fjölmennt, eða sjö í mat. Sem er mikið miðað við í fyrra en þá vorum við bara þrjú... Ég tók fram myndavélina en annars er ég óhemju léleg að taka myndir hér heima við.

Engin ummæli: