fimmtudagur, 27. janúar 2011

Meira kellingablogg

Já það er nú meira hvað ég er endalaust að blogga þessa dagana. Að einverju leyti er það fyrir Val, svo hann þurfi nú ekki að missa af einni einustu mínútu af mínu lífi þó hann sé í burtu - en aðallega er það líklega vegna þess að ég sit meira við tölvuna á kvöldin heldur en oft áður. Andri einokar sjónvarpið (eða nærri því, heimsmeistarakeppnin í handbolta sá til þess) og svo nenni ég heldur ekkert að horfa á sjónvarp þessa dagana. Ætli það breytist samt ekki þegar Valur kemur heim, þá getum við haldið áfram að horfa á House seríuna sem við fengum í jólagjöf frá Önnu og Kjell-Einari.

Nú spái ég og spekúlera hvað hafi valdið því að þessi orku-sæluvíma mín stóð svona stutt, eða bara í tvo daga. Borðaði ég eitthvað sem ég mátti ekki? (fékk mér grænmetisböku á kaffihúsinu í gær, líkega hefur verið hveiti í henni en æ mér finnst það nú samt fremur langsótt). Fór ég hreinlega fram úr mér í allri gleðinni yfir nýfenginni orku? Er veðrið að fara svona illa í mig (vindur ? lægð yfir landinu?) Eða, eða, eða... Þegar stórt er spurt er oft fátt um svör. En já ég hafði reyndar farið í sund þrjá morgna í röð og kannski ekki sofið jafn vel allar næturnar. Svo er ég alltaf á leiðinni að byrja að skrásetja allt sem ég borða, hvað ég geri, hvernig veðrið er og hvernig mér líður, svona til að reyna að finna eitthvað samhengi í þessu öllu ef samhengi er að finna.

Ég er samt harðákveðin í að halda áfram að reyna að laga mataræðið hjá mér enn frekar. Drekka helst tvo grænmetishristinga á dag og sleppa sem mestu af brauðmeti/kornmat. Varðandi grænmetishristingana þá er ég núna komin með æði fyrir því að setja rauðrófusafa útí þá og það hlýtur nú að vera afskaplega hollt ;) Svo þarf ég að halda áfram að kafa betur ofan í þessi matarmál öll sömul og reyna að finna út hvað hentar mér best og gefur mér mesta orku og vellíðan. Það er t.d. ótrúlega fyndið hvað bara það að taka út sem mestan sykur og hvítt hveiti leiðir til minna magaummáls. Það er að segja vömbin hættir að vella út fyrir buxnastrenginn, ekki af því maður hafi endilega lést svo mikið, heldur af því maður er ekki alltaf jafn uppþembdur. Og já nú er ég hætt þessu röfli.

Engin ummæli: