mánudagur, 17. janúar 2011

Mataræði dagsins

Ég byrjaði daginn á að fá mér ósoðið haframjöl en eftir samtal við systur mína í gær er ég farin að efast um það hversu heilsusamlegt það er... Hún hafði nefnilega lesið eða heyrt að það væri auðveldara að melta soðið haframjöl. Í framhaldinu fór ég að spá í að kannski væri bara gott að leggja hafrana í bleyti yfir nótt, kannski það auðveldi meltinguna? Og í enn frekara framhaldi fór ég að lesa um hollustu (eða óhollustu) kornvara og sýnist nú sitt hverjum um þau mál. Þeir sem aðhyllast steinaldarfæði eru ekki hrifnir af kornvörum og segja þær afar slæmar þar sem líkaminn eigi svo erfitt með að melta þær. Þannig að ein hugmynd er jú að sleppa bara öllum kornvörum og sjá hvað það gerir fyrir mann. Kannski í einn mánuð eða svo? Hm, ég spái í það.

En já önnur máltíð dagsins var grænmetissúpa (gerð frá grunni af Guðnýju sjálfri). Mm, mér finnast alvöru grænmetissúpur svo góðar. Í vinnunni fékk ég mér te og hafraklatta, en kvöldmaturinn toppaði matartekju dagsins... nefnilega fiskibollur úr dós með hrísgrjónum og karrísósu. Fiskibollurnar eru kannski ekkert svo voðalega óhollar, en samkvæmt innihaldslýsingu er fiskur aðeins 45% innihaldsins, hitt er vatn, kartöflumjöl og eitthvað sem ég man ekki... (Mjög áreiðanlegar upplýsingar hér á ferð). En já já svo notaði ég hvítt hveiti í karrýsósuna. Ætli ég geri mér ekki grænmetishristing núna á eftir til að vega upp á móti kvöldmatnum.

Ég væri alveg til í að borða steinaldarfæði - en það væri nú auðveldara ef maður væri með sérstakan kokk á sínum snærum (já ég veit, Valur eldar alltaf ofan í mig en aðal vandamálið er jú að maturinn sem við borðum þarf helst að falla í kramið hjá yngri kynslóðinni líka og þeir vilja fá sínar pítsur, pasta o.s.frv. og hafa engan sérstakan áhuga á hollu mataræði).

Svo er alveg önnur saga hvort breytt mataræði dugar eitt og sér til að hemja vanlíðanina tengda vefjagigtinni. Ég var að lesa ummæli konu einhvers staðar sem hafði verið að gera allt rétt (borða glútenfrítt, vera dugleg að hreyfa sig, stunda slökun o.s.frv.) og var komin á beinu brautina að því er hún hélt, en þá fékk hún þetta líka svaka gigtarkast þrátt fyrir allt, svo það er ekki gott að vita hvað er rétt og rangt í þessum málum öllum.

P.S. Ég var rétt að enda við að drekka risastórt glas af afskaplega bragðgóðum heilsuhristingi. Í hann fór: tómatur, sellerí, gúrka, engifer, spínat, gulrót, rauðrófusafi og gulrótar/appelsínusafi. Þannig að ég enda daginn með ansi góða samvisku, svona matarlega séð.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

http://www.katheats.com/kaths-tribute-to-oatmeal/
Sel þetta ekki dýrara en ég keypti, og hér er sennilega bæði soðnri og ósoðnir hafrar
Anna

Guðný sagði...

Já það vantar ekki fjölbreytina í höfrunum hjá þessari dömu :)