sunnudagur, 16. janúar 2011

Klukkutími er töfratímiBack to reality, originally uploaded by Guðný Pálína.
þegar kemur að úthaldi mínu. Bæði í bæjarferðinni í gær og ljósmyndaferðinni í dag. Tja ljósmyndaferðin kom nú eiginlega óvart uppá. Ég var eiginlega á leiðinni í sund en sá þá að loksins var heiðskírt úti og mér sýndist glitta í bleikan himinn þarna einhvers staðar. Þannig að ég greip myndavélina og ætlaði að smella af nokkrum myndum fyrir sund. En svo fór ég bara ekkert í sund þegar upp var staðið. Enda miklu skemmtilegra að vera úti í frostinu og bleika himninum. Lengst af var ég niðri við Leirur og það var 11-12 stiga frost þar, enda skilst mér að þar myndist oft kuldapollur þegar hlýrra er annars staðar í bænum. En eftir klukkutíma var mig farið að verkja í skrokkinn og orðin þreytt og svöng, svo ég dreif mig heim á leið. Þannig að hér er ég nú, búin að taka myndir, búin að borða en óböðuð ennþá. Mest langar mig út aftur með myndavélina því nú er sólin komin upp, í fyrsta sinn í mjög langan tíma. En það væri ekki skynsamlegt því þá klára ég orkuna mína endanlega og ég á eftir að gera ýmislegt fleira í dag. Kóræfing er eitt af því og ég þyrfti nú eiginlega að kíkja aðeins á nýja lagið sem við byrjuðum að æfa síðast. Svo ætlaði ég í Nettó og birgja heimilið upp af heilsuvörum og frosnum berjum, en hvort tveggja er nú á tilboði. En ef satt skal segja þá er ég eiginlega bara þreytt núna og langar mest til að leggja mig. Sem er náttúrulega fullkomlega eðlilegt þegar maður hefur verið á fótum í heila þrjá tíma...

Ég var enn eina ferðina að skoða vefsíður um hráfæði í gær og með voða fögur fyrirheit um að auka hlutfall slíks matar hjá mér. Fyrsta skrefið átti að vera að gera oftar hristinga úr grænmeti og ávöxtum og jafnvel borða svoleiðis tvisvar til þrisvar á dag. En þegar ég kom inn úr frostinu áðan langaði mig mest í eitthvað heitt, þannig að ég spældi mér tvö egg og ristaði brauð og hitaði te. Þar fór það fyrirheit...

3 ummæli:

Harpa Jónsdóttir sagði...

Mikið er þetta falleg mynd!

Nafnlaus sagði...

Töfralitir!!!
Anna systir

Fríða sagði...

Mér varð einmitt hugsað til þín þegar ég sá hvað himininn í norðri var ótrúlega fallegur þarna um 11 leitið. Og já, það var KALT á Leiruveginum brrrrrr