föstudagur, 21. janúar 2011

Lengi getur vont versnað

eða þannig... Þá er ég að vísa í færslu gærdagsins þar sem ég tala um tíðindalítinn dag. Ef eitthvað er var dagurinn í dag enn verri. Ég skrópaði í sundinu í morgun, lagði mig aftur þegar Ísak var farinn í skólann og svaf framundir hádegi. Þannig að ég gerði nákvæmlega ekkert áður en ég fór í vinnuna. Og í vinnunni var rólegt hjá okkur, þó það væri greinilega talsvert rennerí á torginu í heild. Eftir vinnu fór ég á Greifann að sækja pítsur handa strákunum og salat handa mér (uppgötvaði að það er hægt að panta kjúklingasalat, sem er bara snilld). Ég beið "aðeins" í 20 mínútur á Greifanum og í stað þess að það væri 40 mínútna bið eins og sagt var, þá var biðin sem sagt 60 mínútur. Enda var allt á öðrum endanum þarna. Mjög margir að bíða eftir pítsu og slatti af fólki að bíða eftir borði. Sem betur fer var ég í afslöppunargírnum (já eða dauðagírnum bara...) svo ég beið sallaróleg og vottaði ekki fyrir óþolinmæði hjá mér, ótrúlegt en satt.

Eftir matinn talaði ég aðeins við Val á Skype, og skutlaði svo Andra til vinar síns. Já og fékk þá hugdettu að fara í Pennann og spandera á mig eins og einni bók til að lesa í kvöld. Jólabækurnar eru margar hverjar komnar á svo mikinn afslátt, þannig að ég keypti krimmann eftir Árna Þórarins, og ætla að leggjast í hann núna á eftir. Ísak er á balli svo það eru mjög mikil rólegheit í húsinu núna. Birta þegir meira að segja í augnablikinu. Þegar ég kom heim úr vinnunni kom hún "fagnandi" á móti mér, mjálmandi eins og henni væri borgað fyrir það. Andri sagði að hún hefði verið alveg róleg en svo um leið og ég kom byrjaði fjörið. Meiri kellingin, þetta ætlar að taka tíma hjá henni.

En já, ætli ég fari ekki bara í einhver þægileg föt og hendi mér svo uppí sófa með nýju bókina :-)

Engin ummæli: