fimmtudagur, 20. janúar 2011

Sumir dagar eru tíðindaminni en aðrirMy 27 years old watch, originally uploaded by Guðný Pálína.
og dagurinn í dag var einmitt þannig dagur. Svona dagur sem bara siglir áfram og ekkert markvert gerist. Ég fór í sund í morgun og þar voru rólegheit, ég synti meira að segja í "gömlu" lauginni af því hún er heitari en þessi nýja, og sleppti köldu sturtunni í lokin af því mér hraus hugur við því að fara í kuldann. Í vinnunni voru algjör rólegheit, það æsilegasta sem gerðist var að ég þreif gluggana að utan sem innan. Þar fyrir utan var ég bara að vinna í pappírum, held að ég hafi afgreitt heila tvo viðskiptavini.

Eftir vinnu fór ég í bankann og svo beint heim. Veðrið var orðið eitthvað svo hryssingslegt (kaldur vindur) og mér var bara kalt og illt í skrokknum. Heima dó ég svo bara fyrir framan tölvuna og veit ekki einu sinni hvað ég var að gera í henni. Mér tókst reyndar að elda grjónagraut í kvöldmatinn, á meðan Andri var úti með járnkall og braut niður stóra snjóhrygginn sem hindraði för mína inn á bílaplanið á Volvonum. Flott hjá honum!

Eftir matinn fór ég í sjóðandi heitt bað til að lina aðeins stirðleikann og vöðvaverkina og svo reyndar kom smá andi yfir mig og ég tók nokkrar myndir af úrinu sem sjá má hér.

Þannig er mál með vexti að þegar ég útskrifaðist sem sjúkraliði fyrir einhverjum 27 árum síðan, gaf mamma mér hlut sem nauðsynlegt var að eiga, nefnilega úr með stórum sekúnduvísi. Svona úr/klukku áttu þá allar hjúkrunarkonur og sjúkraliðar og notuðu það til að taka púlsinn hjá sjúklingunum. Ég notaði úrið síðast þegar ég var að vinna á sjúkrahúsinu i Tromsö (þvagfæraskurðdeildinni) en þar tók ég nú bara örfáar vaktir. Það hefur líklega verið árið 1993, tja eða 1992, nú er ég ekki alveg viss. Síðan lagði ég bara úrið til hliðar og hef ekki hugsað mikið um það. Fyrr en á kóræfingu um daginn. Þá sá ég að Kamilla (sem útskrifaðist með mér sem sjúkraliði árið 1983) var með úrið sitt í fallegri gullkeðju um hálsinn. Ég uppveðraðist öll við þetta og leitaði að úrinu mínu (sem var nú reyndar á vísum stað, ótrúlegt en satt) og í dag fór ég og fékk nýja rafhlöðu og splæsti í nýja gullkeðju í leiðinni. Nú er bara eftir að sjá hversu dugleg ég verð að ganga með það, en það passar flott við sum föt, bara eins og skartgripur :-)

Engin ummæli: