fimmtudagur, 27. janúar 2011

Aðeins of dugleg í gær = þreytt í dag

Já gærdagurinn var mjög góður á sinn hátt. Ég dreif mig í sund, þriðja daginn í röð, reyndar hálf stressuð á bensínlausum bíl. En ég reyndi að taka bensín hérna úti í Kaupangi en sjálfsalinn þar var bara með múður og vildi ekki samþykkja kortið mitt. Sagði að ég væri með vitlaust pin-númer en það var ég ekki. Þannig að ég ákvað að láta bara á það reyna hvort ég kæmist nú ekki fram og tilbaka og ók af stað. Þegar ég var komin í Hrafnagilsstrætið heyrði ég alltaf eitthvað skrítið hljóð, og áttaði mig á því að ég hafði gleymt að loka bensínlokinu... snillingur ;) Í sundinu fann ég, annan daginn í röð að ég hafði greinilega aðeins meiri orku. Tók meira að segja nokkur flugsundstök, bara svona af því ég fann að ég gat það.

Á leið í vinnuna fór ég með bílinn á þvottastöð og skildi hann þar eftir. Ekki veitti af, hann var óþekkjanlegur af skít. Í vinnunni hefði ég þurft að sitja á rassinum og færa bókhald, en ég var bara ekki í stuði til að sitja á rassinum, svo ég var meira í því að þurrka af ryk og færa vörurnar aðeins til og svona. Sem var líka allt í lagi, ég hef enn tíu daga til stefnu með bókhaldið.

Eftir vinnu fór ég í nudd. Það er algjör lúxus að hafa efni á því að fara í sjúkranudd og þessi nuddari er líka mjög vön að vinna með vefjagigtarsjúklinga. Hún tók sérstaklega fyrir hálsinn og herðarnar og ég var bara eins og nýsleginn túskildingur eftir að hafa verið hjá henni.

Eftir nuddið hafði ég mælt mér mót við vinkonu mína á kaffihúsi. Við erum góðar vinkonur en hittumst bara eitthvað svo ótrúlega sjaldan. Þannig að það var voða gaman að hittast og spjalla, enda stoppuðum við í tæpa tvo klukkutíma.

Svo dreif ég mig heim til að elda kvöldmatinn. Ég hafði keypt lax daginn áður og sauð hann samkvæmt leiðbeiningum frá eiginmanninum. Meðlætið voru kartöflur og eggjasmjör, en það er nokkuð sem Gunna tengdó gerði alltaf hér áður fyrr. Þá er brætt smjör og útí það eru sett niðurskorin harðsoðin egg. Nammi gott. Ég reyndar sleppti kartöflunum og fékk mér bara salat með í staðinn.

Síðan þurfti að ganga frá í eldhúsinu og setja í uppþvottavél. Og já ég setti líka í þvottavél og settist svo aðeins niður og spjallaði við Val á skype. Þegar því samtali var nýlokið hringdi mamma og við spjölluðum nokkuð lengi saman. Þá hengdi ég uppúr þvottavélinni og dreif mig svo á Bláu könnuna á ljósmyndaskvísuhitting. Ég var reyndar alvarlega að spá í að sleppa því að fara því ég fann að ég var orðin svo lúin, en af því ég gleymdi fundinum síðast þá fannst mér ég verða að fara. Plús að ég hef mjög gaman af því að hitta þessar konur. Við höfum aldrei verið svona margar áður, sem var mjög ánægjulegt. En hins vegar var nánast fullt út úr dyrum á Bláu könnunni og skvaldrið og hávaðinn svo yfirgengilegur að ég átti mjög erfitt með mig. Var nú greinilega ekki ein um það og um hálftíuleytið færðum við okkur yfir á Götubarinn sem var nánast tómur. Það er mjög huggulegur staður og þar vorum við næsta klukkutímann, en þá ákvað ég að drífa mig heim, svona til að klára mig ekki alveg. En á leiðinni heim fann ég að ég var nú orðin ansi lúin og ákvað þá þegar að ég myndi bara leggja mig aftur þegar Ísak væri farinn í skólann í dag.

Sem ég og gerði, og svaf alveg til að verða ellefu, hvorki meira né minna. Og hef auðvitað verið alveg eins og valtað hafi verið yfir mig, því þó mig skorti kannski svefn/hvíld þá verð ég líka alveg eins og klessa ef ég sef of mikið. Það getur verið erfitt að rata þennan gullna meðalveg. Nú er klukkan orðin eitt, ég er að fara að vinna eftir klukkutíma og á alveg eftir að græja mig. Er reyndar búin að fá mér grænmetishristing en þyrfti að fá mér aftur að borða fyrir vinnu. Og svo er spurning hvað á að gefa liðinu (og mér meðtaldri) að borða í kvöld. Hm, það er seinni tíma vandamál. Best að drífa sig í sturtu.

Engin ummæli: