miðvikudagur, 19. janúar 2011

Smá stöðuskýrsla í lok dags

Svona rétt til að halda lesendum mínum við efnið... Hehe :o)

Þetta varð nú ágætur dagur þrátt fyrir þreytta byrjun. Jú jú og áframhaldandi þreytta Guðnýju, en ég sigraðist á lönguninni til að leggja mig aftur, húrra fyrir því. Í staðinn er ég að hugsa um að fara bráðum í háttinn og yrði það annað kvöldið í röð sem ég fer í háttinn milli níu og hálftíu (ef af verður).

Já og þarna fór ég að hringja í hana Dóru á móti til að spyrja hvort bíllinn okkar mætti standa á bílaplaninu þeirra í nótt. Það er nefnilega ófært inná planið okkar sökum hláku (það var stærðar snjóbunga á milli götunnar og bílaplansins, sem er upphitað og svo þegar hlánaði svona mikið á einum degi þá hreinlega kemst volvoinn ekki í gegnum bunguna). Það var auðfengið leyfi. Svo fór ég að gera mér grænmetisdrykk og allt í einu er klukkan bara meira en hálf tíu... Ég ætla nú samt mjög fljótlega í háttinn.

Og nú er ég orðin alltof syfjuð til að blogga um daginn í dag. Ég get þó sagt frá því að ég fór ekki í sund, ekki að taka myndir og ekki að heimsækja neina vinkonu. Gerði þó heiðarlega tilraun til þess síðastnefnda en sú vinkona sem ég ætlaði að heimsækja var þá orðin veik. Í staðinn fór ég í bæinn og settist inn í Pennann/Te og kaffi,  fékk mér kaffi og hollustuköku og fletti tímaritum. Kíkti aðeins í fatabúðir en keypti ekki neitt. Kíkti í eina snyrtivöruverslun og keypti mér meik og varalit með 30% afslætti. Það fannst mér nokkuð gott því snyrtivörur eru jú svo hræðilega dýrar. Svo kíkti ég líka á sjónvarp sem Valur minn hefur áhuga á að kaupa - og það er mjög flott - en stórt! Hann minnti mig reyndar á það að mér fannst tölvuskjárinn minn líka stór þegar ég fékk hann fyrst... en ekki lengur!

Í dag hafði ég líka samband við Hörpu bloggvinkonu mína og fékk að vita hvernig ég get keypt uppskrift að peysu sem hún hannaði og seldi í prjónatímarit. Ég er reyndar ekki búin að kaupa tímaritið á netinu en hyggst gera það.  Líst rosa vel á þessa peysu, hún er aðsniðin en samt með fallegu hálsmáli/háum kraga sem kuldaskræfur eins og ég geta hneppt upp.  Dríf örugglega í því á morgun að panta uppskriftina svo ég geti byrjað á peysunni um helgina.

En nú er ég farin að sofa, það er vinna í fyrramálið.

Engin ummæli: