þriðjudagur, 25. janúar 2011

Hm, mig vantar titil á þessa bloggfærslu...

Tíminn flýgur og það styttist í að Valur komi heim frá Tromsö. Næst þegar hann fer er meiningin að ég fari með honum og rifji upp gömul kynni við bæinn. Það verða þá ca. 10 ár síðan ég kom þangað síðast og þá þegar fannst mér mikið hafa breyst frá því við bjuggum þar, svo þetta verður spennandi. En það eru nú tæpir tveir mánuðir þangað til, svo þetta er ekki alveg að bresta á.

Ég held áfram að reyna að passa mataræðið og sykurinn og það gengur svona þokkalega. Síðasta laugardagskvöld var ég nú farin að stelast í kassa af Æði sem Valur á inni í búri, og svo er konfektkassinn sem mamma gaf honum í jólagjöf alveg að klárast... en ég næ markmiðinu að borða ekki nammi á daginn. Sem er afrek út af fyrir sig. Á laugardaginn eldaði ég kjúklingaleggi í barbeque sósu (sem var nú reyndar ansi sykruð því í henni var bæði tómatsósa og sweet-chili sósa) og í gær eldaði ég pylsupasta handa strákunum, en borðaði sjálf kjúklingaafganga og salat með. Í dag ætlaði ég að elda lax en þá leit út fyrir að Andri yrði ekki heima á matmálstíma, svo við Ísak borðuðum afganga. Hann átti afganga af pastanu frá í gær og enn eldri afganga af hrísgrjónagraut en ég bjó mér til afar undarlega eggjaköku. Hún samanstóð af eggi og mjólk, kjúklingaafgöngum (sem loks eru búnir!), osti og rauðlauk. Svo hitaði ég tómata og salat á pönnunni og þetta var nú ansi mikið jukk, það verður að segjast eins og er. En ég er södd, það er aðalatriðið ;-)

Svo er ég búin að vera voða dugleg að gera mér grænmetishristinga og fæ mér að minnsta kosti einn á dag. Æskilegast væri að fá sér tvo. Enda eru þeir stútfullir af næringu. Ég sá að einhver náungi setti kókosolíu í sína hristinga til að gera þá saðsamari, og ég prófaði það í gær. Það var pínu spes, líklega setti ég alltof stóran skammt, svo það var mjög mikið kókosbragð af hristingnum. Svo hef ég verið að nota rauðrófusafa út í þetta, og þá verða hristingarnir afskaplega rauðir og fallegir. Það sem ég þyrfti að gera, í viðbót við það sem ég er að gera, er að minnka brauðát enn frekar, sleppa alveg pasta og svoleiðis mat, sleppa öllu sælgæti og borða meira kjöt/fisk/grænmeti. En já já, þetta kemur, eigum við ekki bara að segja það?

Það kom smá tímabil seinni partinn í gær og framan af degi í dag sem ég var líkari sjálfri mér aftur. Var ekki algjörlega úrvinda af þreytu, heldur fannst eins og ég hefði jafnvel orku til að gera eitthvað. Ég hef ekki fundið þessa tilfinningu í einhverja mánuði - og vá hvað þetta er dásamleg tilfinning. Síðasta ár hefur jú verið algjörlega fáránlegt hvað þreytu varðar, og ég var næstum búin að gleyma því hvernig það er að hafa örlitla orku. Hættan er sú að maður fari alveg á fullt þegar maður fær svona orkuskot, og ég veit af þessari hættu, en mér tókst nú samt ekki alveg að hemja mig. Var jafnvel að spá í að fara að hjálpa vinkonu minni að flytja en Andri kom nú vitinu fyrir mig með það. Í morgun passaði ég mig að synda bara venjulega skammtinn þrátt fyrir að hafa á tilfinningunni að nú gæti ég vel synt heilan helling í viðbót. Og bara það að ganga á sundlaugarbakkanum og vera ekki úrvinda af þreytu, það var dásamlegt.

Svo kom ég heim og borðaði morgunmat og svo... fór ég að þrífa eldavélina (sem var ennþá útötuð í fitu síðan ég steikti kjúklingaleggina frægu á stálpönnu). Þegar ég var að þrífa hana og flísarnar fyrir ofan hana rak ég augun í það hvað viftan var orðin ógeðsleg, svo ég fór að þrífa viftuna... Svo braut ég saman þvott og gekk frá honum. Þegar hér var komið sögu þurfti ég að skamma sjálfa mig og fara og setjast niður. Og þar sem ég settist við tölvuna, fann ég hvernig þreytan helltist yfir mig. Fyrst ætlaði ég nú að reyna að hrista hana af mér með því að fara út að ganga, og var komin í úlpuna og skóna, en ákvað að vera frekar skynsöm og leggja mig aðeins. Ég hlustaði á slökunardisk og steinsofnaði í hálftíma eða svo. Og náði að hressast heilan helling við það. Sem var eins gott því þá var ég ekki eins og lufsa í vinnunni :-)

Ég verð að viðurkenna að þessi örlítið pínu ponsu meiri hressileiki kveikir hjá mér von um að kannski sé nú ástandið eitthvað að skána hjá mér. En um leið óttast ég að þetta sé bara tilviljun og ég eigi ekki að gleðjast svona mikið yfir þessu. En þar sem ég var á góðri leið með að missa alla von - þá ætla ég nú bara að halda í þetta litla hálmstrá mitt aðeins lengur.

2 ummæli:

Bryndís Dagbjartsdóttir sagði...

Sæl Guðný mín!
úff já orkuleysi ég kannast ágætlega við það, fann orkuna mína aftur eftir 5 ára orkleysi og þvílíkur munur. Ég fann þá hvað ég var búin að ganga áfram á þrjóskunni einni saman, þykist vita að þú kannist við það:)
Vona svo sannarlega að þú farir að fá fleiri og lengri „orkutímabil“ í tilveruna, farðu vel með þig :)
Bestu kveðjur
Bryndís

Guðný Pálína sagði...

Takk kærlega fyrir góðan hug Bryndís mín. Það sést einmitt langar leiðir hvað þér líður betur núna, ert orðin svo flott og frískleg! :) Ég kíkti aðeins til Hafdísar um daginn og hún var einmitt að segja það sama. Og já við ætlum svo að finna tíma fyrir hitting mjög fljótlega.