fimmtudagur, 13. janúar 2011

Stutt og laggott

Ég fæ alltaf svo mikið samviskubit þegar ég er búin að vera að væla/skrifa um mig og mína gigt hér á bloggið. En þar sem þetta er stór hluti af því hver ég er í dag þá er erfitt að gera það ekki. Svo blogga ég þá bara ekki í einhvern tíma, því mér finnst ég ekki geta skrifað um neitt sérstakt þegar dagarnir fara bara í það að reyna að lifa þá af, svona í stórum dráttum. En eins og ég segi þá er þetta ástand því miður orðið alltof stór partur af mér og mínu lífi og er líka farið að hafa mikil áhrif á fólkið í kringum mig, þannig að það er ekki gott að vita hvernig á að höndla þetta allt saman.

Í morgun var ég alveg ónýt þegar ég vaknaði og lagði mig aftur þegar Ísak var farinn í skólann. Sem aftur leiddi til þess að nú er klukkan að verða eitt, ég á að mæta í vinnu klukkan tvö, og er ekki búin að gera neitt í dag nema borða morgunmat, leysa eina krossgátu og spjalla örstutt við Hrefnu mína á Skype. Ég hafði hugsað mér að kíkja aðeins í búðir áður en ég færi í vinnuna. Það er 20% afsláttur á snyrtivörum í Jöru og mig vantar nýtt meik og nýjan maskara. Svo ætlaði ég að skreppa í Pier og kaupa nýja púða í Hellinn hans Vals. Eins er útsala í Levi's búðinni og það er nú alltaf gott að eiga nóg af gallabuxum... Þetta hljómar eins og ég eigi helling af gallabuxum en það er nú ekki rétt. Ég á einar sem eru í lagi og aðrar sem kom allt í einu dularfullt gat í og svo líklega tvennar sem ég passa ekki lengur í. En eins og staðan er núna er afar ólíklegt að ég nái þessu öllu + að fara í sturtu og græja mig á þessum klukkutíma sem ég hef til umráða. Gallabuxurnar fá því að bíða.

Engin ummæli: