sunnudagur, 9. janúar 2011

Dagurinn í dag

byrjaði ekki vel. Ég var úrvinda af þreytu og vanlíðan þegar ég vaknaði í morgun. Verstir voru verkirnir í augunum og reyndar var ég slæm í hnakkanum líka, en það bliknaði í samanburði við augnverkina.

Þegar við bjuggum í Tromsö hélt ég að ég hlyti að sjá illa, því það var eina ástæðan sem mér datt í hug fyrir því að vera illt í augunum. Þannig að ég fór til sjóntækjafræðings sem mældi sjónina og sagði að það væri ekkert að henni. Einhverjum árum eftir að við vorum flutt hingað heim ákvað ég að fara til augnlæknis og láta athuga augun, því mér varð alltaf af og til svona rosalega illt í þeim. Auðvitað kom ekkert út úr þeirri rannsókn heldur. Þónokkru síðar fór ég enn til sjóntækjafræðings því mér fannst að það hlyti að eiga að finnast skýring á þessum verkjum. Í þetta sinn mældi sjóntækjafræðingurinn smá fjarsýni og ég fékk mér gleraugu einhvern tímann í framhaldinu af því. Gleraugun nýtast mér alveg þar sem ég er, eins og flestir á mínum aldri, með aldurstengda fjarsýni, en verkirnir héldu samt áfram að koma alltaf af og til. Það var ekki fyrr en á fyrirlestri um vefjagigt fyrir tveimur árum síðan, að ég áttaði mig á því að augnverkirnir eru vefjagigtarverkir. Þá útskýrði Eydís Valgarðsdóttir sjúkraþjálfari að fólk gæti fengið vefjagigtarverki í alla vöðva líkamans, meðal annars í grindarbotsvöðva og augnvöðva. Þannig að loks fékk ég skýringu á því sem hafði verið að angra mig öll þessi ár.

Nóg um það. Ég reyndi að þrjóskast við, og við Valur fórum út í smá bíltúr með myndavélarnar. Eftir þann stutta túr var ég algjörlega ónýt - en við áttum miða á tónleika  klukkan fjögur. Mér datt í hug að reyna að fá Ísak til að fara í staðinn fyrir mig því mig langaði mest til að leggjast undir sæng. En hann hafði engan áhuga... svo ég tók verkjatöflu, málaði mig, skipti um föt og fór á tónleikana. Þetta voru reyndar frábærir tónleikar og ekki neinn brjálaður hávaði, svo í raun leið mér betur á eftir. Svo ég ákvað að skella mér á kóræfingu, sem ég og gerði og það var bara mjög gaman að hitta kórinn aftur eftir jólafrí. Í kvöld hef ég svo verið eins og skítur og líðanin er svona eins og flensa sé að hellast yfir mig. En þetta er jú ekki flensa, þetta er bara gigtin að minna á sig. Svo nú er bara að halda áfram að harka af sér... eða reyna það öllu heldur.


Engin ummæli: