mánudagur, 31. janúar 2011
Engin söngstund í gufunni í morgun
Þannig er mál með vexti að einn af þeim karlmönnum sem stundar sundið á morgnana hefur afskaplega gaman af því að syngja. Hann hefur ábyggilega sungið í kór til margra ára og hefur fallega rödd. Einhverra hluta vegna hefur hann tekið uppá því að syngja í gufubaðinu og reynir þá að fá hvern þann sem þar er staddur til að syngja með sér. Um daginn var það ég sem tók máttleysislega undir lagið "Vorvindar glaðir" og gladdi það gufubaðssöngvarann afskaplega. Næsta dag var ég enn að synda þegar hann fór uppúr lauginni og tilkynnti mér glaður í bragði að nú væri komið að söngstund. Þegar ég var búin með sundskammtinn og á leið í gufuna mætti ég einum sem kom þar út. "Hvaða lag var á dagskránni í dag?" spurði ég og fékk að vita að það hefðu verið vorvindar glaðir. Svo kældi viðkomandi sig aðeins niður og fór síðan aftur inn í gufuna og þar hélt söngstundin áfram. Þeir tóku nokkur lög og enduðu svo á Eldgamla Ísafold. Sá þriðji tók undir með þeim en ég ætlaði nú ekki að þenja mig með þremur karlaröddum. Þegar hér var komið sögu var þeim félögum ekki lengur vært inni í gufunni vegna hita og sögðu þetta gott. En ég verð að játa að þetta var bara ansi hressileg byrjun á deginum :-)
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli