miðvikudagur, 19. janúar 2011

Dagurinn í dag er eins og ómálaður strigi

og það er í mínu valdi hvað ég mála á hann. Hm, er þetta ekki hæfilega væmin byrjun á bloggi dagsins?

Ég var eitthvað að velta því fyrir mér hvað ég ætti að gera í dag og staðreyndin er sú að ég hef engum sérstökum skyldum að gegna á þessum annars ágæta miðvikudegi. Ég er í fríi í vinnunni og hef ekki mælt mér mót við neinn, né skipulagt nokkuð. Þannig að stóra spurningin er: Hvað á ég að taka mér fyrir hendur í dag? Staðreyndin er sú að ég gæti vissulega verið hressari, þannig að það er nokkuð ljóst að ekki mun ég afreka neitt stórkostlegt. Og einmitt vegna þess að nú er ég búin að sofa í 9 klt. og ætti að vera 100% hress - en er bara svona 20-30% hress, þá verð ég að viðurkenna að ég á í smá ströggli með að halda haus, svona andlega séð.

Ég er ekki þunglynd, heldur bara leið á sjálfri mér og mínum endalausa slappleika. Samt reyni ég að hugsa svona eins og séra Jóna Lísa Þorsteinsdóttir talaði um á fyrirlestri einu sinni: Hvað get ég gert til að dagurinn í dag verði góður dagur? Jú ég gæti hreyft mig eitthvað. Líklega yrði það þá sund því nú er komin hláka og mig grunar að það verði hált að ganga úti. Ég hafði hugsað mér að fara út að taka myndir en fyrir utan að heyra hljóðið í vindinum, þá veit ég ekki hvernig veðrið er úti því enn er svartamyrkur. Ég gæti reynt að fara í heimsókn til einhverrar vinkonu, en þeim (sem búa hér í bænum) hefur nú farið fækkandi á undanförnum árum, plús að flestir eru jú í vinnu á daginn. Ég þyrfti helst að taka niður jólagardínurnar og týna saman jólaskrautið - en úff ég bara nenni því ekki. Ég gæti gert eitthvað skapandi s.s. byrjað á nýrri lopapeysu. Lopann á ég en vantar uppskrift, var að spá í að prjóna úr einföldum hespulopa, þó ég viti að þannig peysur endist kannski ekki mjög lengi. Ég gæti lesið í söngbókinni sem Valur gaf mér í jólagjöf og sungið nokkra tóna í æfingaskyni. Ég gæti ... ég gæti... Svo er það bara spurningin um framkvæmdina. Úff púff og mig langar helst aftur upp í rúm. Sem er ekki gáfulegt en kannski ekkert óhemju vitlaust heldur. Gæti tekið með mér einhverja góða bók uppí rúm ;-)

Engin ummæli: