Þar sem Hrefna og þau eru farin, erum við aftur bara orðin fjögur í húsinu (fimm með Brjáluðu-Birtu) og það er pínu skrítið. Alltaf skrítið fyrst á eftir þegar fækkar í húsinu en svo venst það. Máni er reyndar kominn heim aftur, í mjög breyttu formi frá því hann var hér síðast. Það er nefnilega búið að brenna hann og ég bað um að fá öskuna (meðan ég var enn alveg miður mín yfir því að hafa þurft að láta svæfa hann). Svo þegar askan er komin þá veit ég nú ekki hvað á að gera við hana. Ætli við bíðum ekki bara þar til í sumar og dreifum henni úti í garði.
Nú eru byrjaðar útsölur í bænum og sennilega hefði ég skroppið stuttan verslunarrúnt ef veðrið hefði verið skaplegra. Ég gæti svo sem alveg farið, veðrið er ekki það slæmt en ætli ég nenni því nú nokkuð. Er eiginlega á því stiginu núna að nenna engu. En ég fór þó í vinnuna í dag og hélt áfram að telja vörur. Einn verslunareigandi leit við hjá mér og sagðist nú ekkert ætla að telja, heldur bara giska á þetta. Það hefði munað svo sáralitlu á giskinu og raunveruleikanum í fyrra. Okkur Sunnu hefði nú aldrei dottið svona glæframennska í hug, enda hefur lagerinn yfirleitt vaxið ár frá ári hjá okkur og um að gera að hafa eignastöðuna rétta.
Ég gæti leikið mér í Lightroom, nýja myndvinnsluforritinu mínu, en æi ég er búin að stara eitthvað svo mikið á tölvuskjá síðustu daga. Úff, ég hreinlega veit ekkert hvað ég á að taka mér fyrir hendur í augnablikinu!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli