sunnudagur, 23. janúar 2011

Ágætasti sunnudagur senn að baki

Mér tókst nú að sofa alltof lengi í morgun, eða til hálf ellefu og varð nú eiginlega bara hálf hvumsa þegar ég vaknaði svona seint. En ég hafði reyndar verið vakandi á milli sjö og átta en bara sofnað aftur, þannig að ef við drögum þann vöku-klukkutíma frá þá má segja að ég hafi vaknað hálf tíu... Eða þannig.. .;) En ég hafði hugsað mér að fara í sund strax klukkan 10 þegar opnaði, svo það ruglaði alveg systemið að hafa sofið svona lengi. Og þar af leiðandi var ég ekki komin í sundið fyrr en um hálf tólf leytið og þá var bara næstum því stappfullt í lauginni. Starfsmaður í sundlauginni hélt að þetta væri fólk sem hefði ella verið í fjallinu, nema hvað það var lokað. Ég synti minn venjulega "míkró skammt" og fór svo í heita pottinn og gufuna samkvæmt venju. Það er verst að ég er að verða svo mikill aumingi að ég hef mig varla í köldu sturtuna lengur, en fór samt aðeins undir bununa í dag.

Þegar ég var komin heim kláraði ég að ganga frá í eldhúsinu eftir kvöldmatinn í gær og braut saman mjólkurfernur og setti fleira dót í viðeigandi endurvinnslu-ílát. Svo spjallaði ég aðeins við Val á Skype, en fór síðan í heimsókn til einnar vinkonu minnar sem ég hef ekki hitt lengi. Eftir heimsóknina var kóræfing og eftir kóræfingu var matarboð hjá Sunnu og Kidda, svo þetta var nú bara ágætasta dagskrá hjá frúnni í dag.

Og nú er ég bara alveg bakk, södd og löt, svo það er nú aldeilis heppilegt að engin sérstök verkefni bíða mín. Þyrfti reyndar að setja í eins og eina þvottavél en úff ég er varla að nenna því.

Já og í þessum skrifuðu orðum hringdi Palli bróðir í mig frá Danmörku og við spjölluðum lengi lengi, svo héðan af mun ég að minnsta kosti pottþétt ekki setja í þvottavél í kvöld. Ætli ég fari nú ekki bara fljótlega í háttinn, gamla konan.

Engin ummæli: