fimmtudagur, 12. apríl 2012

Styttist í sumarið

Sunny day by Guðný Pálína
Sunny day, a photo by Guðný Pálína on Flickr.
Því miður fær Máni ekki lengur að njóta sólarinnar með okkur hinum, en Birta gamla er nokkuð brött ennþá "miðað við aldur og fyrri störf".

Ég fór aðeins út með myndavélina núna áðan. Gekk upp í skóg hér fyrir ofan og gleymdi mér í dágóða stund í hinum ýmsu tilraunum. Sem ég sé reyndar ekki fyrr en á morgun hvernig koma út, því ég get ekki sett myndirnar inn í þessa tölvu sem ég er með hér. En það er munur á skóginum frá því í síðustu viku. Grænn gróður að stinga upp kollinum í skógarbotninum, og brum að koma á trén. Ég sá engar rjúpur núna, heldur bara skógarþresti.

Annars var ég voða glöð með að fara út því ég er búin að vera óttalega tuskuleg í dag og í gær. Vonandi er ég að hressast.

Sjúkraþjálfarinn sagði við mig í dag að ég þyrfti að vera þolinmóð í 1 ár í viðbót, batinn kæmi hægt. Úff, ég sagði henni að ég væri ekki þolinmóð að eðlisfari - en núna þegar ég hugsa um það, þá er 1 ár kannski ekki svo langur tími, þegar hugsað er til þess að ég er búin að vera eins og drusla í 3 ár.

Vandamálið er bara að þetta er orðinn það langur tími í Vonleysislandi, að mér finnst erfitt að trúa því að ég geti orðið betri.

Sálfræðingurinn sagði líka við mig að ég hefði eiginlega verið of dugleg - of lengi. Ég var alltaf að brasa uppá eigin spýtur við að finna leiðir til að vinna á þessu ástandi mínu, og þess vegna varð skellurinn frekar mikill þegar ég þurfti að játa mig sigraða í þessu eins manns stríði.

Ég hafði líka gert mér óraunhæfar vonir um árangurinn af endurhæfingunni, en er núna búin að sjá að þetta er bara fyrsta skrefið á langri ferð. Og viðurkenni fúslega að það olli mér smá vonbrigðum. Þolinmæði, þolinmæði, þolinmæði...

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þolinmæði er mjög gott orð, sem mætti gjarnan vera notað meira svona almennt. Svo er jákvæðni líka gott orð, sem mér finnst líka koma í gegn í því sem þú skrifar. Gangi þér áfram vel. Kveðja, Þórdís.

Guðný Pálína sagði...

Mikið er ég glöð að þú skulir skynja smá jákvæðni - ég var ekki alveg að sjá hana sjálf, en líklega er hún þarna :)

Nafnlaus sagði...

góðir hlutir gerast hægt, lífið er langhlaup... hm... hvað getum við fundið fleira í þessum dúr? :)

Fríða

Nafnlaus sagði...

Róm var ekki byggð á einum degi mamma mín, þetta er brekka en þú stendur þig frábærlega. Eitt ár er ekki neitt miðað við ástandið sem hefur verið síðustu þrjú. Ég hef trú á þér og þú verður líka að hafa trú á þessu verkefni!

Andri

Guðný Pálína sagði...

Þakka ykkur fyrir kæra Fríða og elsku Andri minn. Ég skal reyna að hafa það hugfast :)