mánudagur, 9. apríl 2012

Rólegheit

Ég lá of lengi í rúminu í morgun og ákvað að drífa mig í sund strax þegar opnaði kl. 10, ef ske kynni að ég hresstist eitthvað við það. Það voru aðallega fastagestir sem voru í sundinu þetta snemma, og ein bankaði létt í öxlina á mér í sturtunni og sagði að það væri svo notalegt að sjá "fólkið sitt". Á páskum er alla jafna mikið af ferðafólki í sundi og ég verð nú bara hálf ringluð að vera innan um svona margt fólk í búningsklefanum og sturtunni. Það er minna vandamál í lauginni sjálfri, því fæstir eru að synda.

Hvað um það, ég hresstist nokkuð við að fara í sund og fór að kíkja aðeins á bókhaldið þegar ég kom heim. Það eru skil á virðisaukaskatti á morgun og þá er eins gott að vera búin að klára skýrsluna og senda inn. Ég var reyndar búin að færa allar færslurnar áður en ég fór á Kristnes, en átti eftir að villuleita + laga og prenta út. Þá fór prentarinn að stríða mér og það festust í honum tvö blöð. Ég gerði máttleysislega tilraun til að losa þau, en hugsaði svo með mér að ég myndi fá minn ágæta eiginmann til að hjálpa mér við þetta. Þá hringdi Rósa vinkona og bað mig um að koma í lítinn labbitúr, sem ég og gerði. Hún var hér yfir helgina að aðstoða mömmu sína við að pakka niður í kassa, en mamma hennar er búin að selja húsið og flytur í maí. Það verður skrítið fyrir hana, eftir að hafa búið þarna í meira en 40 ár, og líka skrítið fyrir okkur að fá nýja nágranna. Við Rósa kynntumst árið 1967 þegar foreldrar okkar fluttu hingað í Stekkjargerði nr. 7 og 8 og húsin hafa æ síðan verið í eigu þessara sömu fjölskyldna (við Valur keyptum jú af mömmu).

Ég skutlaði svo Rósu og Berglindi dóttur hennar á flugvöllinn um þrjúleytið en svo fórum við Valur á bókamarkaðinn. Það var nú eiginlega svona "shop until you drop" dæmi, því maður verður fljótt þreyttur í þessu umhverfi, einhverra hluta vegna. Við keyptum þó bæði nokkrar bækur. Og nú sit ég hér, aftur með bókhaldið en það er enn ein vitleysa sem á á eftir að laga og heilinn á mér er ekki starfhæfur í augnablikinu. Þannig að nú er best að græja sér kvöldmat og athuga hvort heilinn lagast ekki við það.

Engin ummæli: