sunnudagur, 22. apríl 2012

Hálf misheppnuð ljósmyndaferð

Subtle landscape by Guðný Pálína
Subtle landscape, a photo by Guðný Pálína on Flickr.
Eftir að hafa hangið heima í allan gærdag langaði mig að komast aðeins burt úr bænum. Þannig að í morgun drifum við Valur okkur af stað í Mývatnssveit. Ekki lofaði veðrið neitt sérlega góðu, svona ljósmyndalega séð, en við héldum að það myndi kannski birta til þegar liði á daginn. Við vorum nú samt ekki nema hálfnuð á leiðinni austur og þá var ég orðin eitthvað svo ógurlega þreytt og syfjuð, og smitaði Val þannig að við geispuðum í kór síðasta spölinn.

Við Mývatn var lágskýjað og fátt um spennandi ljósmyndamöguleika. Við fórum samt aðeins úr bílnum við Dimmuborgir og svo aftur við tjaldstæðið, en þangað hef ég aldrei komið. Það var kalt og napurt þarna niðri við vatnið og ég var orðin slöpp og skrítin eitthvað. Þannig að við settumst bara upp í bílinn aftur og ókum heim á leið. Ákváðum að fara aðra leið að hluta, og ókum yfir Hólasand og niður að Laxárvirkjun. Þessi mynd hér er tekin á Hólasandi. Við stoppuðum aðeins við Laxárvirkjun og ég smellti líka af mynd þar, hún kemur kannski seinna. Þegar við vorum komin heim tók svo við heljarinnar afslöppun. Við spjölluðum við Hrefnu á Skype og svo fór ég að lesa spennandi bók sem Valur gaf mér í gær. Hún heitir "The end of illness" og er eftir David B. Agus en hann er læknir. Mér líst vel á það sem ég hef lesið en hún fær greinilega misjafna dóma á Amazon.

Annars er aðalfrétt helgarinnar sú að Andri fór í flugpróf í gær og er þar með kominn með réttindi sem einkaflugmaður. Á bara eftir að fá prófskírteinið í hendurnar. Frábært hjá honum, því aðstæður voru frekar erfiðar í fluginu, en allt gekk vel, sem betur fer. Þá er það bara atvinnuflugnámið næst :-)

2 ummæli:

Anna S. sagði...

Frábært hjá Andra!! Kær kveðja til hans og ykkar allra

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Takk takk, skila kveðju til hans :-)