mánudagur, 23. apríl 2012

Síðasta vikan á KristnesiOg ætli sé ekki bara málið að reyna að njóta hennar í botn. Ég er nokkuð spræk í dag, og þá dett ég í bjartsýniskast og finnst að nú sé allt á uppleið. Sem það vonandi er. Ég finn að það hefur gert mér gott að vera hér og nú finnst mér loks eins og ég sé að nálgast núllið, svona orkulega séð, eftir að hafa verið svo alltof lengi í mínus. En þá skiptir líka máli að ana ekki fram úr sjálfri sér, þ.e. að klára ekki jafnóðum þá litlu orku sem ég hef. Það verður gríðarleg áskorun, og spurning hvernig mér tekst það. Ég geri mér grein fyrir því að það mun ekki verða þrautalaust, sérstaklega af því þegar ég byrja að vinna þá næ ég ekki að stjórna því sjálf hvenær ég slaka á og hvenær ég er á fullu.

Svo er þetta eiginlega tvískipt hjá mér. Það er annars vegar þreytan og hins vegar lélegur skrokkur. Það er svo erfitt að þjálfa minn lélega skrokk af því ég bregst svo vitlaust við allri áreynslu. Við erum kannski að þjálfa bakið og þá á ég að gera eitthvað með höndunum. Sem hefur þau áhrif að ég þreytist í bakinu þann daginn, en vakna næsta dag og er alveg að drepast í höndunum. Vefjagigtin gerir það að verkum að það tekur mun lengri tíma fyrir mig að ná bakinu góðu, heldur en "venjulega" manneskju sem er bara með bakvandamál (segir sjúkraþjálfarinn).

Sjúkraþjálfarinn var að segja við mig í morgun að hún teldi að ég hefði gott af því að halda áfram í sjúkraþjálfun í 6 mánuði í viðbót. Þá væri hægt að byggja ofan á það sem við höfum verið að gera, og svo í framhaldinu að yfirfæra þjálfunina á daglegt líf, t.d. að nota litlu bakvöðvana þegar ég er að synda o.s.frv. Það er bara verst að ég get ekki haldið áfram hjá þessum sjúkraþjálfara, hún er svo fín.

En það mikilvægasta í þessu öllu er að ég sjálf læri inná mig og hlusti á líkamann. Sé ekki að þvinga mig áfram þegar ég er þreytt - en það er nokkuð sem ég hef gert í mörg ár og hefur ekki reynst mér vel. Þannig að nú þarf ég að prófa aðra aðferðafræði.


2 ummæli:

Anna S. sagði...

Flott myndin :-) Hafðu það gott þarna síðustu dagana fremra. Er ekki skógurinn orðinn hávaxinn (notar maður kannski ekki "hávaxinn" yfir skóg)?

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Takk takk :) Og jú skógurinn er orðinn býsna hávaxinn, og nær langt upp í hlíðina. Bara verst hvað er mikill grænn sveppur á mörgum lerkitrjánum. En það er búið að gera göngustíga í skóginum, og þar er mikill fuglasöngur þessa dagana :)