laugardagur, 28. apríl 2012

Vangaveltur á laugardegi

Það er eitt sem gerist þegar maður fer út úr því umhverfi sem maður lifir venjulega í, og fær fjarlægð á þetta daglega líf sitt. Maður fer að setja spurningamerki við ýmislegt sem maður hefur ekki tíma eða orku til að velta fyrir sér svona dags daglega. Sem er náttúrulega bara af hinu góða, allir ættu að leggjast í smá naflaskoðun af og til.

Í mínu tilviki þarf ég líka að fara að horfa á hlutina út frá því sjónarhorni að þó ég vilji ekki að láta vefjagigtina stjórna mínu lífi, þá hefur hún verið að gera það hin síðari ár, og næst á dagskrá er að finna leið til að lifa með henni án þess að hún gleypi stærstan part af lífi mínu. Það þýðir líka að ég þarf að sættast við hana, eða við tvær þurfum að ná einhvers konar samkomulagi eða málamiðlun. Það þýðir ekkert að láta eins og hún sé ekki þarna, heldur þarf ég að ná betri færni í að skipuleggja mig og framkvæma hluti, með það bak við eyrað að "less is more". Það er að segja, gera frekar minna til þess að eiga svo meiri orku og betri líðan. Sjúkraþjálfarinn var t.d. ekkert voðalega ánægð með mig að hafa farið í þessa löngu göngu upp í skóg og upp töluverðan bratta, því næsta dag var ég svo þreytt í fótunum að hún sá langar leiðir að göngulagið var stórundarlegt hjá mér. Þá er það "lati fótur" sem fer að haga sér illa og lætur ekki alveg að stjórn. Mér finnst reyndar ágætt að vera búin að fá að vita nákvæmlega hvaða vöðvi það er sem er svona latur, en það er stóri vöðvinn aftan á lærinu.

Á vafri mínu á netinu rakst ég á nokkuð skemmtilega mynd. Þetta er einskonar yfirlýsing sem þrír viðskiptafélagar skrifuðu í stað þess að gera viðskiptaáætlun. Í henni kemur fram hvað þeir vilja fá út úr lífinu og má segja að þetta sé þeirra lífsspeki í hnotskurn. Þessi yfirlýsing kallast "The Holstee Manifesto" og ef einhver vill lesa meira um þá félaga er það hægt hér. (Athugið að það þarf að skrolla aðeins niður á síðuna).


Engin ummæli: