miðvikudagur, 4. apríl 2012

Stutt vika í þetta sinn

Enda kannski eins gott. Við í hópnum förum öll versnandi... sem er víst nokkuð eðlilegt skilst mér, svona á þessu stigi málsins. Það er reyndar viss huggun harmi gegn, að vera ekki sú eina sem verð verri, þá sé ég að þetta er ekki bara ég sem er svona "gölluð".

Það sem hefur komið mér einna mest á óvart er hvað bakið á mér fer í klessu, en sjúkraþjálfarinn er að reyna að láta einhverja litla vöðva vinna og fá til samhæfingu milli þeirra og stóru vöðvanna, sem eru svo frekir og taka alltaf strax yfir. Þannig að allar æfingar sem ég er að gera eiga að vera afar smáar og það er bara alveg ótrúlega erfitt. Maður vill alltaf að það sjáist að maður sé að gera eitthvað, en þegar þetta er spurning um millimetra eða sentimetra, þá finnst mér að ég sé ekki að gera neitt. Samt verð ég alveg svakalega þreytt í bakinu, svo eitthvað er ég nú að gera.

Það er annars stór kostur við endurhæfinguna hér að ekki er einungis unnið með líkamlega kvilla, heldur en fræðsla stór þáttur í þessu öllu. Sumir hafa aldrei leitt hugann að því að t.d. sársauki og skynjun sársauka fer eftir ótal þáttum, bæði sálrænum og félagslegum, í viðbót við þessa líkamlegu. Eins erum við stödd á mismunandi stað í því ferli sem stundum er kallað sorgarferli og fer í gang þegar fólk verður fyrir áfalli, greinist með sjúkdóma, eða slasast. Sjúkrahúspresturinn kom í gær og fjallaði um þetta ferli. Hún vildi meina að það að hafa náð ákveðinni sátt (orð sem hún vill reyndar ekki nota) eða samþykki, sé forsenda þess að geta komist áfram og unnið betur úr því sem maður þó hefur. Það er að segja, að samþykkja að svona sé staðan núna, það sé líklega óraunsætt að maður nái nákvæmlega sömu heilsu/virkni og áður, en það sé engu að síður hægt að finna nýjan flöt á hlutunum og ná betri færni í kjölfarið.

Þetta með að sætta sig við ástandið túlka sumir sem uppgjöf, og ég hef sjálf átt í mesta basli með akkúrat þetta. En ég held að ég sé núna búin að átta mig á því að það er ekki verið að ræða um að gefast upp, heldur bara að horfast í augu við það að breytingar hafa orðið og maður þarf bara að vinna út frá því hvernig staðan er í dag. Hm, þetta hljómar mjög einfalt hér en er ekki svona einfalt í raunveruleikanum. Ég er í raun löngu búin að átta mig á því að ég mun aldrei verða eins og ég var, en ég verð líka voða glöð ef ég næ að verða eitthvað betri en ég er núna.

Á morgun er ég svo að vinna í Pottum og prikum, en síðan er ég komin í 4ra daga páskafrí.

Engin ummæli: