Málið er bara að ég tók nánast alla ávexti út úr mataræðinu í haust þegar ég fór á kolvetnasnauða-fituríka fæðið, en um leið og ég fór að borða þá aftur núna, þá kveiktu þeir á sykurlönguninni hjá mér. Þá skiptir engu máli þó þeir séu vissulega þúsund sinnum hollari en hvítur sykur, því um leið og búið er að kveikja á "umm hvað er gott að fá eitthvað sætt á tunguna" takkanum í heilanum á mér, þá hefst gamla rússíbanareiðin enn og aftur. Mig langar í eitthvað sætt, læt undan lönguninni og líður dásamlega í smá stund. En mjög fljótlega fer ég að verða sljó yfir höfðinu og þegar blóðsykurinn fellur enn frekar þá verð ég ógurlega þreytt og framtakslaus. Langar mest að leggja mig. Og hvað geri ég þá? Nú sæki mér meiri sykur til að hressa mig og þar með er kominn vítahringur.
Ég hef vitað það lengi að þessi endalausa löngun mín í sykur gæti varla talist eðlileg, og bar mig gjarnan saman við vinkonu mína sem reykir. Mér sýndist á öllu að mín fíkn væri alveg jafn sterk og hennar, og jafn erfitt að hætta að borða sykur eins og að hætta að reykja. Nú er búið að sýna fram á það með tilraunum á rottum að sykur hefur áhrif á sömu stöðvar í heilanum eins og fíkniefni. Raunar var það svo, að þegar rottur gátu valið á milli þess að fá kókaín eða sykur, þá völdu þær sykurinn. Það er franskur læknir, Dr. Serge Ahmed, sem hefur rannsakað þetta. Um daginn horfði ég á 60 minutes fréttaskýringaþáttinn "Is sugar toxic?" sem er afskaplega fræðandi þáttur um áhrif sykurs á líkamann.
Þar var meðal annars sýnt þegar þáttastjórnandinn drakk sykrað vatn og síðan var tekin MRI mynd af heilanum í honum. Þá uppljómuðust þau svæði í heilanum sem tengjast ánægju (reward center of the brain), en það sem þá gerist er heilinn frameiðir dopamín og okkur líður tímabundið afskaplega vel. Með tímanum þarf heilinn síðan alltaf meira og meira af efninu til að framkalla sambærileg áhrif og þar með myndast vítahringur. Ég kannast nú heldur betur við þetta, á tímabili dugði ekkert minna en heill poki af kúlusúkki til að seðja sykurhungrið. Núna er ég ekki svona slæm, sem betur fer, en á meðan það dugði mér t.d. um daginn að borða eina döðlu til að svala fíkninni þá er ég komin upp í tvær núna, svo þetta vindur fljótt uppá sig.
Eina lausnin er að sjálfsögðu að hætta alfarið að borða það sem kyndir undir sykurlönguninni - og mér tekst það alltaf inn á milli í dágóðan tíma - en svo á einhverjum tímapunkti tekst mér að sannfæra sjálfa mig um að bara smávegis smakk geti nú ekki verið svo slæmt. Döðlur eru nú hollar, er það ekki? Ávextir eru hollir... Dökkt súkkulaði á víst að vera svo hollt... Arg!! En ef maður dettur af hestbaki þá klifrar maður aftur á bak - svo það er markmið mitt núna, að komast aftur á "hestbak".
En svo ég vísi aftur í þennan sjónvarpsþátt um sykurinn þá er þar viðtal við bandarískan innkirtlasérfræðing, dr. Robert Lustig, sem hefur sérhæft sig í offitu barna, og hann er þeirrar skoðunar að sykur (og þá sérstaklega high fructose corn syrup) sé meginorsök þess offitu faralds sem tröllríður heimsbyggðinni um þessar mundir. Í sama sjónvarpsþætti er viðtal við lækni sem segir frá rannsókn sem hún framkvæmdi og sýnir að sykurneysla eykur líkurnar á hjartasjúkdómum og heilablóðfalli. Annar læknir er þeirrar skoðunar að sykurneysla (sem eykur insúlín útskilnað) geti aukið vöxt vissra krabbameinsfruma. Þannig að það er allt að vinna og engu að tapa að minnka sykurneyslu sína.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli