mánudagur, 30. apríl 2012

Er líf eftir Kristnes?

OK, hér er ég að fá lánaðan titil fyrirlesturs sem Heiða hjúkrunarfræðingur hélt fyrir okkur í síðustu viku  endurhæfingarinnar. Það er dálítið sérstakt að hafa verið í vernduðu umhverfi þetta lengi og eiga svo að fara út í lífið aftur.

Mér fannst stór kostur við að vera þarna, að hinir í hópnum voru á sama plani og maður sjálfur, og engin upplifun af því að vera með tvöfaldan persónuleika. Þetta með tvöfalda persónuleikann plagar mig einhverra hluta vegna meira en margt annað. Að líta út fyrir að vera frísk og full af orku, t.d. í vinnu og innan um annað fólk, og koma svo heim og hrynja saman. En já sem sagt, mér fannst það ótrúlega góð tilfinning að vera þarna þar sem allir vissu hvernig ástandið á mér var, og ég gat fengið að vera þreytt úti í horni ef svo bar undir.

Í dag var svo fyrsti vinnudagurinn eftir Kristnesdvölina. Það telst ekki með þó ég hafi unnið einhverjar 2-3 vaktir á meðan á endurhæfingunni stóð. Ég ætlaði að reyna að taka því rólega og það tókst svona nokkurn veginn. Samt var ég orðin ógurlega lúin þegar ég fór heim eftir 5 tíma vinnu. En ég hef reyndar sofið hálf illa undanfarið svo það gæti spilað inn í.

Engin ummæli: