mánudagur, 16. apríl 2012

Ágætis helgarfrí að baki

Ég var reyndar hálf sloj á laugardeginum, ekki alveg búin að ná mér af "stóra" gigtarkastinu sem ég fékk í vikunni, en sem betur fer var Silja svo almennileg að vinna klukkutíma lengur og því var ég bara ca. 2,5 tíma í vinnunni í stað 4 tíma, og hafði það heilmikið að segja. Við Valur fórum svo á árshátíð um kvöldið og það gekk nú bara vonum framar. Fyrst hittist hópurinn í heimahúsi og eftir smá stund var ég mjög þreytt á hávaðanum, en svo fórum við á veitingastað þar sem enginn var nema við, og mér tókst að halda haus fram að miðnætti. Þá reyndar varð ég mjög lúin en við fórum samt ekki strax heim.

Í gær, sunnudag, var alveg dásamlegt veður. Við Valur fengum okkur kaffi um þrjúleytið en fórum svo yfir á Svalbarðseyri. Þar lögðum við bílnum við vitann og gengum út að tjörninni. Það var alveg yndislegt, veðrið var svo gott og farfuglarnir byrjaðir að hreiðra um sig við tjörnina og við sjóinn. Þegar við komum heim aftur leið mér svo vel eftir alla útiveruna og var líka ánægð með að vera ekki ennþá þreyttari en ég var. Ég var reyndar líka mjög ánægð með það að mér fannst eins og ég hefði örlítið meira þrek til að ganga, og svo var ég betri í bakinu. Sjúkraþjálfunin er greinilega að byrja að skila sér, sem er mjög jákvætt.

Í morgun ók Valur mér svo aftur á Kristnes og hér verð ég fram á miðvikudag. Ég hafði farið í sturtu í morgun en svo vildi sjúkraþjálfarinn nota laugina til þjálfunar, þannig að ég var búin að baða mig tvisvar fyrir klukkan hálf tíu ;) Hún hélt áfram að reyna að láta mig virkja litlu vöðvana í bakinu sem hafa víst verið sofandi ansi lengi, og þeir eru farnir að taka við sér, sem betur fer.

Síðan var tími með iðjuþjálfara. Hún lét okkur fyrst teikna sjálfsmynd af því hvernig við höldum að aðrir sjái okkur, og síðan að teikna mynd af því hvernig við sjáum okkur sjálf. Sumir búa sér til ákveðna grímu þannig að ekki sjáist að þeim líður illa, en verða kannski fyrir vikið lokaðir og hleypa fólki ekki að sér. Myndin átti reyndar að miðast við daginn í dag, og í dag leið mér svo vel, þannig að ég brosti bara út að eyrum á þessari fínu sjálfsmynd minni. Svo fórum við í leik sem var dulbúið hláturjóga og ég hló svo mikið að ég varð eiginlega dauðþreytt á eftir. En það er svo hollt og gott að hlægja, maður gerir eiginlega of lítið af því.

Eftir tímann í iðjuþjálfun var hin daglega gönguferð, sem var extra ánægjuleg vegna góða veðursins. Eyjafjarðaráin var svo falleg og sólin skein á snjóhvít fjöllin. Eftir gönguna var hádegismatur og síðan vatnsleikfimi kl. eitt, en ég átti að sleppa henni í dag samkvæmt fyrirskipun sjúkraþjálfarans. Í staðinn settumst við tvær út á svalir og létum sólina skína á okkur í dágóða stund. Konan sem vinnur í býtibúrinu kom út og spjallaði við okkur.  Hún er frá Filippseyjum og ég veit ekki hvað hún hefur búið lengi hér á landi, en hún hefur greinilega ferðast heilmikið um Ísland. Nú er bensínið orðið svo dýrt að hún talaði um að það lengsta sem hægt væri að fara í sumar væri í Kjarnaskóg eða Vaglaskóg..

Svo var slökun og ég steinsofnaði og var alveg rotuð á eftir. Eftir slökun var kaffitími og svo settist ég með peysuna sem ég er að prjóna á Val, og prjónaði nokkrar umferðir. Ég er að klára munstrið, en því miður er ég líka að klára aðallitinn, svo ég á ekki nóg garn í hálslíninguna/kragann. Veit ekki alveg hvernig ég á að leysa það. Annað hvort bíða með restina þar til ég er búin að kaupa meira garn, eða nota hreinlega annan lit í hálsinn. Mér datt það alla vega í hug, en veit ekki hvort ég þori að gerast svo djörf því það mun óhjákvæmilega breyta heildar"lúkkinu" töluvert.

Svo dreif ég mig út í göngutúr í góða veðrinu. Manni finnst eiginlega að maður "verði" að reyna að nota þetta fína veður, en svona eftir á að hyggja hefði ég kannski frekar bara átt að setjast aftur út á svalir.

Tíminn er pínu lengi að líða eftir kvöldmat. Sérstaklega þar sem ég hef takmarkaðan áhuga á sjónvarpsglápi. En ég hangi eitthvað í tölvunni og les bækur og fer svo í háttinn um tíuleytið.

Jæja, þetta var mjög löng og ítarleg skýrsla um gjörðir mínar í dag. Sannkallað "kellingablogg" a la Valur ;)

Engin ummæli: