fimmtudagur, 26. apríl 2012

Að ganga meðfram sjónum er sálubót

A sunny day by the sea by Guðný Pálína

Það er ekki langt síðan ég skrifaði um það hér á bloggið hvað mér þætti gott að vera nálægt sjónum. Nú hefur verið sýnt fram á það að ég er ekki ein um þessa skoðun, og að ganga meðfram sjó skapar meiri vellíðan en önnur útivera. Samanber frétt á RÚV.is um þetta mál. 
Í dag fór ég í langa göngu hér upp í skóginn fyrir ofan Kristnes og leið vel með það. Gekk samt helst til langt, og mjaðmir og fleiri líkamspartar voru farnir að kvarta þegar ég kom í hús aftur. Einhverra hluta vegna þá heyrði ég ekki jafn hátt og venjulega í röddinni hans Vals " þú manst að þú þarft líka að komast til baka". Það verður spennandi að sjá hvernig ég verð á morgun, hvort ég þarf að borga mikið fyrir þetta útstáelsi mitt. Skógurinn er aðeins að vakna til lífsins, en það gengur nú hægt, enda frekar kalt þessa dagana. Í dag var samt sól og afskaplega fallegt veður. Ég ætlaði bara rétt að fá mér frískt loft en endaði svo á því að ganga þennan stóra hring, og hluti af honum er frekar brött brekka, en ég hlýt nú bara að vera að styrkjast eitthvað úr því ég "flaug" svona upp hana ;-) Svo tók ég nokkrar myndir en af því við höfum verið að læra svo mikið um líkamsstöðu, vinnustellingar ofl. þá áttaði ég mig á því að ég er stundum öll í einum keng þegar ég er að taka myndir. Lyfti öxlunum upp að eyrum og pressa hnakkann einhvern veginn asnalega, þannig að mér verður illt í hálsinum aftanverðum. Við vorum líka að æfa okkur að lyfta þungu í dag og ég sem hélt að ég væri að gera þetta allt rétt, er að hreyfa hálsinn eitthvað asnalega þegar ég er að lyfta. Verð að passa mig því ég er greinilega að verða eitthvað tæp í hálsinum. Vil helst ekki fá brjósklos þar líka... 
Annars er víst síðasti dagurinn hér á morgun. Sem er frekar skrítið. Bæði hefur tíminn hérna liðið alveg hreint ótrúlega hratt, og eins þá vildi maður hálf partinn vera lengur til að sjá enn meiri árangur. En þau mæla með því að ég haldi áfram í sjúkraþjálfun og sjúkraþjálfarinn minn talaði reyndar um að hún teldi að ég hefði gott af því að vera í sjúkraþjálfun í hálft ár í viðbót. Ég veit nú ekki hvort það verður raunin, en það er alla vega um að gera að hamra járnið meðan það er heitt, og drífa sem fyrst í því að byggja ofan á það sem búið er að gera hér. Það var nú ekki bara ég sem varð fyrir smá vonbrigðum þegar ég áttaði mig á því að maður sigrar ekki heiminn á 4 vikum í endurhæfingu, þetta var nokkuð sem þau hin í hópnum höfðu líka haft smá ranghugmyndir um. Engu að síður er ég komin nokkuð á veg og vonandi heldur ástandið bara áfram að batna. Vefjagigtin mun náttúrulega ekki fara neitt, en ég óska þess heitast að þetta þreytuvandamál mitt minnki eitthvað og helst hverfi alveg... Það má láta sig dreyma ;-)

Engin ummæli: