föstudagur, 29. apríl 2011

Fríhelgi framundan

Bara spurningin í hvað á að nota hana? Ætli það fari nú ekki eftir því hvernig staðan verður á frúnni... En já í dag eða í gær sá ég á facebook að ein stelpa (hehe reyndar bráðum 3ja barna móðir en svo stelpuleg (ungleg)) var að segjast ekki hafa borðað sykur, hveiti eða sterkju í 300 daga. Úff, ég samgladdist henni en verð að viðurkenna að ég öfundaði hana af viljastyrknum og sjálfsaganum. Mér sjálfri skrikar alltaf fótur í þessu með mataræðið og eins og núna þá er ég dottin á bólakaf í sykurkarið, eða svona næstum því. Og það er svo fyndið með það, að buxnastrengurinn verður fljótt þrengri og maginn skvaplegri, já allt verður skvapkennt. En það er jú ekki fyrst og fremst útlitið sem ég er að reyna að hafa áhrif á með mataræðinu, heldur líðanin. Mér líður betur á fæði sem er nokkuð laust við sykur, hveiti og ger. En vá hvað það er erfitt að halda því til streitu. Nú þarf ég að peppa mig upp í að byrja aftur í hollustunni, sumarið ætti nú að vera besti tíminn til þess.

2 ummæli:

Gulla sagði...

Ég er einmitt búin að vera að skoða þetta líka síðustu mánuði með að sleppa hveiti, sykri og geri, en meira bara lesa um það frekar en prófa (þó ég hafi reyndar prófað þetta mataræði í 2 vikur núna í vor: http://www.wholeapproach.com/downloads/WholeApproach_Food_List.pdf. Notaði bara það sem er á "OK-Foods"-hluta listans). Þetta er ansi strangt og mikil vinna að koma sér í gírinn með að kaupa inn rétt matvæli, elda á lystugan hátt og hafa fjölbreytni.
Ég var líka að lesa bókina "Meltingarvegurinn og geðheilsa" eftir Dr. Natasha Campbell-McBride. Margt áhugavert sem fjallað er um þar og gæti gagnast vefjagigtarfólki að flestu leyti, held ég.
En það sem fellir mig yfirleitt í svona lífstílsbreytingum er vaninn (erfitt að kenna gömlum hundi að sitja!) og félagslegar aðstæður sem "krefjast" þess að maður borði það sama og hinir... þó það sé auðvitað alltaf spurning um vilja og hugarfar :) Ég gæti vel hugsað mér að borða svona ef ég fengi matinn eldaðan fyrir mig og einhver sæi um innkaup og svoleiðis "leiðindi" ;)

Guðný Pálína sagði...

Ég er líka búin að lesa bókina eftir dr. Campell-McBride, og veit að þetta mataræði hefur verið að gagnast fólki með vefjagigt. Ég segi eins og þú, ég gæti vel hugsað mér að breyta um mataræði og fylgja einhverju svona prógrammi, en vá hvað það væri mikið léttara ef maður þyrfti ekki að hugsa neitt, gæti bara fengið matinn tilbúinn :)