mánudagur, 4. apríl 2011

Skemmti mér við að skanna hitt og þetta

Já nú er ég búin að skanna hinar ýmsu myndir sem ég rakst á í tiltektinni í gær. Bekkjarmyndir frá því í barnaskóla, gagnfræðaskóla, menntaskóla og úr sjúkraliðanáminu. Þessu skellti ég öllu inn á facebook, við töluverðar vinsældir. Ég reyndar merkti ekki fólk á myndunum, ef einhverjir skyldu vera viðkvæmir fyrir gömlum myndum af sjálfum sér. Nöfnin koma þá ekki upp við leit á facebook eða netinu.

En já mér finnst þetta ferlega gaman og hér kemur ein skönnuð mynd sem er ekki komin á facebook. Þetta er myndin sem var tekin af mér í tilefni þess að ég útskrifaðist sem sjúkraliði. Myndin var tekin að vori til og strangt til tekið, þá var ég ekki útskrifuð á þeim tímapunkti. Það orsakaðist af því að ég var ekki búin með allt verknámið, en við gátum ekki byrjað allar á sama tíma í verknámi, svo ég vann í garðræktinni sumarið áður, þegar flestar hinna hófu verknám. Mér fannst svo gaman að vinna í garðræktinni að mér var sléttsama þó ég kæmist ekki strax inná sjúkrahús í vinnu.

En það sem maður rekur óneitanlega augun í við að skoða þessa mynd, er hversu ung ég er, enda ekki nema 18 ára þegar myndin var tekin (varð 19 um haustið). Svo skildi ég ekkert í því af hverju sumar hjúkkurnar komu fram við mig eins ég væri barn... hehe :-)

Engin ummæli: