laugardagur, 16. apríl 2011

ÞrautseigjaÞrautsegja - Resilience, originally uploaded by Guðný Pálína.
Er eiginleiki sem er gott að búa yfir. Þessi hvönn er búin að standa úti allan veturinn, í stormi og snjóalögum, og stendur enn. Enda harðgerð planta. En hún er víst ekki beint lifandi, í þeim skilningi sem við erum vön að leggja í orðið. Minnir mig pínulítið á sjálfa mig þessa dagana. Ég þrauka og þeir sem horfa á mig sjá manneskju sem lítur út fyrir að vera í lagi, en mér finnst ég nú meira vera dauð en lifandi. Aðallega vegna þess að í stað þess að sættast við þá staðreynd að ég sé með vefjagigt og hún hamli vissum þáttum í mínu lífi, þá bara get ég ekki sætt mig við þetta ástand. Ég veit samt innst inni að ég verð að ná einhvers konar sáttum, því annars er það bara ávísun á endalausa andlega vanlíðan.

Stundum velti ég því fyrir hvort ég sé að "sjúkdómsvæða" sjálfa mig. Að með því að lesa mér til á netinu og reyna að finna einhver svör, einhverja meðferðarmöguleika, að ég sé þá að festa sjúkdóminn frekar í sessi hjá mér. Að ég hætti að líta á sjálfa mig sem heilbrigða manneskju og dragi frekar að mér upplýsingar og kringumstæður sem staðfesti að ég sé "sjúklingur". En um leið og ég spái í þetta þá veit ég að það er ekki satt.

Vegna þess að þá daga sem er svona nokkurn veginn í lagi með mig þá hugsa ég ekki um veikindi eina einustu sekúndu. Þá er ég bara venjuleg manneskja sem hef gaman af lífinu. Hef gaman að því að vera í vinnunni og sinna þeim verkefnum sem þarf utan vinnu. Þá fer ég alveg á fullt við að gera ýmsa hluti sem verða útundan í þreytu- og verkjaköstunum, og steingleymi að hugsa um að ég þurfi nú að passa mig. Passa að ofreyna mig ekki því svoleiðis þarf alltaf að borga með vöxtum. Ef ég væri algjörlega fixeruð á það að vera bara sjúklingur (af því að á einhvern undarlegan hátt væri það að gagnast mér) þá myndi ég ekki bara gleyma því inn á milli. Þannig að, niðurstaðan er sú að ef ég væri ekki svona "gölluð" þá væri ég ekki að velta mér svona uppúr þessu heilsuleysi.

En já, það eru margir mun verr settir heldur en ég, og ein kona sem hefur þjáðst af síþreytu síðan hún veiktist af flensu fyrir tíu árum síðan, Toni Bernhard, hefur skrifað bók "How to be sick" sem væri ábyggilega forvitnilegt að lesa. Hún fjallar um það hvernig hægt að að byggja upp verðugt líf, þrátt fyrir að vera rúmliggjandi. Hvernig hægt er að sættast við orðinn hlut og finna ný áhugamál o.þ.h. sem gera lífið þess virði að lifa því. Nú er ég ekki einu sinni rúmliggjandi, svo ég held að ég ætti nú bara að þakka fyrir það sem ég þó hef!!

1 ummæli:

tongchen@seattle sagði...

Greetings from USA! Your blog is really cool.
Are you living in Iceland?
You are welcomed to visit me at:
http://blog.sina.com.cn/usstamps
Thanks!