sunnudagur, 17. apríl 2011

Ládeyða eða bara rólegheit

Allt spurning um það hvernig maður skilgreinir hlutina. Þessi helgi hefur sem sagt verið afskaplega róleg eins og þær flestar eru þessa dagana. Í gær fórum við Valur samt í smá ljósmyndatúr yfir á Svalbarðseyri. Þar var "gluggaveður", eða þannig. Ótrúlega kalt þrátt fyrir plúsgráður úti og sól á köflum. Þegar mér verður svona kalt þá stífna ég öll upp og í dag var ég að drepast í hendinni sem ég notaði til að halda undir linsuna, en ég var með aðeins þyngri linsu á vélinni heldur en ég er vön. Um kvöldmatarleytið birtist svo Hjörtur bróðir Vals, en það datt í hann að kíkja norður í land þar sem hann var kominn í páskafrí. Það er alltaf gaman að fá gesti og mættu fleiri koma og oftar.

Í dag voru meiri rólegheit, en þó fórum við með Hirti á listasýningar í gilinu, í kaffi í Hofi og smá bíltúr yfir í heiði. Já ekki má gleyma því að Rósa vinkona hringdi í mig í morgun og bauð mér með sér í sund. Hún er stödd hérna núna, ætlar að vera hjá mömmu sinni yfir páskana. Það var skemmtileg tilbreyting að fara með henni í sund, við syntum nokkrar ferðir og héngum svo í (volga) heita pottinum og spjölluðum saman. Eitt er hins vegar farið að plaga mig svolítið mikið í tengslum við sundferðir og það er hávaðinn í hárþurrkunum í búningsklefanum. Hávaði almennt er reyndar erfiður viðureignar og þarf kannski ekki einu sinni að vera svo mikill hávaði sem slíkur. Allt hljóð magnast bara einhvern veginn upp í höfðinu á mér og mér líður eins og ég sé inni í tómri tunnu sem verið er að berja í. Það er rosalega erfitt að eiga við þetta, því umhverfishljóð eru ekki beinlínis eitthvað sem þú getur stýrt sjálfur. Valur var t.d. bara að krumpa saman bréfpoka í morgun og ég ætlaði alveg að ærast.

Ég hef ekki verið sjúkdómsgreind með síþreytu, enda ekki farið til læknis eftir að ég versnaði svona. Mér finnst ég samt eiga mjög margt sameiginlegt með síþreytusjúklingum og mörg einkenni þau sömu. Þeir sem eru verst haldnir þurfa að liggja fyrir í dimmu herbergi því þeir þola ekki birtu og fólk þarf að hvísla því þeir þola ekki hljóð/hávaða. Og enn og aftur þá er ég þakklát fyrir að vera ekki svo slæm - en mikið sem mér þætti nú vænt um að vera frískari.

1 ummæli:

Anna Sæm sagði...

Guðný mín, vona svo innilega að þú komist sem fyrst inn í Lilleström-dæmið og að þær geti eitthvað hjálpað þér til betri heilsu þar.