sunnudagur, 10. apríl 2011

Vorsvörður



Vorsvörður, originally uploaded by Guðný Pálína.
Það er Valur sem á heiðurinn af nafninu á þessari mynd. Ég sjálf var alveg tóm.

En sem sagt, í gær var ég í álíka þungbúnu skapi og himininn á þessari mynd. Ég hafði jú drattast í bæinn með þeim eina árangri að vera algjörlega uppgefin á eftir, og byrjaði sjálfspíningarsönginn minn eftir það. Sá söngur heyrist aðallega í höfðinu á sjálfri mér og fjallar um það hvað ég sé nú eiginlega mikill aumingi og hvað það hljóti að vera hræðilegt fyrir alla sem að mér standa að þurfa að horfa uppá þetta. Já, ég veit, alveg ömurleg sjálfsvorkunn hér á ferð.

 Jæja, nema hvað, eftir kvöldmatinn voru svo falleg ský í norðrinu, að við Valur ákváðum að drífa okkur út með myndavélarnar. Það stóð nú reyndar á endum að loks þegar við vorum komin af stað, voru skýin ekki svona falleg lengur, en mig langaði samt að komast eitthvað út fyrir bæinn. Svo við ókum að Gáseyri og vorum þar í smá stund í rokinu og tókum myndir. Það var ótrúlega hressandi að komast út í náttúruna og eins og oftast nær, þá tókst mér algjörlega að hætta að hugsa um rassinn á sjálfri mér á meðan ég var að horfa í gegnum linsuna og anda að mér fersku sjávarloftinu. Eftir Gáseyri ókum við svo fram Hörgárdal, og þar sáum við þetta yfirgefna hús og stoppuðum og tókum nokkrar myndir. Allt í allt var þetta prýðileg ferð hjá okkur og ég kom heim í þúsund sinnum betra skapi en ég fór.

Engin ummæli: