föstudagur, 29. apríl 2011

Sumir eru fegnir sumriSign of summer, originally uploaded by Guðný Pálína.
Eins og til dæmis þessi fluga sem hér sést. Sú sem hér skrifar gleðst líka yfir lengri, bjartari og hlýrri dögum, þó það síðastnefnda sé nú undir hælinn lagt hér á Ís-landi.

Í dag var að minnsta kosti nógu hlýtt til þess að Birta færi út og stoppaði sú gamla utandyra í 5-10 mínútur, hvorki meira né minna.

Valur er í fríi í dag og fór á fætur með Ísaki en ég fékk að sofa lengur. Það var ósköp ljúft og minnti á gamla daga þegar við skiptumst á að vakna með krökkunum um helgar, svo hitt fengi þá aðeins lengri svefn.

En já, myndin er tekin í Lystigarðinum. Ég fór smá rúnt þar með myndavélina um daginn og var að reyna að taka myndir fyrir ljósmyndasýningu sem við Álfkonur ætlum að halda eftir eina viku. Álfkonur er heitið á ljósmyndaklúbbnum mínum og er ein okkar, Hrefna Harðardóttir leirlistakona, afskaplega dugleg að reyna að koma okkur á framfæri. Hún er með vinnustofu í Listagilinu og fyrir framan vinnustofuna er gangur þar sem við getum sýnt myndirnar okkar, t.d. þegar Gildagur er en þá eru opnaðar nýjar myndlistarsýningar í Listasafninu og á fleiri stöðum og margt fólk á ferli. Það er meiningin að við tökum þátt í sýningu um næstu helgi og Valur fór með tvær myndir eftir mig í prentun í morgun af því tilefni. 

Þessi hér er önnur þeirra. Það verður spennandi að sjá hvernig þær koma út en það var nú ekkert hlaupið að því að taka þær. Ég þurfti helst að liggja í jörðinni því blómin voru svo lítil (ca 15 cm. há) og markmiðið var að ná ákveðnu sjónarhorni upp undir þau. Það var nú ekki alls staðar hlaupið að því að leggjast niður í miðju blómabeði svo stundum þurfti ég að húka í asnalegri stellingu, öll samankrulluð, og reyna að halda myndavélinni stöðugri. Sem var pínu áskorun því bæði titraði ég pínulítið sjálf af því það var svo erfitt að vera í stellingunni, og svo var líka gola úti. Ég þurfti að stilla fókusinn manuelt því ekki er hægt að nota autofókus þegar verið er að taka myndir svona nálægt. Sjálfvirki fókusinn veit nefnilega ekki nákvæmlega hvar ég vil hafa fókusinn í myndinni og velur kannski eitthvað strá sem er til hliðar/bakvið við myndefnið.

Engin ummæli: