sunnudagur, 3. apríl 2011

Einu sinni langaði mig að verða fatahönnuður

Já það sem maður geymir!! Mér finnst ég nú vera orðin mun duglegri að henda hlutum, og auðvitað er margt sem ég vil ekki henda. Í dag hef ég dundað mér við að fara í gegnum ýmislegt gamalt og hent sumu. Öðru tími ég ekki að henda og hef meira að segja sett á tölvutækt form með því að skanna það inn, svo ég muni eiga það áfram.

Eitt af því eru þessar tvær myndir sem hér fylgja. Þær teiknaði ég í kringum tvítugsaldurinn, líklega svona ca. 22ja ára gömul, í tilefni þess að á þeim tíma langaði mig að verða fatahönnuður. Það er reyndar réttara að segja að fatahönnuður var eitt af því sem mig langaði að verða á þeim tíma. En hins vegar fannst mér ég ekki kunna að teikna og taldi því að ég gæti ekki lært fatahönnun þess vegna. Samt teiknaði ég mjög mikið í kringum 10-13 ára aldurinn. Svo hætti ég því hins vegar nánast alveg, þegar ég áttaði mig á því að Anna systir og Rósa vinkona voru miklu flinkari að teikna en ég... Já svona var ég skrítin. Auðvitað á maður ekki að hætta að gera það sem manni finnst skemmtilegt, en þannig hugsaði ég ekki þá. Ég á samt ennþá ofan í kassa safn af teikningum frá því ég var krakki/unglingur og flestar eru myndirnar af konum. Ekki af því ég hafi hrifist svo gríðarlega af konum sem slíkum, heldur af því ég var alltaf að teikna þær í mismunandi fötum. Þegar ég var enn yngri var ég líka endalaust að sauma föt á barbídúkkurnar mínar, þó saumaskapurinn hafi nú verið misgóður. En mikið sem ég hafði gaman af þessu föndri.

Ég saumaði líka föt á sjálfa mig, mest í kringum tvítugsaldurinn, en hætti því svo alveg þegar við fluttum til Noregs. Þar voru fataefnin svo dýr á þeim tíma. Síðasta flíkin sem ég saumaði á mig var vesti (minnir mig) og ætli það hafi ekki verið fyrir jólin 1992? Hm, eða 1993. Við bjuggum alla vega í Tromsö og ég saumaði vesti á mig, Hrefnu og Andra. Einhvers staðar á að vera til mynd af okkur í vestunum.

En já, aftur að þessum myndum sem koma hér. Ég er að spá í að hvort ég hafi verið að herma eftir myndum sem ég sá í tískublaði, ég held varla að mér hafi dottið þetta alfarið í hug sjálf. Því ég held að ég hefði örugglega reynt að hafa hlutföllin aðeins gáfulegri (höfuðin eru afskaplega lítil og fötin aðalatriðið).  Hins vegar fannst mér svo óborganlega fyndið að finna þetta að ég stóðst ekki mátið að birta þessi stórkostlegu teiknunar-afrek mín hér ;-)

Engin ummæli: