laugardagur, 9. apríl 2011

Velkomin í væluhorn Guðnýjar


Þá er þessi vinnuvika á enda og helgarþreytan tekin við. Alltaf jafn skemmtilegt að ná að halda sér á floti gegnum vikuna og hrynja svo saman um leið og færi gefst til hvíldar. Eða þannig. Sófinn er að minnsta kosti voða góður vinur minn núna. Ég sef samt ekki, er bara svo ótrúlega þreytt að mér finnst erfitt að sitja, hvað þá að standa upprétt. Það er þoka yfir höfðinu á mér og þar að auki er ég að drepast í hægri handleggnum. Hef líklega legið illa á honum í nótt. Mér er illt í öxlinni í nótt, illt í úlnliðnum og þar að auki með brjálaðan bjúg á fingrum hægri handar. 

Ég fór samt út áðan. Drattaði mínum rassi í 66 gráður norður því ég hafði séð auglýsta peysu með góðum afslætti. Þegar til kom passaði peysan ekki, svo ég þurfti ekki að spá meira í það. Ég hitti samt Fríðu bloggvinkonu / kórsystur / Nönnu- og Siljumömmu (Nanna og Silja hafa báðar unnið í Pottum og prikum). Fríða hafði séð auglýstan regnjakka, fisléttan og fínan til að hafa með sér í hlaupin, og var svo heppin að hann var til í hennar stærð. Með henni var Ívar sonur hennar sem er að fara á skólaskipið Danmark og er að vonum spenntur.

Ég hafði líka séð auglýstar gallabuxur og dreif mig þess vegna næst í miðbæinn. Það var í lagi fyrst í stað, en eftir að hafa mátað buxur í 10 mínútur (gat ekki ákveðið hvort sniðið ég átti að kaupa) var ég alveg búin á því. Þá datt mér í hug að fara í Pennann og kaupa mér kaffi til að hressa mig, en þegar til kom keypti ég ekki kaffi, heldur ljóðabók sem ég ákvað að færa eiginmanninum að gjöf.

Fór svo heim og fékk í staðinn kaffi úr kaffivél heimilisins. Það hressti mig nógu mikið til að ég sit hér og blogga en sófinn bíður handan við hornið. Helst vildi ég geta sofnað og sofið þar til ég verð hressari... en það er víst ekki í boði.

Árshátíðarkaffið gekk ágætlega fyrir sig. Ég hljóp þarna um eins og hauslaus hæna, og fannst ég ekki beint hafa yfirsýn yfir þetta verkefni, en það kom nú líka til af tvennu. Annars vegar mættu foreldrar og krakkar frekar seint til vinnunnar og hins vegar voru skemmtiatriðin búin korteri fyrr en við reiknuðum með, og ég var ekki "tilbúin" þegar gusan kom. Þetta slapp samt allt, heitu réttirnir voru ekki alveg tilbúnir en komu fljótt og svo var mikill hamagangur í öskjunni við að koma veitingum á hlaðborðið eftir því sem tæmdist af því. En gestirnir voru sáttir og það var nú aðalatriðið. Magn veitinga hefði ekki mátt minna vera, en það slapp líka fyrir horn. Ég fór ekki í þreytubreakdown á meðan á þessu stóð (adrenalínið sá fyrir því) og svo tók tíma að ganga frá en þá var ég líka alveg búin á því. Valur kom svo á næstu sýningu og við horfðum á leikritið sem Ísak og hinir krakkarnir í leiklistarvalinu voru að sýna. Þetta var bráðskemmtilegt hjá þeim og Ísak stóð sig svaka vel í stóru hlutverki. Kvöldið fór svo í að smyrja flatbrauð til að hafa með á hlaðborðinu næsta dag.

Í gær fór ég svo með tvær marengstertur og flatbrauð upp í skóla áður en ég fór í vinnuna. Var nú frekar framlág en þurfti að hrista það af mér þegar stór sending af vörum kom, og þá þýðir ekkert að vera þreyttur. Þannig að sú gamla bretti uppá ermar og fór á fullt.

Í gærkvöldi fórum við Valur svo á nýja sushi staðinn áður en við fórum á sýningu í Hofi. Þar var danska leikkonan Charlotte Böving með sambland af vangaveltum um lífið og tilveruna, og dönskum söng. Frábær sýning hjá henni. Þarna voru margir sem ég þekki eða kannast við, og meðal annars bæði Bryndís vinkona mín og Hafdís og Hulda systir hennar. Við Valur settumst hjá þeim systrum, en þetta var svona kaffihúsa-stemming en ekki uppraðaðir stólar. Þetta var sem sagt hin ágætasta skemmtun en mikið var samt gott að komast heim í sófann - sjónvarpssófann í þetta sinn - og slaka aðeins á eftir annasaman dag.

Ég held að ég láti þetta gott heita af væli í dag. Kannski blogga ég bara aftur í dag eða á morgun og sleppi því alfarið að væla. Væri það ekki frábært?

Engin ummæli: