Eftir sund og morgunmat var sú gamla alveg búin á því og endaði í rúminu aftur... sofnaði reyndar eiginlega ekki neitt, bara lá og las og dormaði reyndar aðeins í lokin. Svo fór ég að hugsa um að þetta væri nú meiri grái og leiðinlegi dagurinn og það væri víst undir sjálfri mér komið að gera hann betri. Ísak var veikur heima og ég vissi að Valur kæmi heim um hádegið, svo ég dreif mig á lappir og fór að baka vöfflur. Það gladdi kallana mína að fá þessar fínu vöfflur í hádegismat og þá var nú tilganginum náð.
Ég hinsvegar er ennþá hálf drusluleg og leið á sjálfri mér þrátt fyrir þessa tilraun til að gefa lífinu lit. En ég er að fara að vinna klukkan tvö og þá þýðir ekkert annað en safna sér saman, klína málningu framan í fjesið, reyna að finna einhver föt sem mér líður vel í og ruslast af stað. Sem betur fer hressist ég nú yfirleitt við að koma í vinnuna og eiga samskipti við fólk. Þá gleymi ég því stundarkorn hvað ég er eitthvað misheppnuð (að vera alltaf svona slöpp og þreytt) og það er nú ágætt. Gleymi því að minnsta kosti þar til ég fer að gera einhverjar gloríur...
Valur og Ísak eru inni í stofu að tefla. Ísak hefur ekki mikið verið að tefla en eitthvað aðeins þó í skólanum stundum. Nóg til þess að hann varð í öðru sæti þegar keppt var í skák í Lundarskóla og svo lenti Lundarskóli (liðakeppni og Ísak með) í þriðja sæti í keppni grunnskóla á Akureyri. Það voru 7 skólar sem kepptu. Og meiri fréttir af Ísaki, því hann skellti sér líka í stærðfræðikeppni grunnskóla við Eyjafjörð á dögunum, og gerði sér lítið fyrir og lenti í öðru sæti þar. Vann tíu þúsund krónur í verðlaun og fannst það ekki slæmt. Flott hjá honum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli