Þessi mynd er sem sagt tekin í ljósmyndatúrnum mínum í dag.
fimmtudagur, 31. desember 2009
Rólegheita og afslöppunardagur
Síðasti dagur ársins í dag og hér í húsinu eru og munu verða rólegheit í dag og í kvöld. Ég svaf nú til að verða hálf ellefu og var í þónokkra stund að velta því fyrir mér hvað ég ætti að gera næst. Átti ég að fara í sund, í ræktina, eða út að taka myndir. Það síðastnefnda varð ofaná. Ég kappklæddi mig og fór út í Kjarnaskóg en þar var erfitt að ganga og erfið skilyrði til myndatöku. Bæði var birtan erfið og gönguskíðafólk í sífellu að fara framhjá mér. Mér finnst best að geta verið algjörlega í eigin heimi þegar ég er að taka myndir og nenni ekki að spá í fólk í kringum mig. Þannig að ég færði mig um set og fór næst að Höfners bryggju, þar sem ég undi mér um stund. Svo ætlaði ég nú bara að fara heim en þá var birtan að verða svo falleg í norðrinu og þá dreif ég mig niður á tanga og var þar alveg alein með sjálfri mér í góða stund. Tja, fyrir utan nokkra fugla og eina flugvél sem flaug yfir mig. Raunar voru líka fótspor í snjónum sem sýndu að eitthvað dýr (kanína?) hafði verið þarna á undan mér í dag. Himininn var nokkuð þungbúinn en bleikir litatónar lýstu hann upp.
Þegar ég kom heim beið mín kaffilatté á borðinu og við hjónakornin fengum okkur kaffi saman. Að því loknu fóru Ísak og Valur að kaupa eitthvað smá flugeldadót handa Ísaki en ég fór í tölvuna. Nú er það bara letin sem ræður ríkjum. Við erum ekki að fá neina gesti í kvöld og förum ekki neitt, svo hér verður bara matur þegar við nennum að borða. Og ég get ekki sagt að ég nenni þá að stressa mig yfir því hvernig húsið lítur út. Nema stofan þar sem við borðum. Ætli ég muni ekki sjá til þess að hún líti sómasamlega út. Prófi nýju diskamottu-borðdúkana frá Önnu systur. En sem sagt, við verðum bara þrjú í mat í kvöld þar sem Andri er jú ennþá í útlöndum og Hrefna verður með pabba sínum og hans fólki. Ísaki leist nú ekki alveg á þetta fyrirkomulag og spurði hvort við gætum ekki boðið einhverju fólki í mat - en það er nú víst heldur seint í rassinn gripið. Við Valur verðum bara að reyna að vera extra skemmtileg í kvöld, hehe :)
Æjá, myndin sem fylgir er ekki tekin í dag, heldur 26. des. þegar hætti loks að snjóa.
Og já, þetta er mjög sjálfhverf bloggfærsla, en það er nú einu sinni eðli mitt sem bloggara að blogga mest um sjálfa mig...
sunnudagur, 27. desember 2009
Jamm og jæja...
Við Valur horfðum á Barnaby í danska ríkissjónvarpinu í gærkvöldi og þegar þátturinn var búinn um ellefuleytið var svo yndislega fallegt veður úti. Það var hætt að snjóa og frekar stillt veður. Þannig að okkur datt í hug að draga Ísak með okkur og kíkja út í smá ljósmyndatöku. Fórum í innbæinn og vorum þar í um klukkutíma að taka myndir, við mikinn fögnuð unglingsins. Það voru afar fáir á ferli. Ein stelpa var úti að viðra hundinn sinn en annars var það bara stöku bíll sem ók framhjá. Sumir hægðu verulega á sér til að skoða þetta skrýtna fólk með myndavélarnar en það var nú bara skiljanlegt.
Í dag er himininn grár og reytir af sér stöku snjókorn. Það er allt á kafi í snjó hér fyrir utan. Í gær var orðið ansi ófært fyrir venjulega bíla í sumum götum og Jóni nágranna okkar gekk illa að koma bílnum út af stæðinu og festi hann tvisvar. Þá kom "Tuddinn" sér vel og Valur fór á honum og dró bílinn hans Jóns út úr snjónum. Í annað skiptið voru átökin svo mikil að reipið slitnaði, hvorki meira né minna, þannig að bíllinn hefur aldeilis verið pikkfastur.
En núna ætla ég að fá mér ávaxta/orkuhristing, fara í sturtu og reyna svo að gera eitthvað gagn hér á heimilinu!
laugardagur, 26. desember 2009
Þyrfti svo sannarlega að taka mig aðeins saman í andlitinu
Allt sem ég hafði hlakkað til að gera í mínu þriggja daga jólafríier ennþá ógert og samviskubitið er farið að láta á sér kræla. Og svo ég ali nú á samviskubitinu í sjálfri mér þá kemur hér upptalning á öllu því sem ég á ógert:
* Setja súkkulaði á kókos-haframjölssmákökurnar sem Valur bakaði
* Þvo öll skítugu fötin mín sem ég hafði ekki tíma til að þvo á meðan jólavertíðinni stóð
* Baka brauð eða bollur
* Gera rækjusalat
* Gera við snjóbuxur fyrir Val
* Lesa bókina sem Sunna gaf mér í afmælisgjöf
* Byrja að prjóna lopapeysu á Andra
* Gera "kúk" (eins og Valur kallar súkkulaði-marspipan-rúlluna)
Tja, ætli þetta sé ekki bara upptalið!
Það sem ég er búin að gera í jólafríinu:
* Slappa af
* Læra á nýja farsímann minn
* Borða
* Sofa
* Horfa á tvær gamanmyndir
* Fara út og taka ljósmyndir
Á morgun er frjáls opnun á Glerártorgi og ætlum við Sunna að hafa lokað í Pottum og prikum. Sem er kannski vitlaysa því fólk er hugsanlega orðið þreytt á að hanga heima hjá sér og langar að þvælast í verslanir í jólafríinu og skipta jólagjöfum. En einhvern tímann verður nú verslunarfólk að fá frí og þeir eru ekki margir dagarnir á árinu sem er lokað á Glerártorgi.
Í kvöld ætla margir á mínu reki á "Dynheimaball" sem reyndar verður í Sjallanum en ég er engan veginn að nenna svoleiðis útstáelsi. Hrefna hins vegar ætlar að hitta vinkonur úr MA og aldrei að vita nema þær fari á skrall. En örugglega ekki í Sjallann samt ;) Það er kannski spurning að allir þrír fjölskyldumeðlimirnir sem munu verða heima í kvöld prófi nýja spilið sem var í möndlugjöf í ár, Heilaspuna, þó húsfreyjan sé illa haldin af spilafóbíu.
sunnudagur, 20. desember 2009
Bara fjórir vinnudagar eftir fram að jólum
Ísak tekur fjarveru mömmu sinnar af stóískri ró - það er helst að kettirnir sakni mín, hehe. Þau eru að minnsta kosti fljót að birtast þegar ég kem heim og þurfa þá extra athygli.
Annars er fátt í fréttum. Andri er kominn út til Flórída með Sunnevu og fjölskyldu og þau njóta lífsins í tuttugu stiga hita. Hrefna kemur heim á Þorláksmessu, með beinu flugi frá Kaupmannahöfn. Það verður gott að fá að knúsa hana.
Ætli jólin fari svo ekki að mestu leyti í hvíld og afslöppun eftir þessa miklu vinnutörn. Það væri reyndar alveg draumur í dós að komast út að taka myndir. Nú er orðið svo langt síðan ég fór síðast og ég sakna þess að hafa ekki myndavélina í höndunum. Síðan er ég búin að kaupa garn í lopapeysu á Andra og stefni að því að prjóna sem mest um jólin. Já, sem minnir mig á það, ég þarf að athuga hvort ég á ekki prjóna í réttri stærð. Ég hef nefnilega aldrei prjónað lopapeysu áður, þ.e. ekki úr "alvöru" lopa. Mín var jú bara úr léttlopa. En talandi um hana þá er ég í henni núna. Það var ágætt að hvíla hina lífseigu bláu flíspeysu sem gegnt hefur hlutverki "heimapeysu" hin síðustu ár. Valur átti samskonar flíspeysu og hann er líka í nýrri lopapeysu, þannig að þetta er bara alveg nýtt "look" hérna heima við :)
Úff, ég er með þvílíku þreytuverkina í fótunum. Þetta er bara alveg eins og þegar ég var að vinna sem sjúkraliði fyrir einhverjum tuttugu og fimm árum síðan. Eftir kvöldvaktir var ég svo upprifin og ætlaði aldrei að geta sofnað (eins og núna) og oft alveg svakalega þreytt í fótunum (eins og núna).
En ætli sé ekki best að reyna að fara að sofa þar sem klukkan er að verða tvö.
sunnudagur, 13. desember 2009
Framkvæmdalisti dagsins hljóðaði svona:
- Fara í ræktina
- Setja gömul föt í plastkassa
- Byrja að prjóna lopapeysu á Andra
- Kaupa jólagjöf handa Val
- Baka eina smákökutegund
- Pakka inn jólagjöfum
- Panta vörur
Það sem ég er búin að gera:
- Fara í ræktina
...
Þar fyrir utan ég reyndar búin að baka skinkuhorn með Ísaki, fara í vinnuna í hálftíma og svo aftur í tvo tíma og... ekkert! Ég hef ekki hugmynd um það í hvað tíminn hefur farið hjá mér í dag. Svaf reyndar til hálf ellefu því ég gat ekki sofnað fyrr en um þrjúleytið í nótt. En mér líður eins og ég hafi verið á fullu allan daginn. Það fóru nú reyndar alveg tveir tímar í að baka 80 skinkuhorn. Og einn og hálfur tími í ræktina + heita pottinn. Já og svo fór ég í Hagkaup til að kaupa konfektform - bara svona til að eiga þau ef ske kynni að andinn kæmi yfir mig í þeim efnum.
Valur fór til Reykjavíkur gær, keyrandi, og var að hringja áðan og sagðist vera að leggja af stað heim. Þetta var bara svona upplyftingar- og jólagjafainnkaupaferð hjá honum og hann virðist hafa náð að klára allar heimsóknir og innkaup á þessum tæpa sólarhring í borginni.
En nú er víst best að hætta þessu blaðri og fara að vinna í því að klára eitthvað fleira af þessum lista!
föstudagur, 11. desember 2009
Batnandi herbergjum er best að lifa
Svo fór ég í dag með norskar bækur á bókasafnið en ég var búin að spyrja Hólmkel amtsbókavörð að því hvort þeir vildu fá norskar bækur. Hann sagði að ef ég ætlaði að henda þeim þá skyldi ég að minnsta kosti leyfa þeim á bókasafninu að henda þeim fyrir mig... Svo ég fór með fullan kassa þangað af bókum sem ég fékk þegar ég var meðlimur í bókaklúbbi þegar við bjuggum í Noregi.
Ég fór líka með dúnúlpuna mína í hreinsun og gítarinn í viðgerð - þannig að þegar Sigurður kemur næst ætti hann að vera í lagi :-)
Já og svo fór ég og sótti vörur til heildsala, fór með bókhaldsmöppurnar fyrir Val til endurskoðanda þegar ég var búin að leggja síðustu hönd á þær ... og gerði örugglega eitthvað fleira.. já sótti hilluna niður á Flytjanda.
Þar fyrir utan var ég í vinnunni í dag og það var bara alveg brjálað að gera. Sem betur fer vorum við með eina stelpu "í þjálfun" og það munaði um að hafa hana á kassanum.
Þannig að þetta er búinn að vera býsna annasamur dagur og það var mjög gott að leggjast á sófann eftir matinn og láta líða úr sér. Í raun ætti ég að vera í fríi á morgun en það á ennþá eftir að taka upp vörur og verðmerkja svo ég þyrfti að fara í fyrramálið og klára það. Eins þurfum við Sunna heldur betur að hittast um helgina til að panta vörur, þar sem heildsalarnir eru enn að fá nýjar vörur og það þarf að ákveða hvað á að taka af þeim + fylla á það sem okkur vantar.
laugardagur, 5. desember 2009
Er í nostalgíu kasti...
Bara svona til gamans...
Annars er ég á svo miklum yfirsnúningi þessa dagana að það hálfa væri nóg. Byrjaði líklega af því það er svo mikið að gera í vinnuni - og svo er bara hausinn á mér stanslaust á fullu og restin af mér sömuleiðis. Ég næ ekki að slappa af þegar ég er komin upp í rúm á kvöldin og iða bókstaflega í skinninu að vera að gera eitthvað annað en liggja í rúminu. Samt er ég drulluþreytt (afsakið orðbragðið). Svo var ég vöknuð klukkan sjö í morgun, en það var þó skárra en að vera vöknuð klukkan sex eins og Valur. Það var reyndar ágætt að vera vöknuð snemma því ég þurfti að fara að sækja Ísak í skólann. Árgangurinn hans fékk að gista þar í nótt, sem umbun fyrir góða hegðun. Ætli "gista" sé þó ekki orðum aukið því ég efast um að það hafi verið mikið sofið.
En nú ætla ég að klára að taka mig til og fara svo í jólagjafaleiðangur í Potta og prik... já og einhverjar aðrar verslanir ;-)
fimmtudagur, 3. desember 2009
Alltof margir valkostir svona snemma á morgnana
miðvikudagur, 2. desember 2009
Alveg eins og smákrakki að byrja í skólanum
þriðjudagur, 1. desember 2009
Afmælisdagur ömmu
Þegar amma var ung,
var hún alls ekki þung,
hún var alveg sem laufblað í vindi.
Og hún hreyfði sig létt,
hún var lipur og nett,
hún var lífsglöð með kvenlegu yndi.
Þá kom fullorðinstíð,
háð við storma var stríð,
yfir steina hún rann til að smala.
Stóð við orfið að slá,
hrífu óspart tók á,
og sín afkvæmi varð hún að ala.
Oft í búi var þröng,
yrðu börnin of svöng,
hversu biturt það sveið móðurhjarta.
Engin skerandi neyð,
hennar skyggði þó leið,
og hún skammtaði án þess að kvarta.
Tugmörg ævinnar ár,
gerðu ósléttar brár,
hárið silfrað og kreppt er nú höndin.
Þó er bókhneigðin söm,
enn er bréfaskrift töm
fingrum bogum, því ókreppt er öndin.
Guði þakkirnar ber
fyrir allt, sem þú er
bæði okkur og vinunum dyggu.
Er þú flutt verður heim
Guðs í himneskan geim,
munu hlotnast þér laun hinna tryggu.
Til að sjá meira um ömmu má t.d. lesa síðasta bloggpistil hennar mömmu, Þóru Pálsdóttur.
mánudagur, 30. nóvember 2009
Nú "outsoursa" ég bara alveg á fullu
Svo þvoði Valur stofugluggana og setti jólaljósakransa þar (já ég veit, ég er búin að segja það áður) og líklega mun ég reyna að fá einhvern annan en mig til að þvo eldhúsinnréttinguna. Nú, svo mætti þjálfa Ísak upp í að baka smákökur...
Annars er ég að fara í bókhaldið í þessum skrifuðu orðum - en það er alveg makalaust hvað er erfitt að koma sér að því verki. Ekki vegna þess að það sé svo leiðinlegt, þetta er bara verk sem þarf að vinna, svona eins og þurrka af ryk eða eitthvað þvíumlíkt. En engu að síður er alveg ótrúlega erfitt að koma sér í gang. Og ég fer iðulega að gera eitthvað allt annað en akkúrat það.. Svona eins og laga til, nú eða blogga ;-) En nú er ég hætt að blogga og farin að vinna.
Bara eitt enn.. ég þvoði eldhúsgluggana í kvöld og setti upp jólagardínur og aðventuljós - þetta get ég!
sunnudagur, 29. nóvember 2009
Tók þessa mynd í fyrradag
Það sá ekki til sólar hér í bænum, allt grátt og yfirskýjað, en eitthvað var það sem lýsti svona skemmtilega á fjallstindana þarna hinum megin. Tekið á klöppinni fyrir aftan húsið þeirra Sunnu og Kidda.
laugardagur, 28. nóvember 2009
Dösuð eftir daginn - en það er nú ekkert nýtt ;)
Svo er alltaf áætlunin hjá mér að vera voða dugleg og klára jólagjafainnkaupin snemma. Það hefur aldrei gengið eftir og því er ólíklegt að það gangi í ár. En Valur þvoði gluggana í stofunni í dag og setti upp jólaljósakransa, þannig að eitthvað er byrjað á heimavelli. Það er nú ekki margt sem er á dagskránni í jólaundirbúningi. Ég vildi helst ná því að þvo eldhúsinnréttinguna að utan og baka nokkrar smákökusortir. Þá held ég að það sé upptalið, svona fyrir utan jólagjafakaup og matarkaup. Jú, ætli jólakort verði ekki líka send. Og Valur gerir jólaísinn og skreytir jólatréð, og eldar matinn og bakar líklega, þannig að það er ekki margt sem fellur í minn hlut. Aðallega almenn tiltekt hugsa ég og svo set ég reyndar upp jólagardínur + aðventuljós í eldhúsið. Það er sem sagt markmiðið að gera sem minnst og helst stressa mig sem minnst því nóg stress verður í vinnunni. Okkur vantar t.d. ennþá starfsmann/menn í staðinn fyrir Andra og svo er auðvitað opið til tíu á kvöldin síðustu vikuna fyrir jól...
Annars er bara "allt í gúddí" eins og sagt var einu sinni.
sunnudagur, 22. nóvember 2009
Óskalisti dagsins
- Laga til í eldhúsinu og finna nýjan stað fyrir ýmsa hluti sem áttu áður heimili í skápnum fyrir ofan ísskápinn. Sá skápur, ja og ísskápurinn reyndar líka, er farinn vegna þess að nýr og hærri ísskápur er kominn á heimilið.
- Taka bækurnar mínar úr bókahillu í vinnuherberginu hans Vals, en þar hafa þær verið síðan þetta var vinnuherbergið mitt/okkar fyrir mörgum árum síðan.
- Setja rennilás í peysuna... úbs! ekki búin að því ennþá.
- Setja gamlar kiljur sem mig langar ekki að eiga lengur í kassa. Síðan ætla ég að gefa þær í Hertex eða Fjölsmiðjuna.
- Fara í gegnum stóran kassa með ungbarnafötum, sortera og gefa megnið af þeim.
- Klára að prjóna gormatrefilinn með öllum sínum 1600 lykkjum í umferð, áður en ég verð brjáluð.
- Fá brilliant hugmyndir að jólagjöfum. Allar ábendingar eru vel þegnar!
- Byrja á einhverju nýju prjónaverkefni.
- Hringja í tengdaforeldrana og mömmu.
Þetta var sem sagt óskalistinn. Nú er það listinn yfir hluti sem þarf að gera, ekki allt í dag samt:
- Færa bókhald. Það styttist í virðisaukauppgjör þann 5. des. og ég er ekki byrjuð á bókhaldinu fyrir þessa tvo mánuði sem eru til uppgjörs.
- Kaupa gjöf handa litla krílinu þeirra Hrundar og Sævars sem fæddist á afmælisdaginn minn.
- Bera olíu á stofuborðin og skenkinn og leðuráburð á borðstofustólana.
- Þvo eldhúsinnréttinguna að utan.
- Þvo gluggana að innan, svo hægt sé að setja jólaljósahringina í þá og það sjáist í ljósin fyrir skít...
- Fara með kettina í sprautu.
- Gera við sundbolinn minn.
- Þvo gólfmottuna í búrinu.
- Laga betur til í geymslunni niðri og helst henda ennþá meira dóti.
- Vera duglegri að hitta vinkonur mínar.
- Bjóða fólki í mat.
- Byrja að baka fyrir jólin.
Svei mér þá, ég held bara að mér detti ekki fleira í hug í bili. Að minnsta kosti ekki tengt mér sjálfri og heimilinu. En þar sem jólaannríkið er byrjað í vinnunni er alveg ljóst að margt af þessu mun bíða þar til eftir jól...
laugardagur, 21. nóvember 2009
Úff, púff og æ, æ...
En hvað sem öllum þessum verkjum líður (og já, þeir munu dofna með tímanum), þá er ég ánægð að vera byrjuð að æfa aftur eftir einhverra ára hlé. Mér finnst ég nefnilega svo dásamlega "normal" þegar ég er í æfingasalnum með öllu hinu "normal" fólkinu. Eini gallinn er sá að allt þetta normal fólk er svo ótrúlega alvarlegt á svipinn eitthvað þegar það er að æfa. Ég skil það ekki alveg. Er þetta svona leiðinlegt, eða bara svona háalvarlegt mál?
Svo ég tali nú um eitthvað annað, þá er jólaverslunin loksins komin af stað fyrir alvöru. Þannig að nú byrjar fjörið og stendur fram til 24. desember. Sem er gott, því það er gaman í vinnunni þegar það er mikið að gera. Maður á samskipti við marga og tíminn líður hratt. En það er líka erfitt því það fer mikill tími í að panta vörur og maður nær ekki alltaf að taka þær upp eins hratt og maður hefði viljað, því það þarf jú að afgreiða viðskiptavinina líka ;) Já og það er líka erfitt því okkur vantar fleira afgreiðslufólk fyrir jólin þar sem hann Andri tók upp á því að ætla til Flórída um jólin með kærustunni og hennar fjölskyldu. Og það er alltaf pínu mál að þjálfa nýtt fólk og það tekur tíma fyrir nýja starfsmenn að komast inn í þetta allt. Sveinn sem vann hjá okkur er farinn til Ástralíu og Nanna er flutt til Danmerkur. Hehe, þetta hljómar aldeilis vel, eða hitt þá heldur. Fyrrverandi starfsfólk Potta og prika flýr land... Gæti verið fyrirsögn í slúðurblaði...
Æ, jæja, þetta mun allt reddast, og kosturinn við að hafa færra starfsfólk er jú að þá fær maður sjálfur að vera meira á staðnum og skemmta sér í jólaösinni ;) Nú þarf bara að drífa sig í jólagjafainnkaup og svoleiðis. Það er alltaf meiningin að vera snemma í því - en gengur aldrei. Nema árið í ár verði undantekningin frá reglunni.
miðvikudagur, 18. nóvember 2009
Vá, hvað ég er löt að blogga þessa dagana
Svo er ég líka að prjóna einhvern trefil sem kallast gormatrefill. Maður byrjar með 200 lykkjur og prjónar garðaprjón í 4 umferðir, eykur þá út í hverri lykkju og prjónar aðrar 4 og eykur svo aftur út í hverri lykkju og endar sem sagt í 1600 lykkjum. Það er varla pláss fyrir allar þessar lykkjur á hringprjóninum og pínu leiðinlegt að þurfa að prjóna svona voðalega margar lykkjur til að klára eina umferð. Svo er garnið mjög fíngert og átti að prjóna á prjóna nr. 2,5 en ég nennti því nú engan veginn og er með prjóna nr. 3,5. O jæja, þetta klárast einhvern tímann.
Hið sama vona ég að gerist með lopapeysuna sem er reyndar fullprjónuð en á eftir að setja í rennilás. Þannig hefur ástandið verið í a.m.k. 2-3 vikur núna (vonandi ekki 3-4...). Svo er auðvitað önnur hver kona í bænum komin í svona peysu enda var hún í prjónablaði Ístex og því mjög aðgengileg uppskrift. En það er hollt og gott að hafa smá handavinnu í gangi, manni líður vel af því.
Svo tek ég nú auðvitað alltaf myndir og hef gaman af því líka. Þannig að eitthvað geri ég nú. Og nú tek ég eftir því að ég er að ofnota orðið "nú" eins og mér sé borgað fyrir það! En ég held að ég hafi svo sem ekkert fleira í fréttum, ef fréttir skyldi kalla. See you later alligator!
sunnudagur, 15. nóvember 2009
Sunnudagsleti
Enda varla annað hægt í þessu leiðindaveðri sem er úti núna. Slydda og slabb með rigningu í bland. Annars held ég reyndar að hann hangi þurr akkúrat þessa stundina.
Að öðru leyti er fátt í fréttum. Ég átti jú reyndar afmæli í vikunni eins og flestir ef ekki allir lesendur þessarar síðu vita. Nennti samt ekki að baka eða bjóða uppá veitingar í tilefni dagsins en við fórum út að borða á Greifann um kvöldið. Þar prófaði ég saltfiskpítsu sem bragðaðist vonum framar. Það var nú svolítið gaman að því að Hrund bróðurdóttir Vals eignaðist son á afmælisdaginn minn. Bróðir Hrundar, hann Óli Valur, er fæddur 2. ágúst eins og Valur, svo þetta er aldeilis afmælisdagasamkrull.
Svo átti Hrefna auðvitað afmæli daginn á eftir mér, en sökum fjarlægðar var víst ekkert afmæliskaffi hjá henni þetta árið... Hún eyddi nú reyndar afmælisdeginum í að bíða eftir að fara í skurðaðgerð á litla putta en þar sem sú aðgerð er ekki mjög brýn miðað við margar aðrar þá hefur henni verið frestað aftur og aftur.
Ég hef verið í fríi þessa helgina og hafði ætlað að gera margt og mikið - en hef ekki gert neitt nema hvíla mig. Í dag ætlaði ég að fara í gegnum gömul ungbarnaföt og gefa í Rauða krossinn, en ég get nú ekki séð að ég muni framkvæma það. Ekki í dag a.m.k. Skil samt ekki alveg hvað ég hef verið að geyma mikið af þessu dóti. Það eru bráðum 15 ár síðan Ísak fæddist og ungbarnatískan breytist ört eins og önnur tíska, þannig að fyrir utan fáein plögg sem hafa extra mikið tilfinningalegt gildi, þá er engin ástæða til að vera að halda uppá þetta.
Og nú þegar ég er pakksödd eftir vöfflur sem Valur bakaði áðan, langar mig mest að halla mér aðeins ;)
þriðjudagur, 10. nóvember 2009
Fallegur dagur
Já, svona var fallegt um að litast á Gáseyri á sunnudaginn var. Við Valur fórum út að taka myndir því ég var gjörsamlega að andast úr andleysi og þurfti nauðsynlega að fá mér súrefni. Hann hafði reyndar farið fyrr um morguninn út, meðan ég svaf enn þyrnirósarsvefni - en sem sagt fór með mig aftur seinna um daginn til að viðra mig. Það var reyndar fullt af fólki þarna á þessum tíma. Kafarar, kajak-ræðarar, hundaeigendur og hundar (sem reyndar teljast ekki til fólks strangt til tekið). Hundarnir voru alveg rosalega æstir og hlupu á ógnarhraða fram og aftur í eltingaleik. Sem betur fer er hvorugt okkar Vals með hundafóbíu en okkur varð hugsað til manneskju sem við þekkjum sem þjáist af þeim sjúkdómi á alvarlegu stigi. Henni hefði ekki verið vært þarna þennan dag.
Annars er lítið í fréttum. Ég er upp og niður og aðallega niður af gigtinni. Aðrir eru nokkuð hressir. Kettirnir eru alla vega mjög hressir og ef eitthvað er, að verða enn hændari að mér en nokkru sinni fyrr. Máni eltir mig á röndum hvert sem ég fer og Birta mænir á mig eins og húsbóndahollur hundur.
Varðandi þessa mynd, þá var hún ennþá skýrari, en ég var að vinna hana eitthvað í tölvu og klúðraði því greinilega. Að minnsta kosti er hún ekki eins alveg eins og hún átti að vera.
laugardagur, 31. október 2009
Rólegheit á laugardegi
Æ, ég hef eiginlega ekkert að segja núna, held að ég bloggi frekar bara seinna :-)
þriðjudagur, 20. október 2009
Tiltektaræðið hefur hlaupið með frúna í gönur
Núna áðan komu svo tveir krakkar frá Fjölsmiðjunni og sóttu gamalt tölvuborð og fatahengi í forstofu. Fjölsmiðjan er með vinnusetur fyrir unga krakka sem ekki hafa fundið sig í skóla eða vinnu annars staðar (ef ég skil þetta rétt). Þar er líka nytjamarkaður og alveg frábært að geta gefið hluti sem annars taka bara pláss í geymslunni eða enda á haugunum. Svo bíður fullur svartur plastpoki af dóti sem ég ætla með í Hertex, þannig að ég er ekki alveg hætt ennþá. Já og svo fann ég brennisteinssýru (eða eitthvað álíka eitur) í geymslunni í kjallaranum og þarf að fara með það í Endurvinnsluna. Nú, svo mér leiðist örugglega ekki á næstunni þá þarf líka að fara með kettina í sprautu, fara með bílinn í þjónustuskoðun og flíspeysuna hans Andra í viðgerð. Sem sagt nóg að gera!
sunnudagur, 18. október 2009
Dugnaðardagur í dag
miðvikudagur, 14. október 2009
Ekki-þreytublogg :-)
Þegar hér var komið sögu var kominn tími til að fara á foreldrafund í skólanum. Ég bauð mig nefnilega fram sem bekkjarfulltrúa í haust og við ákváðum að hóa foreldrunum saman til að ræða ýmis málefni tengd unglingunum okkar, s.s. útivistartíma, tölvutíma, hjálmanotkun ofl. Ég veit nú ekki alveg hve margir foreldrar mættu, kannski 25 fulltrúar þeirra 50 barna sem í árganginum eru, en ætli það megi ekki bara teljast nokkuð gott. Það nennir enginn að mæta á svona fundi, fólk mætir það ekki af því það búist við að verði svo gaman, heldur af skyldurækni. Stundum hef ég slaufað svona fundum af því ég hef hreinlega ekki nennt að mæta, en það er nú reyndar afar sjaldan.
Jamm og jæja, þegar við ætluðum heim aftur kom í ljós að ekki var hægt að skella skólanum í lás og við þurftum að ræsa út húsvörðinn til að læsa. Hann hló nú þegar hann sá mig þarna og var alveg viss um að þetta væri allt saman mér að kenna. Alltaf jafn stríðinn! Markús húsvörður, kallaður Krúsi hér á árum áður, var nefnilega sundlaugarvörður hérna í den þegar ég var að æfa sund, þannig að við höfum þekkst lengi.
Nú svo fór ég heim og fékk ljómandi góðan fisk að borða hjá eiginmanninum. Hið sama fékk Ísak, en Andri er að vinna hjá Gallup í kvöld og slapp við fiskinn (ekki hans uppáhaldsmatur). Að baki er svo frágangur í eldhúsinu og framundan er prjónaskapur :-)
Meiriháttar svefnsýki hrjáir frúna þessa dagana
Vaknaði í morgun rúmlega sjö eins og lög gera ráð fyrir og vakti Ísak um hálf átta. Var samt svo þreytt eitthvað og syfjuð að ég nennti ekki í sund - og lagði mig aftur þegar Ísak var farinn í skólann. Já og svaf til hálf tólf!! Geri aðrir betur. Nú er klukkan hálf þrjú og sól og blíða úti en ég er svooo þreytt eitthvað og langar mest uppí rúm. Þetta gengur náttúrulega ekki. Eftir tvo tíma er foreldrafundur í Lundarskóla og ég verð nú að minnsta kosti að reyna að halda mér vakandi þangað til...
P.S. Hrefna mín, ég biðst innilega afsökunar á þessu þreytubloggi ;-)
mánudagur, 12. október 2009
Prjónablogg
laugardagur, 10. október 2009
Jæja þá er víst útséð með að Rósa komi á skátafund
því ekkert flugveður hefur verið sökum veðurs og þó hún kæmist norður um miðjan dag þá tekur það því hreinlega ekki að koma fyrir svo stuttan tíma. Mér finnst mjög leiðinlegt að hún kemst ekki. En þar sem búið var að skipuleggja þetta allt saman þá mun víst áætlun okkar hinna standa. Ég var nú reyndar svo sniðug að stinga uppá að við tækjum kvöldið snemma og hittumst kl. 17.30 - en tók svo að mér að vinna í dag þar sem ein þurfti að fá frí. Það þýðir að ég verð að vinna til kl. 17... tja, nema Andri væri til í að koma síðasta hálftímann fyrir mig. Það var nú kona í sundinu að hrósa honum þvílíkt í gærmorgun. Sagði að hann væri svo einstaklega kurteis og almennilegur. Það er bara algjörlega dottið úr mér hvaða kona þetta var - en ég var samt hissa á að hún vissi að Andri væri sonur minn svo ekki þekki ég hana sérlega vel.
Ég hélt nú áfram að prjóna peysuna þrátt fyrir þessi mistök sem ég hafði gert en ánægjan er einhvern veginn ekki sú sama. Svo bætist við að munsturliturinn átti að vera fölgrár en hann var ekki til svo ég keypti bara hvítt - og nú er ég sem sagt farin að velta því fyrir mér hvort hún hefði kannski verið fallegri með gráa litnum... Já, það er ekki tekið út með sældinni að prjóna! Á það ekki annars að vera svo róandi?
Veðrið úti er ekki beint spennandi, rok og rigningarsuddi, grár himinn. Snjórinn er nánast farinn hér í bænum en ennþá allt grátt í hlíðinni fyrir neðan Fálkafell. Lengra upp sést ekki. Máni hefur ekki einu sinni gert tilraun til að fara út í dag og það segir nú ýmislegt.
Ísak svaf hjá vini sínum í nótt og Andri hjá vinkonu sinni, Valur er í vinnunni og við kettirnir ein hér heima í bili. Ætli Valur fari ekki bráðum að skila sér heim og þá fáum við okkur morgunkaffi saman og kíkjum í blöðin.
Myndin hér að ofan er tekin í sumar þegar við Valur og Ísak fórum með Önnu og Sigurði í smá ferðalag. Þetta er einhver eyja á Skjálfanda og eins og sést voru birtuskilyrðin mjög sérstök þetta kvöld.
föstudagur, 9. október 2009
Kapp er best með forsjá
Ég er að vinna seinnipart í dag og hef sem sagt setið með prjónana í morgun og hlustað á rás 1 í Ríkisútvarpinu. Greinilegt ellimerki:) En núna er ég bara orðin svo syfjuð en hef eiginlega ekki tíma til að leggja mig fyrir vinnu því ég á eftir að erindast aðeins fyrir vinnuna og svo borða og taka mig til.
Á morgun er ég líka að vinna en um kvöldið ætlum við að hittast gamlar skátasystur og rifja upp góðar minningar. Það er bara verst að ein okkar er að vinna og önnur er í Reykjavík og því miður lítur ekki út fyrir gott flugveður í kvöld.
sunnudagur, 4. október 2009
Vetur konungur
Síðustu árin hef ég alltaf tekið mynd af fyrsta snjónum - og alltaf frá þessu sama sjónarhorni. Í þetta skiptið var ég reyndar stödd í Noregi þegar fyrsti snjórinn féll, svo að ég smellti bara af mynd í morgun í staðinn. Myndefnið er raunar aðeins breytt þetta árið því þessi kofi var reistur á lóð nágrannans í sumar. Það sést ekki á myndinni en veggirnir eru skreyttir með hlöðnu torfi og einnig er torf á þakinu.
Þá erum við Ísak komin heim í snjóinn,
Ég var að maula eitthvað óhollt meira og minna alla leiðina til að halda mér betur vakandi og hafði líka keypt mér orkudrykk (sem ég geri annars aldrei) til að hafa til öryggis ef mér fyndist ég vera að verða skuggalega syfjuð og þreytt. Það var nú í og með vegna þess að ég hef verið að fara frekar snemma að sofa á norskum tíma og hélt að það myndi kannski segja til sín. Það stemmdi nú reyndar, þegar ég var að fara að leggja í Vatnsskarðið var klukkan um ellefu að norskum tíma og þá fór ég að verða pínu syfjuð. Svo ég skellti orkudrykknum í mig og hristi af mér syfjuna í einum grænum.
Annars höfðum við Ísak það ósköp gott hjá Önnu og Kjell-Einari. Ég hafði keypt mér garn í peysu áður en við fórum út og hefði sjálfsagt náð að klára peysuna ef ekki hefði mig vantað einn lit sem ekki var til þegar ég keypti garnið. En ég er a.m.k. búin með bol og ermar, þannig að ég ætti nú að geta klárað restina á tiltölulega skömmum tíma - ef ég gef mér tíma til þess.
mánudagur, 28. september 2009
Blogg frá Noregi
Við ókum sem sagt suður og sem betur fer var ekki farið að snjóa þá því mér fannst nú alveg nógu erfitt að keyra í þessu brjálaða slagviðri sem var. Alveg hreint úrhellisrigning á köflum og hávaðarok. Vona að það verði gott veður á laugardaginn þegar við komum heim!
Síðan,eftir að hafa gætt okkur á kakói og rjómatertu, gistum við hjá mömmu og Ásgrími í Innri-Njarðvík en daginn eftir flugum við til Noregs. Anna og Sigurður sóttu okkur á flugvöllinn og það var bara rjómablíða í Osló.
Seinna um daginn fórum við Anna í göngutúr út í skóg og umhverfis vatn. Þetta var bara nokkuð langur göngutúr á minn mælikvarða, eða um klukkutími, og mjög hressandi. Svo eldaði Anna þessa dýrindis fiskisúpu um kvöldið.
Við Ísak erum ennþá föst í íslenska tímanum og í gærmorgun fór ég á fætur kl. 10 að norskum tíma og fannst ég nú bara nokkuð dugleg, hehe. Um hádegisbilið fór Kjell-Einar í langan hjólatúr en við Anna og strákarnir ókum til Askim. Þar er stór (ísköld!) sundlaug með tveimur rennibrautum og einni öldulaug. Svo er ein upphituð smábarna/þjálfunarlaug og tveir litlir heitir pottar. Við Anna komum okkur vel fyrir í öðrum heita pottinum en fannst við nú ekki hafa setið þar neitt rosalega lengi þegar strákarnir komu og vildu fara uppúr. Já, það er greinilegt að sumir eru að stækka!
Þegar við vorum komin heim aftur byrjaði ég að prjóna peysu en svo tókst mér nú að steinsofna sitjandi í sófanum, hehe.
Í dag eru Anna og Kjell-Einar í vinnunni og ég er bara búin að taka því mjög rólega. Morgunmatur, sturta, prjónaskapur og tölva hafa verið á dagskrá það sem af er. Núna er ég að reyna að fá strákana til að rölta með mér í búðina en það er ekki að hljóta mikinn hljómgrunn. Þeir eru samt búnir að fá leið á að vera í tölvu í bili og ráfa eirðarlausir um húsið og vita ekki hvað þeir eiga að taka sér fyrir hendur.
Ætli ég reyni ekki að koma mér út í smá göngutúr til að liðka mig :-)
þriðjudagur, 22. september 2009
Sauðfé í sólinni
Hér kemur mynd úr ferðinni okkar á Melrakkasléttu. Ég reyndi að spjalla aðeins við kindurnar til að fá þær til að sitja fyrir á mynd, en það gekk ekki sérlega vel. Þær voru nú samt pínu forvitnar, en ekki nægilega.
Nú nokkrum dögum fyrir Noregsferð er Ísak búinn að vera veikur í þrjá daga. Mjög skemmtilegt eða þannig, því þá verða þetta nærri tvær vikur sem hann missir úr skóla en ekki bara ein. En við því er víst ekkert að gera. Hann er það sterkur námsmaður að honum ætti ekki að verða skotaskuld úr því að vinna þetta upp.
Það er frekar rólegt í vinnunni þessa dagana eins og hefðbundið er í septembermánuði. Samt er ég hálf lúin eftir vinnuna í dag en það helgast nú af því að ég datt í eitthvað tiltektaræði þegar ég var að leita að ákveðnum hlut. Fann reyndar hlutinn fyrir rest svo það var nú aldeilis ánægjulegt.
Ætli sé ekki best að setja í eins og eina þvottavél núna, þarf að hafa þessar fáu spjarir sem Ísak á hreinar fyrir ferðina.
sunnudagur, 20. september 2009
Við Valur gerðum góða ferð á Melrakkasléttu í gær
Veðrið hér á Akureyri var afskaplega fallegt þegar við lögðum af stað um ellefuleytið, blankalogn og sólin hafði nýlega brotist fram úr skýjahulunni sem hafði skyggt á hana fyrr um morguninn. Þegar austar dró versnaði hins vegar veðrið, þ.e.a.s. engin var sólin og það var mikill grámi yfir öllu og rigndi á stöku stað. En áfram héldum við, vongóð um að veðrið myndi batna er liði á daginn, eins og það átti að gera skv. veðurspá. Á Húsavík keypti ég heitt kakó og við stoppuðum á útsýnisstað utan við bæinn og fengum okkur kakó og brauð. Og áfram var ekið austur á bóginn. Ég hafði á orði að ólíkt fallegra hefði nú verið að keyra um þessar sömu slóðir fyrr í sumar þegar við fórum í Öxarfjörðinn ásamt Önnu, Sigurði og Ísaki, því veðrið hefur svo mikil áhrif á það hvernig maður uppplifir staði.
Smám saman fór þó aðeins að létta til og þegar við vorum komin á Kópasker var ögn bjartara en þó ekki sól. Við tókum einn rúnt í plássinu en þar var nánast enginn á ferli. Það breyttist reyndar þegar komið var norðar á sléttuna því í nágrenni við Sigurðarstaði var verið að smala kindum og fylltu þær veginn á smá kafla. Ekki var þó margt fólk sem sá um smölunina, það verður að segjast eins og er. Við stoppuðum aðeins og smelltum af nokkrum myndum niðri við sjóinn en héldum svo áfram í gegnum kindahrúguna og ókum sem leið lá niður að eyðibýlinu Skinnalóni.
Viti menn, þá kom loks sólin sem við höfðum beðið eftir, og gerði ljósmyndatökuna enn skemmtilegri. Við stoppuðum lengi við Skinnalón og tókum bæði helling af myndum og skoðuðum eyðibýlin tvö, þó ekki færum við inn í þau. Svo borðuðum við nesti í skjóli við stóran rekaviðarstafla því það var nú ansi kalt. Sólin kom og fór og það var mun hlýrra þegar hún skein, en það var líka vindur og hann kældi mann vel niður. Eftir aðeins meiri myndatökur fórum við aftur í bílinn og ókum aðeins lengra, að afleggjara út að Hraunhafnartangavita.
Ekki var bílfært lengra svo við gengum út að vitanum, mest á afar grýttum "vegi" en þó var sums staðar hægt að ganga á grasi við hliðina. Valur fór upp að haugi þar sem einhver maður (nafnið á honum er dottið úr mér í augnablikinu, spyr Val á eftir) var veginn fyrr á öldum eftir að hafa sjálfur áður vegið þar 14 menn. Ég var þreytt og nennti ekki að ganga meira í bili enda fórum við bæði að haugnum síðast þegar við vorum þarna. Það var samt afskaplega hressandi að ganga þarna við sjóinn. Þarna var enginn nema fuglinn fljúgandi (aðallega skarfar), nokkrar rollur og við. Vitinn og umhverfið var myndað í bak og fyrir og við klifruðum yfir stórgrýtisgarð til að sjá út á sjóinn á næstum því nyrsta tanga landsins. Rifstangi stendur víst örlítið norðar.
Þegar hér var komið sögu var klukkan farin að halla í sex, sólin farin að lækka verulega á lofti, ég var orðin ansi lúin og við bæði að verða nokkuð svöng. Við hröðuðum okkur því aftur í bílinn og lögðum af stað heim á leið. Ekki var mikið stoppað á leiðinni, nema hvað við ákváðum að fá okkur að borða á Húsavík, sem við og gerðum. Fórum á veitingahúsið Sölku þar sem við keyptum okkur steinbít sem bragðaðist mjög vel. Heim vorum við komin um hálf tíu leytið eftir velheppnaða ferð. Lýkur hér með þessari ferðasögu sem einhverra hluta vegna rataði á bloggið mitt :)
fimmtudagur, 17. september 2009
Leifar af sumri
Já það er ennþá sumar hér í höfuðstað Norðurlands. Að minnsta kosti ef farið er í Lystigarðinn - já og eins ef litið er á hitamælinn í dag.
mánudagur, 14. september 2009
Blogg fyrir mig :-)
Það styttist í ferð okkar Ísaks til Noregs. Við ætlum að skella okkur í heimsókn til Önnu og co. og það sem meira er, Hrefna ætlar að koma frá Köben og hitta okkur. Ég á reyndar eftir að græja flugið til Reykjavíkur og tilbaka og þarf að drífa í því sem allra fyrst.
Annað fréttnæmt er það að Andri lagaði til í herberginu sínu í gær, að eigin frumkvæði, og gladdi það okkur gömlu hjónin afskaplega mikið. Svo er skólinn að byrja hjá honum og hann fór með fullan kassa af bókum á skiptibókamarkaðinn. Verst að það er svo mikið af bókum í umferð að þau ná ekki öll að losna við gamlar bækur á þennan hátt. En sniðugt er það samt.
Og nú er ég hætt þessu masi.
mánudagur, 7. september 2009
Blogg fyrir mömmu :)
Að öðru leyti gengur lífið bara sinn vanagang. Það varð tómt í kotinu þegar Hrefna var farin aftur til Köben og Andri var farinn í útskriftarferðina til Kanarí, en nú kemur hann heim í kvöld þannig að þá lifnar aðeins yfir húsinu aftur. Hann var nú smá klaufi og gleymdi að bera á sig sóláburð fyrsta daginn og brann á öxlunum, því miður. Vonandi er hann búinn að jafna sig. Svo styttist sjálfsagt í að skólinn byrji hjá honum og er það þá síðasta árið hans í Menntaskóla. Það sem tíminn flýgur áfram. Kannski eins gott að maður fari að gera eitthvað meira við tímann sinn úr því hann líður svona hratt... Verst bara hvað gigtin setur alltaf mikið strik í reikninginn hjá mér. Það er að segja, ég hef svo lítið úthald til að gera hluti því ég er alltaf svo þreytt og illa fyrir kölluð. En þannig er það bara.
Við Valur skruppum í smá ljósmyndaferð í gær. Hann fór reyndar líka á laugardaginn (einn) í Flateyjardal og tók svaka skemmtilegar myndir þar en þá var ég að vinna. Í gær fórum við í Bárðardal og vorum að taka myndir af Skjálfandafljóti. Það er viss áskorun að taka myndir sem sýna vatn á hreyfingu, þannig að vel sé, og mér gengur það ekki of vel. En þá er bara málið að æfa sig!
Á föstudaginn verður fyrsti klúbbur vetrarins og er víst röðin komin að mér að halda klúbb. Þá byrjar líka fjörið að finna veitingar handa skvísunum. Í síðustu tvö skipti hef ég verið svo leiðinleg að vera eingöngu með eitthvað hollustufæði en ætli ég hafi ekki einhverja óhollustu með í þetta skiptið.
Og nú held ég að ég segi þetta bara gott í bili :)
miðvikudagur, 26. ágúst 2009
Meira blogg um ekki neitt
Ég hangi fyrir framan tölvuna á meðan Valur hleypur út og inn. Hann var að grilla hamborgara handa Hrefnu og vinkonum hennar sem hún var að bjóða heim. Úr stofunni berast hlátrasköll og skvaldur og greinilegt að engum leiðist þar. Ísak lætur fara lítið fyrir sér í næsta herbergi og Andri lætur fara enn minna fyrir sér niðri í sjónvarpsherbergi. Til þess að bæta smá spennu í þessa frásögn ber þess helst að geta að vaskurinn í eldhúsinu er stíflaður eina ferðina enn, þannig að ekki er hægt að vaska upp, hvorki í uppþvottavélinni né uppá gamla mátann.
Við Valur fórum með Ísak í foreldraviðtal í skólanum í morgun og svo byrjar skólinn af fullum krafti í fyrramálið. Sem þýðir að frúin þarf að vakna klukkan sjö (hm eða hálf átta) í fyrsta skipti í marga daga. Úff, púff.
sunnudagur, 23. ágúst 2009
Það er líklega ekki mjög gáfulegt
Í gær var ég hálf slöpp og drusluleg eitthvað og hélt að ég væri komin með svona heiftarlegt vefjagigtarkast. Í nótt vaknaði ég með þvílíku beinverkina og höfuðverkinn að ég hélt að ég væri komin með flensu. Í dag hef ég bara verið slöpp. Undarlegt fyrirbæri svo ekki sé meira sagt. En fegin er ég ef þetta er hvorki gigtin né flensan! Verð vonandi orðin sprækari á morgun.
Í vikunni byrjar Ísak aftur í skólanum og á föstudaginn fer Andri í útskriftarferð með MA. Þann 31. flýgur svo Hrefna aftur til Köben. Það er hætt við því að það verði heldur tómlegt í kofanum þegar það verður. Það hefur verið svo mikið fjör hjá okkur í sumar með gesti og ekkert nema gott um það að segja.
föstudagur, 21. ágúst 2009
Skýjum ofar
Ég tók þessa mynd þegar við Valur vorum stödd á Þingeyri fyrr í sumar. Þokan læddist inn Dýrafjörðinn en við ókum uppá Sandafell (ca 370 mtr) þar sem við vorum nógu hátt uppi til að horfa ofan á þokuna.
mánudagur, 17. ágúst 2009
Aftur komin í frí - bara lúxus :)
Valur er líka kominn aftur í frí og er sprækur sem lækur :) Í gær gekk hann á Herðubreið án þess að blása úr nös, og spurning hvað hann gerir næst. Reyndar gæti verið að við myndum skreppa suður í einn eða tvo daga en það er allt óákveðið ennþá.
Hrefna er ennþá hér heima og verður fram til loka ágúst. Skólinn hjá henni byrjar í september og þá fer hún í einhverja daga en svo er frí fram í seinni partinn í október. Undarlegt fyrirkomulag svo ekki sé meira sagt. Jólafríið er hins vegar mjög stutt að þessu sinni.
Ísak tók það upp hjá sjálfum sér að fara að synda nánast daglega og fer bara einn og syndir. Lengst hefur hann synt 50 ferðir í einu og það finnst mér nú mjög gott hjá honum. Fótboltaáhuginn er hins vegar verulega á niðurleið og náði lágmarki eftir 5-2 tap gegn Dalvíkingum á laugardaginn var.
Mamma og Ásgrímur eru farin aftur heim til sín, fóru á laugardaginn og óku yfir Kjöl. Það var gaman að fá þau þó þau stoppuðu ekki lengi.
Ég sjálf er eitthvað andlaus þessa dagana. Var orðin yfir mig þreytt eitthvað og það er nú einu sinni þannig með mig að ef það er eitthvað að mér líkamlega þá er það ansi fljótt að smita yfir á andlegu hliðina (smá hönnunargalli...). En eins og ég hef áður sagt, þegar botninum er náð liggur leiðin bara uppá við :)
þriðjudagur, 11. ágúst 2009
Lata Guðný
Titillinn vísar sem sagt til bloggleti minnar, ég get ekki sagt að ég sé mjög löt að öðru leyti þessa dagana. Ég er t.d. að vinna frekar mikið þar sem Sunna er í sumarfríi og Andri í prófalestri - en það fer nú að taka enda sem betur fer - þ.e. Andri fer í próf á morgun og Sunna kemur aftur í vinnu í næstu viku. Valur á eftir tvær vikur í sínu sumarfríi og ég hugsa bara að ég verði í fríi með honum part af tímanum. Um að gera að nýta sem mest starfskrafta Andra áður en hann stingur af til útlanda í útskriftarferð með bekknum sínum.
Áðan var ég að koma úr 100 ára afmæli, hvorki meira né minna. Og það sem meira er, afmælisbarnið er svo ern og hress að það er með ólíkindum. Til dæmis ók hún bíl þar til hún var 96 ára. Þetta var heljarinnar veisla og voru mörg börn, barnabörn og barnabarnabörn, auk annarra gesta. Mamma og Ásgrímur komu norður til að samfagna afmælisbarninu á þessum tímamótum og stoppa væntanlega í einhverja daga. Mér finnst þau vera mjög dugleg að keyra norður, komin á þennan aldur.
Aaaa, geisp, ég vaknaði klukkan fimm í morgun og gat ekki sofnað aftur. Sjálfsagt einhver streita í gangi. Þannig að núna er ég alveg að drepast úr þreytu en ætla alls ekki að leggja mig svona seint því þá sofna ég ekki á réttum tíma í kvöld.
Annars bara gengur lífið sinn vanagang. Það styttist í að skólarnir byrji aftur og manni finnst óttalega lítið eftir af sumrinu þó enn sé þetta fína fína veður úti. Hefur sennilega eitthvað að gera með að daginn er farið að stytta.
Og nú held ég að ég láti þessu bragðdaufa bloggi lokið í bili. Myndin sem fylgir er tekin á Hjalteyri þegar við Anna, Ísak og Sigurður fórum til Dalvíkur og tókum smá krók á heimleiðinni og fórum til Hjalteyrar.
laugardagur, 1. ágúst 2009
Blogg-uppfærsla
- Anna systir og Sigurður systursonur eru búin að vera hjá okkur í ca. 2 vikur núna. Það er búið að vera virkilega notalegt að hafa þau í heimsókn en því miður fara þau á morgun.
- Ég hef verið að vinna megnið af tímanum sem þau hafa verið hér en átti samt frí um síðustu helgi og tók svo auka frídag í vikunni sem leið.
- Um síðustu helgi fórum við (ég, Valur, Anna, Sigurður og Ísak) austur í Öxarfjörð á föstudagseftirmiðdegi. Þar borðuðum við í Lundi og fórum svo í sund á sama stað og svo í smá bíltúr. Sváfum líka í Lundi um nóttina. Á laugardeginum fórum við á okkar fjallabíl að Hafragilsfossi + Dettifossi + Möðrudal þar sem við borðuðum nesti + að Öskju og Víti + í Herðubreiðarlindir þar sem við hituðum hakk og spaghetti á prímus og borðuðum + í jarðböðin og svo heim.
- Á miðvikudaginn fórum við Anna og strákarnir til Dalvíkur. Þar skoðuðum við Byggðasafnið og vakti þáttur Jóhanns risa sérstaka athygli strákanna. Á eftir fórum við í sund þar sem við Anna suðum okkur niður í heita potti laugarinnar en strákarnir ærsluðust eins og þeirra er von og vísa. Svo var það Kaffi Veró með nýbökuðum vöfflum og volgu kaffilatté. Farin lengri leiðin heim, með viðkomu á Hjalteyri og ekin bæði Kræklingahlíðin og Lögmannshlíðin.
- Svo hefur sundlaugin verið óspart notuð þennan tíma en þar kemst ég ekki með tærnar þar sem Anna hefur hælana, því hún hefur synt bæði 80 ferðir (4 kílómetra) og 100 ferðir (? marga kílómetra...) á meðan ég druslast mínar hefðbundnu 30 (eða jafnvel ekki nema 20 einstaka sinnum).
- Vinnan hefur verið skemmtileg eftir sumarfrí, nóg að gera og nóg af viðskiptavinum. Ferðafólkið lætur sjá sig, bæði innlent og erlent og það væri óskandi að þetta væri svona fjörugt árið um kring :-)
- Andri er að vinna í Pottum og prikum í sumar og stendur sig bara vel strákurinn. Hann er svo að fara í útskriftarferð með MA núna í haust.
- Hrefna og Erlingur komu frá Köben en við sáum frekar lítið af þeim framan af þar sem þau gistu heima hjá foreldrum hans. Nú er hann reyndar farinn út aftur en dóttirin komin heim í gestaherbergið í kjallaranum svo við sjáum meira af henni. Hún byrjar ekki nærri strax í skólanum en hann þurfti hins vegar að mæta í vinnu.
- Valur er líka byrjaður að vinna aftur eftir sumarfrí en svo á hann tvær vikur eftir. Spurning í hvað þær verða notaðar. Það stóð nú alltaf til að mála húsið í sumar en ekki er enn fundinn litur svo það veit enginn hvernig það fer. Ætli það endi ekki bara með því að það verður málað aftur í sama lit - eða ekki málað yfir höfuð.
- Ísak er búinn í vinnuskólanum í sumar. Þetta var nú ekki sérlega mikil vinna en þó betra en ekki neitt. Svo hefur hann verið að æfa fótbolta en tognaði á kálfa og gat ekki verið með ansi lengi vegna þess. Og þegar hann er loks búinn að jafna sig þá er fótboltinn í smá fríi - týpískt!
- Máni og Birta hafa bara verið nokkuð ánægð með sumarið. Sérstaklega sólskins-kaflann mikla. En Máni lenti í slagsmálum og fékk þvílíka sýkingu í höfuðið og þurfti að fara í aðgerð til að hreinsa sárið. Svo tók við sýklalyfjagjöf í 10 daga hér heima en hann hefur jafnað sig vel eftir þetta. Meira segja byrjaður að vaxa smá hárdúnn á skallablettinn aftur.
- Valur á afmæli á morgun, meira hvað tíminn líður alltaf hratt. Mér finnst svo stutt síðan ég var að kaupa fimmtugsafmælisgjöf handa honum. En það er víst komið ár síðan...
- Og nú fer ég að hætta þessu og brjóta saman þvott, hengja upp þvott, taka úr uppþvottavélinni, ryksuga og kannski, bara kannski, skúra gólfið. Ætli það verði nú samt ekki frekar gert í fyrramálið :-)
mánudagur, 13. júlí 2009
Þá eru tengdaforeldrarnir búin að vera hjá okkur um helgina
Við fórum samt og skoðuðum Smámunasafn Sverris Hermannssonar í Eyjafjarðarsveit og höfðum öll gaman af. Matti fann símanúmer pabba síns í símaskrá frá árinu 1945 og fannst það ekki leiðinlegt. Í sömu ferð komum við við í Holtsseli og fengum okkur ís "beint úr kúnni" eða svona næstum því. Þetta er virkilega góður ís og ágætt að geta sest þarna niður á fjósloftinu og borðað ís þegar tuttugu stiga hiti er úti.
Í fyrradag hvíldu þau sig að mestu en í gær fórum við svo á Iðnaðarsafnið. Þar var brattur stigi uppá efri hæð og ófært fyrir Gunnu að komast þar upp. Að vísu var hjólastólalyfta en hún var jú ekki í hjólastól og unglingarnir sem voru að vinna þarna kunnu hvorugt á lyftuna. Þau voru reyndar líka uppteknust við að vera á netinu og hlægja að einhverju á youtoobe - en það er nú önnur saga. Eftir safnferðina rúntuðum við aðeins um bæinn og enduðum svo á Glerártorgi, í Pottum og prikum, þar sem þau versluðu aðeins (alltaf að styrkja tengdadótturina).
Í dag fóru þau svo og eins og alltaf þegar góðir gestir fara aftur verður svolítið tómarúm í húsinu. En það styttist í næstu gesti því Anna systir og Sigurður koma til landsins á föstudaginn og líklega norður fljótlega eftir það.
miðvikudagur, 8. júlí 2009
Sumarfríið heldur áfram
laugardagur, 4. júlí 2009
Ég skal mála allan heiminn...
Svo á morgun þarf bara að flytja inn í nýja herbergið og setja upp gömlu gardínurnar því þær nýju koma ekki fyrr en eftir ca. 10 daga. Það vantar reyndar líka fataskáp... en það er nú vegna verkstols húsfreyjunnar. Ég skoðaði Ikea fataskápa í blaði og leist ágætlega á en varð aldrei úr verki að panta viðeigandi skáp. Líklega óx mér eitthvað í augum að setja saman heppilega útgáfu/samsetningu af hillum, skúffum og hengiplássi. Að minnsta kosti vantar skápinn því Andri var víst bara með kommóðu. Já og skrifborð - undir fötin sín... ;) Skilji það hver sem skilið getur.
Annars er ósköp ljúft að vera í sumarfríi. Mér brá svolítið mikið í gær þegar mér fannst allt í einu að ég þyrfti að byrja að vinna næsta föstudag. Sem betur fer ruglaðist ég um eina viku og fæ frí í heilar tvær vikur í viðbót :)
miðvikudagur, 1. júlí 2009
23ja stiga hiti í forsælu og 31 stig fyrir sunnan hús
mánudagur, 29. júní 2009
Komin heim úr 5 daga ferð á Vestfirði
Við fórum af stað á miðvikudagsmorgni og ókum sem leið lá vestur í Stykkishólm. Þar fengum við okkur að borða og skoðuðum vatnasafnið en tókum svo ferjuna yfir til Flateyjar þar sem við gistum yfir nótt. Það var yndislegt að vera í Flatey og við sváfum í húsi niðri við sjó með fuglasöng í eyrunum alla nóttina.
Um hádegi næsta dag sigldum við svo með Baldri áfram að Brjánslæk og tók sú ferð ekki nema rúma klukkustund. Þar fengum við okkur að borða að Hótel Flókalundi en ókum svo á Rauðasand. Stoppuðum bílinn að Melanesi og gengum áleiðis að Sjöundaá en komumst víst ekki alla leið. Fórum bara niður í fjöru og nutum þess að vera þar við sjóinn í alveg frábæru veðri. Með í för var hundur af næsta bæ við Melanes og fylgdi hann okkur allan tímann. Það var ótrúlega gaman að fylgjast með honum leika sér í sandinum.
Næst lá leiðin að Látrabjargi þar sem við gengum uppá bjargið og fylgdumst með fuglunum í dágóða stund. Við skriðum á maganum fram á bjargbrúnina til að ná sem bestu sjónarhorni án þess að vera í hættu á að detta niður. Næst lá leiðin að Breiðuvík þar sem við borðuðum síðbúinn kvöldmat, kjöt í karrý, um hálfníu leytið um kvöldið.
Við athuguðum með gistingu að Hnjóti en þar var ekki hægt að fá morgunmat og þar sem við vorum ekki með neinn mat meðferðis (smá klaufaskapur í skipulagningunni...) ákváðum við að fara frekar á Patreksfjörð. Þar fengum við gistingu hjá gamalli konu sem var búin að reka gistiheimili í 30 ár, hvorki meira né minna. Hún sagði að fyrir 30 árum hefði þetta verið rosalega flott og vissulega hafði aðstaðan eitthvað látið á sjá en engu að síður var herbergið stórt og snyrtilegt og allt 100% hreint. Morgunmaturinn var líka afskaplega glæsilegur.
Þegar hér var komið sögu var mig farið að langa mikið í sund og úr varð að við fórum í sund á Tálknafirði. Þar er ágætasta útisundlaug og heitir pottar. Svo ókum við á Bíldudal en bærinn sá var fullur af fólki vegna þorpshátíðar sem bar nafnið Bíldudals grænar. Við ætluðum að kaupa okkur nesti til að taka með okkur í Selárdal en lentum í vondum málum því engin er kjörbúðin á staðnum. Það eina sem hægt var að kaupa voru smurðar samlokur úr hræðilega vondu fransbrauði - en betra en ekki neitt.
Leiðin út í Selárdal var afskaplega falleg og við nutum glampandi sólar og hita, eins og allan tímann í ferðinni. Stoppuðum oft og fórum út úr bílnum og tókum myndir. Það var svolítið skrítið að sjá listaverkin hans Samúels, hann hefur verið afar sérstakur svo ekki sé meira sagt, en gott að verið er að gera þau upp því þetta er merk heimild.
Nú var brunað aftur á Bíldudal þar sem við tókum bensín en þaðan lá leiðin alla leið á Þingeyri við Dýrafjörð þar sem Hjörtur bróðir Vals og Guðbjörg kona hans eru að gera upp gamalt hús. Við stoppuðum reyndar dágóða stund, fyrst á Dynjandisheiði og svo við fossinn Dynjanda, og tókum myndir og nutum góða veðursins.
Á Þingeyri dvöldum við svo í góðu yfirlæti frá föstudagskvöldi fram á sunnudagsmorgun. Skelltum okkur meðal annars á kaffihús, Simbahöllina, sem ung hjón voru að opna. Maðurinn er belgískur og konan er dönsk en þau keyptu gamalt hús fyrir nokkrum árum og hafa verið að gera það upp síðan með góðum árangri. Þetta er ungt og kraftmikið fólk og gaman að sjá hvað þau eru mikil lyftistöng fyrir plássið.
Í gærmorgun lögðum við svo af stað heim á leið eftir ljúfa dvöl hjá Hirti og Guðbjörgu. Ókum alla leið nánast í einum rykk en stoppuðum þó í Flókalundi og Búðardal til að fá okkur að borða. Engu að síður tók heimferðin nærri 8 tíma, enda keyrir maður ekki hratt á íslenskum malarvegum. Heima biðu tveir kettir, tveir synir og Hrefna og Erlingur sem eru komin heim í sumarfrí. Það var gaman að sjá þau öll og Valur skveraði fram þessari dýrindis máltíð eins og ekkert væri, þrátt fyrir langan akstur heim.
P.S. Ég ætla að setja inn myndir úr ferðinni, þarf bara að gera það í annarri tölvu, en það verður bráðlega.
laugardagur, 20. júní 2009
Fyrsti veiðitúr sumarsins hjá Val
Ég vaknaði klukkan hálf átta í morgun eins og lög gera ráð fyrir en af því það er nú laugardagur þá reyndi ég af miklum móða að sofna aftur - og tókst það. Vaknaði næst klukkan hálf tíu og fór þá á fætur. Búin að liggja í rúminu í tíu og hálfan tíma og orðin stíf eins og staur. Þá er sundið bjargvætturinn og ég var nú öll mýkri og betri að því loknu. Ákvað að gera mér dagamun og í stað þess að fara heim að borða morgunmatinn fór ég í Pennann og fékk mér kaffilatté og fletti nokkrum tímaritum. Þar á eftir fór ég á smá búðarrölt og keypti mér meira að segja einn bol. Efnið í honum fannst mér rosalega fallegt en veit ekki alveg með sniðið. Þarf að máta við einhverjar flíkur sem ég á til að sjá hvort ég ætla að eiga hann eða ekki.
Þar sem kokkurinn er ekki heima þarf ég að elda matinn í kvöld og varð lambahryggur fyrir valinu. Ég ætlaði að fletta upp í hinni sígildu Helgu Sigurðar en fann þar ekkert um steikingu á lambahrygg. Kannski hef ég ekki leitað nógu vel. En það reddast. Verra með sósuna. Ég hef ekki gert brúna sósu í háa herrans tíð. Synirnir eru hins vegar miklir sósukallar, eins og meginþorri Íslandinga reyndar, þannig að ég reyni að sulla einhverju saman :-) Og nú er ég að spá í að fara smá rúnt og vita hvort ég rekst ekki á einhver myndefni.
fimmtudagur, 18. júní 2009
Öðruvísi dagur
miðvikudagur, 17. júní 2009
Gaman að fá gesti
þriðjudagur, 16. júní 2009
Konsert í gufunni
sunnudagur, 14. júní 2009
Valur horfir yfir bæinn
Þessi bekkur er staðsettur innst í Kotárgerði og alveg upplagt að fá sér sæti á sólríkum sumarkvöldum og fylgjast með sólinni setjast.
laugardagur, 13. júní 2009
Laisy Daisy
föstudagur, 12. júní 2009
Alein í Mullersæfingunum í morgun
þriðjudagur, 9. júní 2009
Í Skíðadal
Við Valur fórum í enn eina ljósmyndaferðina síðasta sunnudag. Í þetta sinn var ferðinni heitið í Svarfaðardal. Ókum við svo inn Skíðadal og hluta af einhverjum vegi inn á afrétt. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvað þetta fjall heitir en það var afskaplega tíguleg fjallasýnin þarna.
Annað gengur sinn vanagang. Máni lenti í slagsmálum í gær og var með stórt gat á skottinu þar sem hann hefur verið bitinn. En sárið virðist ætla að gróa af sjálfu sér og engin ástæða til að fara með hann til dýralæknis.
Ísak er byrjaður í vinnuskólanum og Andri byrjar líklega bráðum að vinna hjá okkur í Pottum og prikum. Byggingafyrirtækið sem hann hefur unnið hjá síðastliðin tvö sumur er hætt starfsemi svo ekki fékk hann vinnu þar. Hins vegar getum við ekki boðið honum nema rúmlega hálfa vinnu eða svo - en pabbi hans ætlar líka að ráða hann í vinnu við húsamálun held ég.
Það styttist í sumarfrí hjá Val og þar með fyrstu og einu skipulögðu veiðiferð sumarsins. Sem er líklega 90% samdráttur frá undanförnum árum. Spurning hvort hann á ekki eftir að redda sér einhverjum túrum, ætli hann þoli nokkuð við öðruvísi. Annars er ekkert planað hjá okkur í sumar, ætli þetta verði ekki bara látið ráðast allt saman.
sunnudagur, 7. júní 2009
Lyngrós held ég að hún heiti
og er í garðinum hjá okkur. Hefur verið ósköp óframfærin síðustu sumur en nú allt í einu er fullt af blómum. Gaman að því :)
Þá opnar loks aftur kl. 8 á morgnana í sundlauginni
fimmtudagur, 4. júní 2009
Eldsnögg ferð til Reykjavíkur að baki
sunnudagur, 31. maí 2009
Við Mývatn
Já við Valur fórum til Mývatns í dag og vorum fyrst heillengi að ganga um Dimmuborgir og taka myndir. Ætluðum nú ekki að fara svona langt en það gerðist samt alveg óvart og vorum við að rölta þarna um í hátt í þrjá tíma. Veðrið var svona la la, sól á köflum og frekar kalt og hvasst. Næst fengum við okkur kaffi og rúgbrauð með reyktum silungi í Gamla bænum. Að því loknu fórum við á myndlistasýningu í hlöðu þar sem nokkrar listakonur eru með samsýningu, meðal annars Guðbjörg mágkona Vals. Þetta er fjölbreytt sýning og var gaman að sjá hana og sérstaklega gaman að hitta Guðbjörgu. Þetta var bara mjög fín ferð og við erum bæði rjóð í kinnum og hálf dösuð eftir alla útiveruna.
laugardagur, 30. maí 2009
Ég hef víst ekki verið í blogg-gírnum undanfarið
Við Valur vöknuðum bæði klukkan sjö í morgun og gátum hvorugt sofnað aftur. Þannig að það var snemmbúið morgunkaffi og svo fórum við út í Kjarnaskóg og gengum þar góðan hring. Við gengum hluta af einverri hjólabraut, sem er þröngur stígur og skemmtilegt að fara aðeins út af þessum venjulega malarstíg.
Svo hefur dagurinn einkennst af meiriháttar leti af minni hálfu. Valur hins vegar er búinn að fara í ræktina, vinna í garðinum, hreinsa myndavélar og er núna að þvo bílinn. Engin uppgjöf hjá honum frekar en venjulega.
Á eftir erum við að fara í fermingarveislu. Það er svolítið merkilegt með veislur, ég er ekki alltaf að nenna að hafa mig af stað í þær, en svo þegar ég er komin á staðinn er yfirleitt voða gaman. Ég á nú reyndar eftir að sjá hvernig fötin sem ég hef sett saman í huganum passa í raun saman. Vonandi vel því ég nenni ekki að upphugsa nýja fatasamsetningu. Það að ákveða í hverju ég á að vera er orðið eitt af því leiðinlegasta sem ég geri. Dettur aldrei neitt í hug og stend bara stjörf fyrir framan fataskápinn á morgnana. Nú er ég reyndar búin að kaupa mér tvo nýja langerma boli svo vonandi skánar þetta eitthvað við það.
Hugsanlega brunum við eitthvert burt úr bænum á morgun í ljósmyndaferð, fer eftir veðri og vindum.
þriðjudagur, 26. maí 2009
Enn á lífi en ekkert í fréttum
Bara smá þreyta í kellunni í dag, sennilega eftir hjóltúr með eiginmanninum í gærkvöldi. Það vantar ekki hestöflin í hann - en ég hins vegar kláraði bensínið fljótt og átti nú bara í smá basli með að koma mér áfram á tímabili. Engu að síður er gaman að fara út að hjóla og líkaminn er hættur að bregðast jafn ofsalega við þessari nýju tegund af áreynslu.
Það hafa skipst á skin og skúrir í veðrinu í dag. Ég vaknaði í sólskini í morgun og það hélst á meðan ég fór í sund og gerði Mullersæfingar. Svo kom ég heim og borðaði morgunmatinn meira að segja úti í garði - en var að vísu eiginlega að drepast úr kulda. Uppúr hádeginu fór svo að rigna og þegar ég ók heim úr vinnunni var hellirigning við Glerártorg en þegar ég ók upp Dalsbrautina rigndi ekkert þar og hafði greinilega ekki gert. En svo fór að rigna á brekkunni líka en það stóð samt ekki lengi því brátt var sólin farin að skína. Núna er hins vegar einhver úrkoma. Og hér með líkur þessu veður-rapporti.
mánudagur, 25. maí 2009
Fyrir mömmu
sunnudagur, 24. maí 2009
Frammi í firði
Ég skrapp í smá ljósmyndarúnt seinni partinn í dag. Ók fram í fjörð og upp fram hjá Finnastöðum og þann hring (veit ekki hvað þetta heitir). Það var ekki sérlega bjart og á nippinu að fara að rigna en þó komu aldrei meira en nokkrir dropar. Tja, fyrr en í kvöld, þá kom hellirigning. En ég hafði ekki tekið myndir lengi og var farið að klæja í puttana - og fékk alla vega smá útrás :)
fimmtudagur, 21. maí 2009
Fyrst ofan í sundlaugina í morgun
Nú var ég að reyna að hringja í Hrefnu á Skype-inu en hún svaraði ekki. Við ætluðum að óska henni til hamingju með frábæra einkunn í B.Sc. ritgerðinni, sem hún var að klára þegar við mamma vorum í Danmörku um daginn. Hrefna var farin að hafa smá áhyggjur af því hver árangurinn yrði því leiðbeinandinn var víst lítið fyrir að hrósa og hafði sagt fátt jákvætt - en svo fékk hún hvorki meira né minna en 12 sem er hæsta einkunn! Og nú er ég búin að opinbera það hérna á blogginu og vona að hún skammi mig ekki fyrir það...
Í morgun hefur Valur spilað Megas á vínylplötu sem Kiddi færði honum, og hefur mörg orð um orðsnilli skáldsins. Svo liggur leið hans brátt út í garð þar sem hann heldur áfram við vorverkin. Vorverkin mín áttu eiginlega að vera þau að þvo garðhúsgögnin + bera olíu á þau + kaupa nýjar sessur í stólana - en ég er ekki búin að gera neitt af þessu. Er samt búin að setja sumarblóm í pottana fyrir framan útidyrnar, sem er nú afrek fyrir sig :-)