þriðjudagur, 11. ágúst 2009

Lata Guðný


Hjalteyri revisited, originally uploaded by Guðný Pálína.

Titillinn vísar sem sagt til bloggleti minnar, ég get ekki sagt að ég sé mjög löt að öðru leyti þessa dagana. Ég er t.d. að vinna frekar mikið þar sem Sunna er í sumarfríi og Andri í prófalestri - en það fer nú að taka enda sem betur fer - þ.e. Andri fer í próf á morgun og Sunna kemur aftur í vinnu í næstu viku. Valur á eftir tvær vikur í sínu sumarfríi og ég hugsa bara að ég verði í fríi með honum part af tímanum. Um að gera að nýta sem mest starfskrafta Andra áður en hann stingur af til útlanda í útskriftarferð með bekknum sínum.
Áðan var ég að koma úr 100 ára afmæli, hvorki meira né minna. Og það sem meira er, afmælisbarnið er svo ern og hress að það er með ólíkindum. Til dæmis ók hún bíl þar til hún var 96 ára. Þetta var heljarinnar veisla og voru mörg börn, barnabörn og barnabarnabörn, auk annarra gesta. Mamma og Ásgrímur komu norður til að samfagna afmælisbarninu á þessum tímamótum og stoppa væntanlega í einhverja daga. Mér finnst þau vera mjög dugleg að keyra norður, komin á þennan aldur.
Aaaa, geisp, ég vaknaði klukkan fimm í morgun og gat ekki sofnað aftur. Sjálfsagt einhver streita í gangi. Þannig að núna er ég alveg að drepast úr þreytu en ætla alls ekki að leggja mig svona seint því þá sofna ég ekki á réttum tíma í kvöld.
Annars bara gengur lífið sinn vanagang. Það styttist í að skólarnir byrji aftur og manni finnst óttalega lítið eftir af sumrinu þó enn sé þetta fína fína veður úti. Hefur sennilega eitthvað að gera með að daginn er farið að stytta.
Og nú held ég að ég láti þessu bragðdaufa bloggi lokið í bili. Myndin sem fylgir er tekin á Hjalteyri þegar við Anna, Ísak og Sigurður fórum til Dalvíkur og tókum smá krók á heimleiðinni og fórum til Hjalteyrar.

Engin ummæli: