sunnudagur, 15. nóvember 2009

Sunnudagsleti

Enda varla annað hægt í þessu leiðindaveðri sem er úti núna. Slydda og slabb með rigningu í bland. Annars held ég reyndar að hann hangi þurr akkúrat þessa stundina.
Að öðru leyti er fátt í fréttum. Ég átti jú reyndar afmæli í vikunni eins og flestir ef ekki allir lesendur þessarar síðu vita. Nennti samt ekki að baka eða bjóða uppá veitingar í tilefni dagsins en við fórum út að borða á Greifann um kvöldið. Þar prófaði ég saltfiskpítsu sem bragðaðist vonum framar. Það var nú svolítið gaman að því að Hrund bróðurdóttir Vals eignaðist son á afmælisdaginn minn. Bróðir Hrundar, hann Óli Valur, er fæddur 2. ágúst eins og Valur, svo þetta er aldeilis afmælisdagasamkrull.
Svo átti Hrefna auðvitað afmæli daginn á eftir mér, en sökum fjarlægðar var víst ekkert afmæliskaffi hjá henni þetta árið... Hún eyddi nú reyndar afmælisdeginum í að bíða eftir að fara í skurðaðgerð á litla putta en þar sem sú aðgerð er ekki mjög brýn miðað við margar aðrar þá hefur henni verið frestað aftur og aftur.
Ég hef verið í fríi þessa helgina og hafði ætlað að gera margt og mikið - en hef ekki gert neitt nema hvíla mig. Í dag ætlaði ég að fara í gegnum gömul ungbarnaföt og gefa í Rauða krossinn, en ég get nú ekki séð að ég muni framkvæma það. Ekki í dag a.m.k. Skil samt ekki alveg hvað ég hef verið að geyma mikið af þessu dóti. Það eru bráðum 15 ár síðan Ísak fæddist og ungbarnatískan breytist ört eins og önnur tíska, þannig að fyrir utan fáein plögg sem hafa extra mikið tilfinningalegt gildi, þá er engin ástæða til að vera að halda uppá þetta.
Og nú þegar ég er pakksödd eftir vöfflur sem Valur bakaði áðan, langar mig mest að halla mér aðeins ;)

Engin ummæli: