sunnudagur, 27. desember 2009

Jamm og jæja...

Nú gengur þetta ekki lengur með þessa endalausu afslöppun, enda skrokkurinn farinn að kvarta yfir hreyfingarleysinu. Valur dreif sig í líkamsræktina áðan en ég lá á sófanum með tvo ketti ofan á mér og nennti ekki að drösla mér með honum. En þar sem styttist í vinnu aftur er víst best að reyna að tjasla sér eitthvað saman og t.d. þvo eitthvað af öllum þeim þvotti sem bíður í óhreinatauskörfunni. Bara blogga aðeins fyrst...

Við Valur horfðum á Barnaby í danska ríkissjónvarpinu í gærkvöldi og þegar þátturinn var búinn um ellefuleytið var svo yndislega fallegt veður úti. Það var hætt að snjóa og frekar stillt veður. Þannig að okkur datt í hug að draga Ísak með okkur og kíkja út í smá ljósmyndatöku. Fórum í innbæinn og vorum þar í um klukkutíma að taka myndir, við mikinn fögnuð unglingsins. Það voru afar fáir á ferli. Ein stelpa var úti að viðra hundinn sinn en annars var það bara stöku bíll sem ók framhjá. Sumir hægðu verulega á sér til að skoða þetta skrýtna fólk með myndavélarnar en það var nú bara skiljanlegt.

Í dag er himininn grár og reytir af sér stöku snjókorn. Það er allt á kafi í snjó hér fyrir utan. Í gær var orðið ansi ófært fyrir venjulega bíla í sumum götum og Jóni nágranna okkar gekk illa að koma bílnum út af stæðinu og festi hann tvisvar. Þá kom "Tuddinn" sér vel og Valur fór á honum og dró bílinn hans Jóns út úr snjónum. Í annað skiptið voru átökin svo mikil að reipið slitnaði, hvorki meira né minna, þannig að bíllinn hefur aldeilis verið pikkfastur.

En núna ætla ég að fá mér ávaxta/orkuhristing, fara í sturtu og reyna svo að gera eitthvað gagn hér á heimilinu!

Engin ummæli: