föstudagur, 11. desember 2009

Batnandi herbergjum er best að lifa

Hehe, ég veit nú reyndar ekki hvort hægt er að tala um að herbergi hafi líf, en ef í því felst að þau séu þannig að þau laði til sín líf í formi fólks, þá er vinnuherbergið mitt allt að lifna við. Ég nefndi um daginn að ég hefði fengið nýjan skúffuskáp undir skrifborðið og nú var ég að fá nýja hillu við hliðina á borðinu. Fram að því voru bara tvær litlar vegghillur hérna inni og tóku þær afar takmarkað magn af möppum, bókum og myndavélardóti. En í samtali við Gunnu tengdamömmu fyrir nokkru síðan nefndi hún að þau hefðu keypt sér mjóa hillu, 40 cm., og getað komið miklu af bókum fyrir í henni. Þá fékk ég þessa hugmynd, að fá svoleiðis hillu við hliðina á borðinu mínu, en það er eini mögulegi staðurinn fyrir hillu hér inni. Og nú er hún komin og Valur búinn að setja hana upp fyrir mig - og ég er alveg hæstánægð.
Svo fór ég í dag með norskar bækur á bókasafnið en ég var búin að spyrja Hólmkel amtsbókavörð að því hvort þeir vildu fá norskar bækur. Hann sagði að ef ég ætlaði að henda þeim þá skyldi ég að minnsta kosti leyfa þeim á bókasafninu að henda þeim fyrir mig... Svo ég fór með fullan kassa þangað af bókum sem ég fékk þegar ég var meðlimur í bókaklúbbi þegar við bjuggum í Noregi.
Ég fór líka með dúnúlpuna mína í hreinsun og gítarinn í viðgerð - þannig að þegar Sigurður kemur næst ætti hann að vera í lagi :-)
Já og svo fór ég og sótti vörur til heildsala, fór með bókhaldsmöppurnar fyrir Val til endurskoðanda þegar ég var búin að leggja síðustu hönd á þær ... og gerði örugglega eitthvað fleira.. já sótti hilluna niður á Flytjanda.
Þar fyrir utan var ég í vinnunni í dag og það var bara alveg brjálað að gera. Sem betur fer vorum við með eina stelpu "í þjálfun" og það munaði um að hafa hana á kassanum.
Þannig að þetta er búinn að vera býsna annasamur dagur og það var mjög gott að leggjast á sófann eftir matinn og láta líða úr sér. Í raun ætti ég að vera í fríi á morgun en það á ennþá eftir að taka upp vörur og verðmerkja svo ég þyrfti að fara í fyrramálið og klára það. Eins þurfum við Sunna heldur betur að hittast um helgina til að panta vörur, þar sem heildsalarnir eru enn að fá nýjar vörur og það þarf að ákveða hvað á að taka af þeim + fylla á það sem okkur vantar.

Engin ummæli: