mánudagur, 13. júlí 2009

Þá eru tengdaforeldrarnir búin að vera hjá okkur um helgina

Það var mjög gaman að fá þau og vonandi verða engin stórtíðindi í framhaldinu eins og síðast. Þá voru þau hér seinnipartinn í mars 2008 og þann 9. apríl fékk ég brjósklos og sama dag datt Gunna og brotnaði illa. Hún hefur ekki náð sér að fullu aftur og notar göngugrind en tók hana ekki með hingað norður, svo hún gat sig voða lítið hreyft út úr húsi.

Við fórum samt og skoðuðum Smámunasafn Sverris Hermannssonar í Eyjafjarðarsveit og höfðum öll gaman af. Matti fann símanúmer pabba síns í símaskrá frá árinu 1945 og fannst það ekki leiðinlegt. Í sömu ferð komum við við í Holtsseli og fengum okkur ís "beint úr kúnni" eða svona næstum því. Þetta er virkilega góður ís og ágætt að geta sest þarna niður á fjósloftinu og borðað ís þegar tuttugu stiga hiti er úti.

Í fyrradag hvíldu þau sig að mestu en í gær fórum við svo á Iðnaðarsafnið. Þar var brattur stigi uppá efri hæð og ófært fyrir Gunnu að komast þar upp. Að vísu var hjólastólalyfta en hún var jú ekki í hjólastól og unglingarnir sem voru að vinna þarna kunnu hvorugt á lyftuna. Þau voru reyndar líka uppteknust við að vera á netinu og hlægja að einhverju á youtoobe - en það er nú önnur saga. Eftir safnferðina rúntuðum við aðeins um bæinn og enduðum svo á Glerártorgi, í Pottum og prikum, þar sem þau versluðu aðeins (alltaf að styrkja tengdadótturina).

Í dag fóru þau svo og eins og alltaf þegar góðir gestir fara aftur verður svolítið tómarúm í húsinu. En það styttist í næstu gesti því Anna systir og Sigurður koma til landsins á föstudaginn og líklega norður fljótlega eftir það.

Engin ummæli: