mánudagur, 14. september 2009

Blogg fyrir mig :-)

Ég er örugglega tíu kílóum léttari í dag en í gær... Ekki í bókstaflegri merkingu þó - en í dag var ég að skila af mér bókhaldi Potta og prika til endurskoðanda, eftir að hafa farið í gegnum allt heila klabbið og leiðrétt villur og svoleiðis. Þetta er nokkuð sem ég hef haft hangandi yfir höfðinu á mér frá því í vor - en hef ekki komið mér að verki. Málið er að þetta er töluverð vinna sem einungis er hægt að framkvæma þegar búðin er lokuð. Við erum nefnilega með sölu- og bókhaldskerfið í kerfisleigu og ég kemst ekki í bókhaldið hér heima nema þegar lokað er í Pottum og prikum. Og það er bara á kvöldin (þegar ég er drulluþreytt), já og fyrir hádegi á sunnudögum... En það er með þetta eins og margt annað, tilhugsunin um verkið er mun skelfilegri en framkvæmdin sjálf og eins og allir vita "hálfnað er verk þá hafið er". En alla vega - ég er búin að skila þessu og er mjög glöð með það.

Það styttist í ferð okkar Ísaks til Noregs. Við ætlum að skella okkur í heimsókn til Önnu og co. og það sem meira er, Hrefna ætlar að koma frá Köben og hitta okkur. Ég á reyndar eftir að græja flugið til Reykjavíkur og tilbaka og þarf að drífa í því sem allra fyrst.

Annað fréttnæmt er það að Andri lagaði til í herberginu sínu í gær, að eigin frumkvæði, og gladdi það okkur gömlu hjónin afskaplega mikið. Svo er skólinn að byrja hjá honum og hann fór með fullan kassa af bókum á skiptibókamarkaðinn. Verst að það er svo mikið af bókum í umferð að þau ná ekki öll að losna við gamlar bækur á þennan hátt. En sniðugt er það samt.

Og nú er ég hætt þessu masi.

Engin ummæli: