laugardagur, 30. maí 2009

Ég hef víst ekki verið í blogg-gírnum undanfarið

Og er það reyndar ekki enn...
Við Valur vöknuðum bæði klukkan sjö í morgun og gátum hvorugt sofnað aftur. Þannig að það var snemmbúið morgunkaffi og svo fórum við út í Kjarnaskóg og gengum þar góðan hring. Við gengum hluta af einverri hjólabraut, sem er þröngur stígur og skemmtilegt að fara aðeins út af þessum venjulega malarstíg.
Svo hefur dagurinn einkennst af meiriháttar leti af minni hálfu. Valur hins vegar er búinn að fara í ræktina, vinna í garðinum, hreinsa myndavélar og er núna að þvo bílinn. Engin uppgjöf hjá honum frekar en venjulega.
Á eftir erum við að fara í fermingarveislu. Það er svolítið merkilegt með veislur, ég er ekki alltaf að nenna að hafa mig af stað í þær, en svo þegar ég er komin á staðinn er yfirleitt voða gaman. Ég á nú reyndar eftir að sjá hvernig fötin sem ég hef sett saman í huganum passa í raun saman. Vonandi vel því ég nenni ekki að upphugsa nýja fatasamsetningu. Það að ákveða í hverju ég á að vera er orðið eitt af því leiðinlegasta sem ég geri. Dettur aldrei neitt í hug og stend bara stjörf fyrir framan fataskápinn á morgnana. Nú er ég reyndar búin að kaupa mér tvo nýja langerma boli svo vonandi skánar þetta eitthvað við það.
Hugsanlega brunum við eitthvert burt úr bænum á morgun í ljósmyndaferð, fer eftir veðri og vindum.

Engin ummæli: