föstudagur, 9. október 2009

Kapp er best með forsjá

Já það er nú það. Mér hljóp svo mikið kapp í kinn við að klára peysuna sem ég er að prjóna, að ég hef greinilega ekki skoðað uppskriftina nógu vel. Ég er sem sagt að prjóna stærð S, og núna þegar ég er að klára munstrið, sé ég að það átti að sleppa umferð á tveimur stöðum í þeirri stærð. Arg! Fyrst í umferð 28, svo í umferð 32. Nú er ég á umferð 46 og þá fyrst tók ég eftir þessu. En það skýrir að minnsta kosti ástæðuna fyrir því að mér fannst munstrið smá skrýtið á einum stað. Hinsvegar, ef ég væri að prjóna M eða L stærð þá hefði jú ekki átt að sleppa þessum umferðum og þá væri jú munstrið í þeim peysum eins og það er hjá mér núna (sem sagt skrýtið...). Æi, nú veit ég ekkert hvað ég á að gera. Ég hef nefnilega þurft að hafa svolítið fyrir því að prjóna þetta blessað munstur. Í fyrsta lagi vegna þess að ég er ekki í prjónaæfingu og í öðru lagi vegna þess að hvíti liturinn er alltaf prjónaður brugðinn og það er meira moj þegar er verið að skipta milli lita að geta ekki bara prjónað slétt. Þannig að - ég er engan veginn að nenna að rekja upp þessar 14 umferðir! Best að taka sér pásu frá prjónaskapnum í bili. Hún má bara ekki verða of löng, svo ég klári nú blessaða peysuna og hún endi ekki í körfunni með brúnu peysunni sem ég náði aldrei að klára. Ég hafði reyndar sett mér það markmið að vera búin með þessa peysu fyrir 24. okt. því þá fer starfsfólkið á Læknastofum Akureyrar í bústaðaferð í Mývatnssveit og þá ætlaði ég að skarta peysunni. Jæja, við sjáum hvað setur. En ef einhverjar reyndar prjónakonur lesa þetta blogg (s.s. Anna systir) mega þær gjarnan segja álit sitt...

Ég er að vinna seinnipart í dag og hef sem sagt setið með prjónana í morgun og hlustað á rás 1 í Ríkisútvarpinu. Greinilegt ellimerki:) En núna er ég bara orðin svo syfjuð en hef eiginlega ekki tíma til að leggja mig fyrir vinnu því ég á eftir að erindast aðeins fyrir vinnuna og svo borða og taka mig til.

Á morgun er ég líka að vinna en um kvöldið ætlum við að hittast gamlar skátasystur og rifja upp góðar minningar. Það er bara verst að ein okkar er að vinna og önnur er í Reykjavík og því miður lítur ekki út fyrir gott flugveður í kvöld.

Engin ummæli: