þriðjudagur, 10. nóvember 2009

Fallegur dagur

Já, svona var fallegt um að litast á Gáseyri á sunnudaginn var. Við Valur fórum út að taka myndir því ég var gjörsamlega að andast úr andleysi og þurfti nauðsynlega að fá mér súrefni. Hann hafði reyndar farið fyrr um morguninn út, meðan ég svaf enn þyrnirósarsvefni - en sem sagt fór með mig aftur seinna um daginn til að viðra mig. Það var reyndar fullt af fólki þarna á þessum tíma. Kafarar, kajak-ræðarar, hundaeigendur og hundar (sem reyndar teljast ekki til fólks strangt til tekið). Hundarnir voru alveg rosalega æstir og hlupu á ógnarhraða fram og aftur í eltingaleik. Sem betur fer er hvorugt okkar Vals með hundafóbíu en okkur varð hugsað til manneskju sem við þekkjum sem þjáist af þeim sjúkdómi á alvarlegu stigi. Henni hefði ekki verið vært þarna þennan dag.
Annars er lítið í fréttum. Ég er upp og niður og aðallega niður af gigtinni. Aðrir eru nokkuð hressir. Kettirnir eru alla vega mjög hressir og ef eitthvað er, að verða enn hændari að mér en nokkru sinni fyrr. Máni eltir mig á röndum hvert sem ég fer og Birta mænir á mig eins og húsbóndahollur hundur.
Varðandi þessa mynd, þá var hún ennþá skýrari, en ég var að vinna hana eitthvað í tölvu og klúðraði því greinilega. Að minnsta kosti er hún ekki eins alveg eins og hún átti að vera.

Engin ummæli: