fimmtudagur, 31. desember 2009

Rólegheita og afslöppunardagur

Síðasti dagur ársins í dag og hér í húsinu eru og munu verða rólegheit í dag og í kvöld. Ég svaf nú til að verða hálf ellefu og var í þónokkra stund að velta því fyrir mér hvað ég ætti að gera næst. Átti ég að fara í sund, í ræktina, eða út að taka myndir. Það síðastnefnda varð ofaná. Ég kappklæddi mig og fór út í Kjarnaskóg en þar var erfitt að ganga og erfið skilyrði til myndatöku. Bæði var birtan erfið og gönguskíðafólk í sífellu að fara framhjá mér. Mér finnst best að geta verið algjörlega í eigin heimi þegar ég er að taka myndir og nenni ekki að spá í fólk í kringum mig. Þannig að ég færði mig um set og fór næst að Höfners bryggju, þar sem ég undi mér um stund. Svo ætlaði ég nú bara að fara heim en þá var birtan að verða svo falleg í norðrinu og þá dreif ég mig niður á tanga og var þar alveg alein með sjálfri mér í góða stund. Tja, fyrir utan nokkra fugla og eina flugvél sem flaug yfir mig. Raunar voru líka fótspor í snjónum sem sýndu að eitthvað dýr (kanína?) hafði verið þarna á undan mér í dag. Himininn var nokkuð þungbúinn en bleikir litatónar lýstu hann upp.
Þegar ég kom heim beið mín kaffilatté á borðinu og við hjónakornin fengum okkur kaffi saman. Að því loknu fóru Ísak og Valur að kaupa eitthvað smá flugeldadót handa Ísaki en ég fór í tölvuna. Nú er það bara letin sem ræður ríkjum. Við erum ekki að fá neina gesti í kvöld og förum ekki neitt, svo hér verður bara matur þegar við nennum að borða. Og ég get ekki sagt að ég nenni þá að stressa mig yfir því hvernig húsið lítur út. Nema stofan þar sem við borðum. Ætli ég muni ekki sjá til þess að hún líti sómasamlega út. Prófi nýju diskamottu-borðdúkana frá Önnu systur. En sem sagt, við verðum bara þrjú í mat í kvöld þar sem Andri er jú ennþá í útlöndum og Hrefna verður með pabba sínum og hans fólki. Ísaki leist nú ekki alveg á þetta fyrirkomulag og spurði hvort við gætum ekki boðið einhverju fólki í mat - en það er nú víst heldur seint í rassinn gripið. Við Valur verðum bara að reyna að vera extra skemmtileg í kvöld, hehe :)
Æjá, myndin sem fylgir er ekki tekin í dag, heldur 26. des. þegar hætti loks að snjóa.
Og já, þetta er mjög sjálfhverf bloggfærsla, en það er nú einu sinni eðli mitt sem bloggara að blogga mest um sjálfa mig...

Engin ummæli: