miðvikudagur, 8. júlí 2009

Sumarfríið heldur áfram

og ég geri fátt annað en slappa af en er samt alltaf þreytt. Þetta er náttúrulega ekki í lagi! Ég reyndar hjólaði í sund í gærmorgun og synti heilar 44 ferðir, eða 1,1 kílómetra og var nú bara ansi roggin með mig. Kom svo heim, borðaði morgunmat og gerði fátt annað þann daginn. Lá úti í garði með norska sakamálasögu og bakaði mig í sólinni. Var komin með hálfgerðan sólsting þegar upp var staðið því ekki gat ég lagt bókina frá mér áður en hún var búin. Á meðan var Valur í hálfgerðri svaðilför. Hann ætlaði austur á Langanes að skoða Súluvarp sem þar er og lagði af stað um níuleytið um morguninn. Um tólfleytið hringdi hann með þær fréttir að það hefði sprungið á tveimur dekkjum og hann væri strandaglópur ca. 20 kílómetra frá Þórshöfn. Þá hafði hann ekið utan í einhverja steinnibbu sem hafði skorið í bæði dekkin bílstjóramegin. En hann var ótrúlega heppinn. Á meðan við vorum að tala saman sá hann tvo jeppa nálgast og þeir voru með dekkjaviðgerðargræjur með sér og gátu gert við annað dekkið til bráðabirgða og síðan var varadekkinu skellt undir hitt hjólið. Ekki þorði hannn þó að aka að fuglabjarginu á svona lélegum "skóm" og ekki fengust nein dekk á Þórshöfn, svo hann ók hægt og rólega heim aftur. Frekar leiðinlegt fyrir hann en ég verð að segja að hann tók þessu með ótrúlegu jafnaðargeði.

Engin ummæli: